Öryggisráð sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandið bregðast íbúum líbíu

Amnesty International sakar alþjóðasamfélagið um að bregðast íbúum Líbíu á örlagastundu eftir að Muammar al-Gaddafi leiðtogi Líbíu hefur hótað að „fara hús úr húsi og hreinsa landið“.

Amnesty International sakar alþjóðasamfélagið um að bregðast íbúum Líbíu á örlagastundu eftir að Muammar al-Gaddafi leiðtogi Líbíu hefur hótað að „fara hús úr húsi og hreinsa landið“.

Samtökin gagnrýna viðbrögð Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við vaxandi ofbeldi í landinu og skora á ráðið að grípa til afdráttarlausra aðgerða. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf út yfirlýsingu á þriðjudag þar sem kallað var eftir því að endi yrði bundinn á ofbeldið í Líbíu og leiðtogi landsins hvattur að virða mannréttindi, en ráðið hefur enn ekki gripið til neinna afgerandi ráðstafana.

Amnesty International gagnrýnir jafnframt Afríkusambandið sem hefur ekki kallað saman friðar-og öryggisráð sitt til að ræða mannréttindaástandið í Líbíu.  Hundruð mótmælenda hafa fallið í átökunum síðustu daga og Amnesty International berast stöðugt fregnir af málaliðum frá Afríkuríkjum sem stutt hafa leiðtoga Líbíu í að mæta mótmælendum af hörku. Amnesty International skorar á Afríkusambandið að tryggja að aðildarríki sambandsins gerist ekki samsek með þeim mannréttindabrotum sem verið er að fremja í Líbíu.

Muammar al-Gaddafi hefur lýst því yfir að hann ætli sér að halda völdum og muni taka af lífi alla þá sem sýna honum andstöðu. Leiðtoga Líbíu verður að vera gert ljóst að hann mun þurfa að svara til saka í samræmi við alþjóðalög fyrir þá glæpi sem hann hefur framið. Íbúar Líbíu þurfa á tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins að halda, ekki huggunarorðum. 

Amnesty International telur að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði tafarlaust að koma á vopnasölubanni til Líbíu sem og að frysta eignir Gaddafi og helstu ráðgjafa hans innan hers og öryggissveita. Arabasambandið hefur meinað Líbíu þátttöku á fundum sambandsins og skorar Amnesty International á sambandið að standa við yfirlýsingar sínar og ýta úr vör óháðri rannsókn á ástandinu í Líbíu.

Amnesty International skorar á:

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að koma tafarlaust á vopnasölubanni til Líbíu og koma í veg fyrir flutning á vopnum og hermönnum, frysta eignir Gaddafi og undirmanna hans í hernum, og senda ótvíræð skilaboð þess efnis að glæpir sem falla undir alþjóðalög verði rannsakaðir og þeir sem ábyrgð bera verði látnir svara til saka.

Afríkusambandið og aðildarríki þess að rannsaka meintan vopnaflutning frá Afríku til Líbíu, tryggja eftirlit með landamærum að Líbíu og flugumferð til landsins.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að vísa Líbíu tafarlaust úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem 47 ríki eiga sæti.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að senda rannsóknarnefnd til Líbíu sem skoðar öll mannréttindabrot í landinu og hvort vísa eigi málum til Alþjóðalega sakamáladómsstólsins.

Líbíu og nágrannaríki að tryggja öruggan brottflutning þeirra sem óska þess að yfirgefa landið.