Úgandískir mannréttindahópar hafa fagnað dómsúrskurði sem meinar fjölmiðlum að birta nöfn samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender-fólks, í kjölfar herferðar æsifréttablaða gegn meintu samkynhneigðu fólki.
Úgandískir mannréttindahópar hafa fagnað dómsúrskurði sem meinar fjölmiðlum að birta nöfn samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender-fólks, í kjölfar herferðar æsifréttablaða gegn meintu samkynhneigðu fólki.
Dómari við áfrýjunarrétt kvað upp úrskurð gegn æsifréttablaðinu Rolling Stone, sem birti á síðasta ári röð lista og ljósmynda af meintu samkynhneigðu fólki. Sumir þessara einstaklinga urðu fyrir árásum í kjölfar þess að nöfn þeirra voru birt.
Dómarinn, Vincent Musoke-Kibuuke, meinaði Rolling Stone og öllum öðrum úgandískum fjölmiðlum að birta persónuupplýsingar um samkynhneigða, tvíkynhneigða og transgender-fólk.
„Samfélag baráttufólks fyrir mannréttindum fagnar þessum úrskurði sem tímamótum í baráttunni fyrir mannlegri reisn og friðhelgi einkalífs, óháð kynhneigð,“ sagði yfirlýsingu mannréttindasamtakanna „Civil Society Coalition on Human Rights and Constitutional Law“ í Úganda.
Vikufréttablaðið Rolling Stone, sem háskólanemar hleyptu af stokkunum á síðasta ári, birti það sem kallaðist í blaðinu „100 myndir af aðalhommunum í Úganda“ þann 2. október 2010. Önnur grein bar yfirskriftina „hengið þau“ fyrir ofan lista af nöfnum og myndum.
Réttindahópar vöruðu við því að greinarnar stefndu samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender-fólki í hættu. Í það minnsta fjórir einstaklingar sem nefndir voru í greininni sögðust hafa orðið fyrir árásum, þeirra á meðal kona sem sagðist ítrekað hafa þurft að yfirgefa heimili sitt í kjölfar þess að nágrannarnir létu grjót dynja á því.
Önnur úgandísk æsifréttablöð, svo sem „Red Pepper“ og „Onion“, hafa einnig birt hatursgreinar gagnvart samkynhneigðum.
„Þrátt fyrir að þetta bann sé jákvætt skref fyrir samkynhneigða í Úganda, þá er staðreyndin sú að stjórnvöld í landinu hafa lengi verið þögul gagnvart þeirri mismunun, hótunum og ofbeldi sem blasir við samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender-fólki í Úganda,“ sagði Kasha Jackqueline, ein af þremur sem höfðuðu mál gegn tímaritinu Rolling Stone.
Ritstjóri Rolling Stone, Giles Muhame, sagðist myndu áfrýja úrskurði hæstaréttar gegn æsifréttablaðinu.
Mismunun gegn samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender-fólki er algeng í Úganda, þar sem lögregla stundar geðþóttahandtökur og hneppir karla og konur í varðhald, sem sökuð eru um að stunda kynlíf með öðrum af sama kyni.
Mannréttindasamtök hafa skjalfest tilfelli þar sem samkynhneigðar konur og karlar hafa verið pynduð í varðhaldi vegna kynhneigðar sinnar.
Í október 2009 var „frumvarp gegn samkynhneigð“ lagt fram, sem Amnesty International telur árás á tjáningarfrelsið, en þingið hefur ekki enn samþykkt það.
Frank Mugisha, baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender-fólks, en hann er einn þeirra sem tilgreindur var í Rolling Stone, sagði við Amnesty International í nóvember: „Þessi hommafælni á rætur sínar að rekja til fáfræði. Sú staðreynd að það er ekkert rými fyrir umræður eða skilning er ástæða þess að sumir þessara embættismanna skilja ekki baráttumál samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender-fólks.“
