Tíu árum eftir innrásina í Afganistan undir stjórn Bandaríkjanna hefur afganska stjórnin og alþjóðlegir bakhjarlar hennar ekki enn uppfyllt mörg þeirra loforða sem þau gáfu afgönskum almenningi.
Tíu árum eftir innrásina í Afganistan undir stjórn Bandaríkjanna hefur afganska stjórnin og alþjóðlegir bakhjarlar hennar ekki enn uppfyllt mörg þeirra loforða sem þau gáfu afgönskum almenningi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið Afganistan 10 árum síðar: hægar framfarir og brostin loforð (Afghanistan 10 years on: Slow progress and failed promises)
Miklar vonir voru bundnar framtíð Afganistan í kjölfar alþjóðlegu íhlutunarinnar en síðan þá hafa spilling, óstjórn og árásir uppreisnarmanna grafið undan mannréttindum.
Margir Afganar bera von í brjósti um að ástand mannréttinda batni í landinu. Afganska ríkisstjórnin og alþjóðlegir bakhjarlar hennar verða að styðja við bakið á mannréttindum í landinu með raunhæfum aðgerðum.
Mælistikur Amnesty International um ástand mannréttinda í Afganistan sýna að einhverjar framfarir hafa orðið á framfylgd mannréttindalaga, dregið hefur úr mismunun gegn konum og aðgengi að menntun og heilsugæslu batnað.
Afghanistan 10 years on
En réttarkerfinu og löggæslu hefur ekki farið fram og jafnvel hnignað. Öryggi fólks hefur minnkað og fleiri flosnað upp af heimilum sínum. Lífsskilyrði Afgana, sem búa á svæðum þar sem uppreisnarmenn hafa mest látið til sín taka, hafa versnað til mikilla muna.
Smátt en þróttmikið samfélag blaðamanna hefur orðið til. Konur hafa í nokkrum mæli komið aftur í skóla, á vinnustaði og í vinnu hjá stjórnvöldum. Þetta eru merki um framþróun síðustu tíu ár.
Afganistan hefur einnig sett margvísleg lög sem virðast styrkja réttindi kvenna. Nýja stjórnarskráin gefur konum og körlum jafnan rétt og tryggir einnig ákveðið hlutfall kvenna á þingi. Í kosningunum 2005 og 2010 fengu konur örlítið fleiri sæti á þinginu en lágmarkið sem stjórnarskráin kveður á um.
En ofbeldi gegn blaðamönnum og fjölmiðlafólki hefur aukist. Á svæðum þar sem Talibanar og aðrir uppreisnarhópar hafa mikil ítök er tjáningar- og skoðanafrelsi mjög skert.
Nú, þegar hömlum Talibana hefur verið létt, hefur aðgengi að menntun mjög batnað. Um 7 milljónir barna ganga í skóla. Af þeim eru 37% stúlkur. Í stjórnartíð Talibana voru minna en 1 milljón nemenda og nærri engar stúlkur fengu að sækja skóla.
Hins vegar hafa að minnsta kosti 74 skólar í Afganistan verið eyðilagðir eða neyðst til að loka á níu mánaða tímabili fram að desember 2010. Ástæðan er aðgerðir uppreisnarmanna, sem hafa skotið eldflaugum að skólum, sprengt þá upp, kveikt í þeim eða hótað ofbeldi. Þar af beindust árásirnar að 26 stúlknaskólum, 13 strákaskólum og 35 blönduðum skólum.
Afgönsk stjórnvöld og bakhjarlar þeirra geta ekki haldið áfram að réttlæta frammistöðuleysi sitt með tilvísan í það að ástandið sé betra en á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem Afgönum var tryggt öryggi og fjárhagsaðstoð unnu þeir þrekvirki í úrbótum. En of oft hafa loforð um aðstoð ekki verið efnd.
Úrbætur sem urðu eftir 2001 hafa beðið verulegan hnekki vegna harðnandi átaka. Óöryggið hamlar skólastarfi og heilsugæslu á átakasvæðum og í sveitum landsins. Mæðradauði hefur minnkað en er samt meðal þess mesta sem gerist í heiminum.
Í byrjun 2010 hófu afgönsk stjórnvöld sáttaumleitanir við Talibana og aðra uppreisnarhópa. En 70 manna friðarráð, sem komið var á laggirnar til viðræðna við Talibana, hefur einungis níu kvenmenn innanborðs og samtök kvenna í Afganistan hafa áhyggjur af því að umbótunum, sem þó hafa orðið, verði kastað á glæ í vopnahlésviðræðunum. Miklu skiptir að það gerist ekki.
Sífellt fleiri Afganir hafa látist af völdum átakanna síðasta áratug. Síðustu þrjú árin hafa þrír fjórðu af mannfalli almennra borgara orðið vegna árása uppreisnarhópa, en fjórðungur vegna aðgerða alþjóðaherliðsins og afganska hersins.
Sameinuðu þjóðirnar skráðu 1.462 dauðsföll almennra borgara fyrstu sex mánuði 2011, sem er nýtt met. Af þeim voru 80 prósent vegna uppreisnarhópa.
Nærri 450.000 manns hafa flúið heimili sín vegna átakanna. Flestir eru í Kabúl eða Balkh-héraði og búa við ákaflega bág skilyrði með takmörkuðu aðgengi að mat, hreinlæti eða hreinu drykkjarvatni.
Bandamenn afganskra stjórnvalda, þeirra á meðal bandarísk stjórnvöld, hafa ítrekað sagt að þeir muni ekki yfirgefa afganskan almenning. Þeir verða að standa við þessi loforð sín og tryggja að mannréttindi séu ekki fyrir borð borin, nú þegar alþjóðasamfélagið hugar að brottför frá Afganistan.
