Herforingjar tóku við völdum í Egyptalandi í kjölfar mótmælanna í byrjun þessa árs. Þeir hafa ekki efnt loforð um mannréttindaumbætur í landinu og bera ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum.
Herforingjar tóku við völdum í Egyptalandi í kjölfar mótmælanna í byrjun þessa árs. Þeir hafa ekki efnt loforð um mannréttindaumbætur í landinu og bera ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum. Þúsundir almennra borgara hafa verið fangelsaðir. Vonir sem vöknuðu meðal íbúa Egyptalands eftir að Hosni Mubarak var komið frá völdum hafa verið kæfðar og ný stjórn kúgunar í raun tekið við.
Amnesty International birtir nú skýrslu: Broken Promises: Egypt’s Military Rulers Erode Human Rights, þar sem greint er frá niðurstöðum rannsókna samtakanna á stöðu mannréttinda í Egyptalandi frá því að herforingjarnir tóku við valdataumunum í febrúar á þessu ári. Herdómstólar hafa réttað yfir þúsundum almennra borgara og öllum mótmælum og gagnrýni á yfirvöld er svarað af hörku. Kúgunaraðferðum fyrri stjórnvalda er enn beitt aðferðum, sem almenningur reis gegn í janúar á þessu ári. Reynt er að þagga niður í mótmælendum, blaðamönnum, bloggurum sem og verkafólki sem gripið hefur til verkfalla. Þeir sem hafa gagnýrt herforingjana, stjórnarhætti þeirra og beitingu herdómstóla í málum almennra borgara hefur verið ógnað af yfirvöldum.
Í skýrslu Amnesty International kemur fram að herforingjarnir hafa ekki staðið við orð sín um úrbætur og ástand mannréttinda ekkert lagast og jafnvel versnað. Vitað er um þrettán dauðadóma og að réttað hefur verið yfir a.m.k tólf þúsund almennum borgurum fyrir herdómstólum. Þessi réttarhöld uppfylla ekki lágmarkskröfur um réttláta málsmeðferð.
Pyndingar hafa haldið áfram í landinu, Amnesty International ræddi við fanga sem greindu frá pyndingum sem þeir urðu fyrir í haldi hjá hernum. Hin illræmdu neyðarlög fyrri ríkisstjórnar eru enn í gildi og hafa verið hert til muna, þannig að nú er einnig hægt að ákæra fólk á grundvelli neyðarlaganna m.a. fyrir að trufla umferð, loka vegum og útvarpa rógburði.
Amnesty International fer fram á að tjáningar- og félagafrelsi verði virt í landinu, neyðarlögin verði afnumin og að nú þegar verði hætt að rétta yfir almennum borgurum fyrir herdómstólum.
