Um 1.000 undirskriftir söfnuðust í Smáralind um helgina!

Í aðdraganda hins árlega bréfamaraþons vakti Íslandsdeild Amnesty International athygli á áhrifamætti bréfa og póstkorta til stjórnvalda er brjóta mannréttindi.

 

Í aðdraganda hins árlega bréfamaraþons vakti Íslandsdeild Amnesty International athygli á áhrifamætti bréfa og póstkorta til stjórnvalda er brjóta mannréttindi. Gestum í Smáralind gafst, meðal annars, kostur á að skrifa undir stærsta póstkort Íslands og þrýsta á stjórnvöld í Mexíkó, sem ekki hafa dregið til ábyrgðar hermenn er nauðguðu tveimur konum árið 2002.

Viðtökurnar voru frábærar: hátt í 1.000 undirskriftir söfnuðust á rúmum 3 tímum! Bestu þakkir til allra sem tóku þátt!

Ár hvert stendur Amnesty International fyrir bréfamaraþoni í tengslum við mannréttindadag Sameinuðu þjóðanna 10. desember. Næsta laugardag, 10. desember, fer bréfamaraþonið fram víðs vegar um landið (sjá nánar hér: /frettir/nr/2053 ) 

Á síðasta ári voru send rúmlega 700.000 bréf og kort til ýmissa yfirvalda og bárust þau hvaðanæva að úr heiminum.  Frá Íslandi voru send rúmlega 3.000 bréf.  Slíkur fjöldi bréfa og korta skapar verulegan þrýsting á stjórnvöld, enda lét árangurinn ekki á sér standa. Í fyrra þrýsti íslenskur almenningur á stjórnvöld víða um heim vegna mála sex einstaklinga. Fimm þeirra fengu að hluta eða öllu leyti lausn sinna mála í kjölfar bréfaskrifanna.

Ljóst er að bréfin hafa vigt og hver undirskrift er lóð á vogarskálar mannréttindabaráttunnar.