Réttindi farandfólks varin í tímamótadómi Mannréttindadómstóls Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði nýverið að Ítalía hefur brotið gegn mannréttindum með því að snúa afrísku farandfólki og hælisleitendum við á alþjóðlegu hafsvæði. Amnesty International telur dóminn marka tímamót.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði nýverið að Ítalía hefur brotið gegn mannréttindum með því að snúa afrísku farandfólki og hælisleitendum við á alþjóðlegu hafsvæði. Amnesty International telur dóminn marka tímamót.

Í máli Hirsi Jamaa og annarra gegn Ítalíu skoðaði dómstóllinn örlög 24 einstaklinga frá Sómalíu og Erítreu, sem ítölsk stjórnvöld snéru við árið 2009 og neyddu til að snúa aftur til Líbíu, þaðan sem þeir hófu ferð sína yfir hafið.

Með háttalagi sínu brutu ítölsk stjórnvöld gegn alþjóðlegum skuldbindingum um að senda ekki fólk til landa þar sem þeir gátu átt á hættu að þola mannréttindabrot.

Þessi tímamótadómur er áfellisdómur yfir ítölskum stjórnvöldum og vilja þeirra til að vinna með stjórn Mu’ammar al-Gaddafi í Líbíu, sem þekkt var fyrir kerfisbundin mannréttindabrot.

Dómurinn eflir virðingu fyrir mannréttindum í Evrópu og eflir réttarstöðu farandfólks og hælisleitenda.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Ítalía hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu með því að setja farandfólkið í hættu á illri meðferð í Líbíu og brottvísun til Sómalíu og Erítreu.

Dómurinn þýðir að stjórnvöld þurfa að virða alþjóðleg mannréttindalög þó að fólkið falli í þeirra hendur á alþjóðlegu hafsvæði. Hann féll eftir að ný stjórnvöld höfðu tekið við stjórnartaumunum, bæði á Ítalíu og í Líbíu.

Rannsóknir Amnesty International hafa sýnt fram á að margt farandfólk í Líbíu, sem kemur frá Afríku sunnan Sahara, á enn á hættu pyndingar eða illa meðferð, og margir hafa sætt geðþóttahandtökum vegna lagalegrar stöðu þeirra í landinu. Ríkisstjórnir landanna beggja eru um þessar mundir að endurvekja samstarf á mörgum sviðum, þeirra á meðal vegna ferða farandfólks.

Miður er að stjórnvöld beggja landa hafa ákveðið að endurvekja það samstarf. Nauðsynlegt er að það taki fullt tillit til þeirra meginreglna sem eru dómnum til grundvallar.