Valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

Íslandsdeild Amnesty International sendi nýverið bréf til forsætisráðherra þar sem íslensk stjórnvöld voru hvött til að fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Íslandsdeild Amnesty International sendi nýverið bréf til forsætisráðherra þar sem íslensk stjórnvöld voru hvött til að fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Hér að neðan er bréfið sem sent var til forsætisráðherra:

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Forsætisráðuneytið

v/Lækjargötu

150 Reykjavík Reykjavík 12.03.2012

Efni: Valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

Háttvirti forsætisráðherra

Íslandsdeild Amnesty International vill ítreka fyrri hvatningar til íslenskra stjórnvalda að skrifa undir og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Valfrjálsa bókunin sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 2008 mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið.

Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sæta alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu með mannréttindum, undirrita og fullgilda bókunina og stuðla með því að aukinni vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim.

Til þess að bókunin gangi í gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana.[1] Íslandsdeild Amnesty International vonar að Ísland verði í fararbroddi og sýni öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International

[1] Þrjátíu og níu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa nú þegar skrifað undir bókunina og átta þeirra fullgilt hana.