Evrópumótið í knattspyrnu: ofbeldi og refsileysi í Úkraínu

Amnesty International gerir alvarlegar athugasemdir við ofbeldi og refsileysi lögreglu í Úkraínu, en Evrópumótið í knattspyrnu fer fram þar og í Póllandi.

 

Amnesty International gerir alvarlegar athugasemdir við ofbeldi og refsileysi lögreglu í Úkraínu, en Evrópumótið í knattspyrnu fer fram þar og í Póllandi. Nýlega rændu sex lögreglumenn tveimur mönnum og beittu þá ofbeldi. Atburðurinn varð þann 21. apríl 2012 í borginni Lviv.

Þrír leikir á mótinu verða leiknir í Lviv og munu Þýskaland, Portúgal og Danmörk leika í borginni.

Amnesty International hvetur úkraínsk yfirvöld til að gefa skýr skilaboð um að mannréttindabrot verði ekki liðin með því tryggja að óháðir aðilar rannsaki kvartanir gegn lögreglunni.

Úkraínsk stjórnvöld verða að stöðva útbreidda glæpi lögreglunnar. Ef ekkert verður að gert mun það ýta undir að lögreglumenn hagi sér eins og þeir séu hafnir yfir lögin og setja fylgismenn landsliða á Evrópumótinu 2012 í hættu.

Ihor Savchyshyn og Andrei Semenyuk voru handteknir eftir ósætti á bar og myndbrot úr öryggismyndavél sýnir sex lögreglumenn ræna af þeim 2.075 dollurum samtals.

Þeir sættu einnig grófum barsmíðum af hendi lögreglumannanna þar sem sparkað var í þá, þeir kýldir, úðað á þá táragasi og þeir loks handjárnaðir. Þeir voru síðan barðir hvað eftir annað með kylfum á meðan þeir lágu á gólfinu.

 

Farið var með þá á Sykhivskiy-lögreglustöðina kl. 6 um morguninn. Þar var þeim haldið í hálfan sólarhring í varðhaldi án læknisaðstoðar eða aðgangs að lögfræðingi áður en þeim var loks sleppt. Þá var farið með þá í sjúkrabíl á nálægan spítala þar sem hvorugur mannanna gat gengið. Þeir fengu enga skýringu á varðhaldinu.

Saksóknarar á svæðinu vildu ekki höfða sakamál gegn lögreglumönnunum fyrr en lögfræðingur fórnarlambanna kom fram í sjónvarpsviðtali. Fimm lögreglumannanna voru handteknir þann 25. apríl, en sá sjötti skráði lét leggja sig inn á sjúkrahús sama dag og hélt því fram að mennirnir tveir hefðu slasað hann fjórum dögum áður.

Þetta mál er enn eitt dæmið um refsileysi lögreglunnar í Úkraínu. Yfirvöld tóku aðeins við sér eftir að fjölmiðlar voru komnir inn í málið.

Landið þarf sárlega á umbótum  að halda svo hægt sé að rannsaka brot lögreglunnar með eðlilegum hætti.

Í samantekt um mannréttindabrot í Úkraínu, sem Amnesty International gaf út 30.apríl, er fjallað um fjölmörg mál í borgum, sem verða með fótboltaleiki á Evrópumótinu, þar sem að lögreglan hefur pyndað fólk til að kúga af því fé, fá fram játningu eða einungis vegna kynhneigðar eða uppruna einstaklingsins.

„Stjórnvöld okkar segjast stefna að evrópskum stöðlum í mannréttindamálum en lögreglumenn eru á allt öðru stigi og hunsa mannréttindi. Þeir halda að þeir geti gert hvað sem er við fólk,“ sagði Andriy Golod, sem er lögfræðingur Ihor Savchyshyn og Andrei Semenyuk.

Á meðan Evrópumótið 2012 stendur yfir, frá 8.júní til 1.júlí, fara fram 11 leikir í fjórum úkraínskum borgum og tugþúsundir fótboltaaðdáenda munu heimsækja landið.