Sýrland: Gervihnattamyndir frá Aleppo vekja spurningar um öryggi almennra borgara

Gervihnattamyndir frá Aleppo og nærliggjandi svæðum, sem Amnesty International hefur nú birt, sýna að notkun þungavopna hefur aukist, þar á meðal nærri íbúðahverfum og vekja miklar spurningar um öryggi almennra borgara í aðdraganda árásar stjórnarhers Sýrlands á borgina.

Nýjar gervihnattamyndir, sem Amnesty International hefur rannsakað, sýna það sem virðast  vera nýlegir sprengjugígar nálægt Aleppo/Anadan

Gervihnattamyndir frá Aleppo og nærliggjandi svæðum, sem Amnesty International hefur nú birt, sýna að notkun þungavopna hefur aukist, þar á meðal nærri íbúðahverfum og vekja miklar spurningar um öryggi almennra borgara í aðdraganda árásar stjórnarhers Sýrlands á borgina.

Gervihnattamyndir frá bænum Anadan, nærri Aleppo, sýna það sem virðast vera yfir 600 sprengjugígar eftir stórskotaliðsárás í kjölfar harðra átaka milli sýrlenska stjórnarhersins og vopnaðra uppreisnarhópa.

Skilaboð Amnesty International til vopnaðra fylkinga í landinu er skýr: Samtökin munu skrásetja allar árásir á almenna borgara svo að hægt verði að draga þá til ábyrgðar, sem standa að baki árásunum.

Gervihnattamynd frá 31. júlí sýnir það sem virðast vera sprengjugígar nærri íbúðahverfi í Anadan. Amnesty International hefur áhyggjur af því að notkun þungavopna í íbúðahverfum í Aleppo muni hafa frekari mannréttindabrot og gróf brot á alþjóðalögum í för með sér.

Afleiðingarnar fyrir almenna borgara verða skelfilegar ef fjölmennasta borg Sýrlands verður gerð að vígvelli. Ódæðisverkunum í Sýrlandi fjölgar stöðugt.

Sýrlenski herinn og vopnaðir uppreisnarhópar verða að virða alþjóðleg mannúðarlög, sem banna að notaðar séu hernaðaraðferðir eða vopn þannig að ekki sé gert upp á milli hernaðarlegra skotmarka og almennra borgara.

Amnesty International mun halda áfram að fylgjast með ofbeldinu í Aleppo og skrásetja mannréttindabrot þar, þar á meðal með aðstoð gervihnattamynda.

Mögulegt er að forráðamenn í sýrlenska stjórnarhernum og forsvarsmenn vopnaðra uppreisnarhópa þurfi að sæta ábyrgð ef þeir gera ekki það sem í þeirra valdi stendur til að vernda almenna borgara í átökunum.

Amnesty International hvetur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að vísa ástandinu til Alþjóðlega sakamáladómstólsins og gera aðilum ljóst að alvarlega glæpi að alþjóðalögum, sem framdir eru í Sýrlandi, megi lögsækja á alþjóðavettvangi. Slíkt þýðir að dómstólar í öðrum ríkjum geta sótt þá til saka sem gerast sekir um glæpi eins og stríðsglæpi eða glæpi gegn mannkyni, þó þeir séu framdir í öðru ríki.