Óbreyttir borgarar líða mest vegna átakanna í Aleppo

Óbreyttir borgarar mega þola hræðilegt ofbeldi í átökunum milli Sýrlandshers og uppreisnarmanna um yfirráð yfir Aleppo-borg, stærstu borg landsins og viðskiptamiðstöð þess.

 

Óbreyttir borgarar mega þola hræðilegt ofbeldi í átökunum milli Sýrlandshers og uppreisnarmanna um yfirráð yfir Aleppo-borg, stærstu borg landsins og viðskiptamiðstöð þess.

Ný skýrsla Amnesty International: Civilians bearing the brunt in the battle for Aleppo, er komin út. Hún byggir á rannsóknum starfsfólks Amnesty International í Sýrlandi í fyrrihluta ágúst.

Í skýrslunni er lýst síauknum loft- og stórskotaliðsárásum Sýrlandshers á íbúðahverfi, en óbreyttir borgarar verða oft fyrir þeim árásum vegna ónákvæmni vopnanna sem notuð eru.

Notkun ónákvæmra vopna, til dæmis sprengna án fjarstýringar, fallbyssukúlna og kúlna úr sprengjuvörpum, hefur stóraukið hættuna fyrir almenna borgara.

Rannsóknarfólk Amnesty International dvaldi í Aleppo í 10 daga og rannsakaði um 30 árásir þar sem fjöldi óbreyttra borgara, sem ekki tók þátt í átökunum, féll eða særðist á heimilum sínum, eða á meðan þeir stóðu í biðröð eftir brauði, eða þar sem þeir höfðu leitað skjóls undan árásum á íbúðahverfi. Mörg börn eru meðal fallinna.

Í árásunum var oft ekki gerður greinarmunur á uppreisnarmönnum og óbreyttum borgurum. Þeim virtist beint almennt gegn íbúðarhverfum, sem eru uppreisnarmenn ráða yfir og/eða hverfum þar sem þeir hafa aðsetur frekar en gegn sérstökum hernaðarlegum skotmörkum.

Meðal fórnarlamba slíkra árása voru 10 meðlimir Kayali-fjölskyldunnar, þar af sjö börn, sem dóu í tveimur loftárásum þann 6. ágúst.

Sum fórnarlömbin dóu þar sem þau leituðu skjóls undan árásunum. Meðal þeirra var Amina Hindi, sem lést ásamt eiginmanni sínum, móður og þriggja mánaða frænku. Hún og eiginmaður hennar flúðu heimili sitt vegna átakanna og leituðu skjóls hjá bróður hennar, en féllu þegar gerð var stórskotaliðsárás á hús hans þann 8. ágúst.

Í skýrslunni segir einnig frá borgurum sem létust í biðröð eftir brauði. Langar biðraðir eru nú dag og nótt fyrir utan bakarí í Aleppo vegna brauðskorts. Þann 12. ágúst lést 13 ára stúlka, Kifa’ Samra, og 11 ára bróðir hennar, Zakarya, ásamt nágranna þeirra, 11 barna móður, meðan þau stóðu í biðröð eftir brauði nærri heimilum sínum.

Uppreisnarmenn og stjórnarherinn verða virða alþjóðleg mannúðarlög, sem mæla fyrir um að allt sé gert sem hægt er til að koma í veg fyrir mannfall óbreyttra borgara.

Þeir sem hafa gerst sekir um handahófskenndar árásir á almenna borgara geta búist við að verða sóttir til saka.

Langflest fórnarlömb hafa fallið í loft- og stórskotaliðsárásum stjórnarhersins, en stundum hefur ekki verið unnt að fullyrða hver beri ábyrgð á árásinni.

Uppreisnarmenn nota mest skammdræg léttvopn, en hafa stundum notað ónákvæm vopn eins og sprengjuvörpur og heimatilbúnar eldflaugar sem setja almenna borgara í hættu.

Amnesty International hefur einnig miklar áhyggjur af síauknum aftökum stjórnarhermanna á óbreyttum borgurum, sem ekki tengjast átökunum. Aftökurnar fara fram án dóms og laga. Lík, yfirleitt af ungum karlmönnum, sem hafa verið handjárnaðir og skotnir í höfuðið, hafa oft fundist nærri höfuðstöðvum leyniþjónustu flughersins, þar sem stjórnarherinn ræður lögum og lofum.

Einnig hefur Amnesty International áhyggjur af vaxandi brotum uppreisnarmanna í borginni, þar á meðal ólögmætum drápum og illri meðferð fanga. Samtökin hafa ítrekað hvatt uppreisnarmenn til að hætta slíkum brotum og rannsaka þegar slík brot eiga sér stað.

 

Það er skömm að deilum alþjóðasamfélagsins vegna ástandsins í Sýrlandi í ljósi þeirra miklu mannréttindabrota sem þar eru framin. Óbreyttir borgarar líða þjáningar á meðan alþjóðasamfélagið horfir undan.