Amnesty International og Greenpeace kalla eftir rannsókn vegna eiturefnaúrgangs

Trafigura er fjölþjóðlega fyrirtækið sem stóð á bak við losun eiturefnaúrgangs í Abidjan á Fílabeinsströndinni fyrir sex árum með þeim afleiðingum að 100 þúsund manns þurftu að leita sér læknisaðstoðar.

 

Kona, sem brenndist af völdum eiturefnaúrgangs, mótmælir í Abidjan á Fílabeinsströndinni ©REUTERS/Thierry Goeugnon

Trafigura er fjölþjóðlega fyrirtækið sem stóð á bak við losun eiturefnaúrgangs í Abidjan á Fílabeinsströndinni fyrir sex árum með þeim afleiðingum að 100 þúsund manns þurftu að leita sér læknisaðstoðar. Niðurstaða viðamikillar skýrslu sem Amnesty International og Greenpeace hafa gefið út er að rannsaka þarf þetta glæpsamlega athæfi fyrirtækisins.

Skýrslan The Toxic Truth  byggir á  þriggja ára rannsókn og í henni er skýrt frá þeim hrikalegu misbrestum sem ollu læknisfræðilegum, pólitískum og umhverfislegum hörmungum. Í skýrslunni er því lýst nákvæmlega hvernig núverandi lög, sem ætluð eru að koma í veg fyrir þess háttar harmleik, voru virt að vettugi. Fjöldi stjórnvalda brugðust því að stöðva ferð skipsins Probo Koala og eitraðan farm þess á leið til Abidjan.

Skýrslan vefengir lögmæti samkomulags sem gert var á Fílabeinsströndinni sem gerði Trafigura kleift að forðast lögsókn fyrir hlut sinn í losun á eiturefnaúrganginum. Viðtöl við fórnarlömbin og læknanna sem meðhöndluðu þau varpa nýju ljósi á þær hrikalegu afleiðingar sem losunin hafði.

Sex ár eru liðin frá því að þessi hræðilegi atburður átti sér stað.  Tímabært er að Trafigura sæti fullri lagalegri ábyrgð fyrir það sem gerðist. Fólkið í Abidjan þurfti ekki aðeins að líða fyrir mistök eigin stjórnvalda heldur einnig  stjórnvalda í Evrópu sem framfylgdu ekki sínum eigin lögum. Fórnarlömbin bíða enn réttlætis og ekki er hægt að ábyrgjast að svona lögbrot verði ekki framin á ný.

Þetta er saga um lögbrot fyrirtækis, mannréttindabrot og sinnuleysi stjórnvalda að vernda fólk og umhverfið. Þetta er saga sem flettir ofan af því hvernig kerfi sem á að framfylgja alþjóðalögum brást því að fylgjast með fyrirtækjum sem starfa fjölþjóðlega og hvernig eitt fyrirtæki gat notfært sér allan lagalegan vafa og glufur í lögsögunni með hrikalegum afleiðingum. Það er ekki of seint að ná fram réttlæti, að fólkið í Abidjan fái aðgang að upplýsingum um losun eiturefnanna og að Trafigura borgi fyrir glæpi sína. Einungis með því er von um að komið sé í veg fyrir að hörmungar sem þessar endurtaki sig.

Úrgangurinn var upprunalega fluttur til Hollands en Trafigura hafnaði þeim kosti að meðhöndla hann á réttan hátt vegna þess að fyrirtækið taldi verðið sem gefið var upp of hátt. Þrátt fyrir að hafa áhyggjur af úrganginum leyfðu hollensk yfirvöld að farið væri með hann frá Hollandi, sem er alvarlegt brot á lagalegum skyldum Hollands.

Árið 2007 var samkomulag gert utan dómstóla við stjórnvöld á Fílabeinsströndinni sem gaf Trafigura friðhelgi gegn lögsóknum. Í borgaralegu máli í Bretlandi, sem var höfðað fyrir hönd nokkurra fórnarlamba, náði Trafigura aftur samkomulagi án þess að þurfa að viðurkenna ábyrgð. Hollenskur dómstóll taldi fyrirtækið uppvíst að því að flytja úrgang ólöglega frá Hollandi en ákæruvaldið neitaði að taka til greina þá atburði í Abidjan sem gerðust í kjölfarið eða áhrifin á heilsu fólks.

Haft er eftir Genevieve Diallo sem býr nálægt losunarstaðnum í Abidjan:  „Við vitum ekki staðreyndirnar. Þeir sem eru raunverulega sekir hafa komist undan refsingu.“

Í skýrslunni eru settar fram ítarlegar tillögur um hvernig alþjóðasamfélagið getur tryggt að svona harmleikir endurtaki sig ekki. Þar á meðal eru skýrar viðmiðunarreglur um hvernig á að ganga úr skugga um að fyrirtæki sem starfa fjölþjóðlega geti ekki forðast alla ábyrgðarskyldu á  mannréttinda- og umhverfisbrotum.

Bresk stjórnvöld verða að hefja sakamálarannsókn á hlutverki Trafigura í losuninni í ljósi þess að margar ákvarðanir voru teknar af hinum breska anga Trafigura.  Ákvarðanir sem leiddu til hörmunganna.

Stjórnvöld á Fílabeinsströndinni verða að tryggja að fórnarlömb fái fullar bætur. Auk þess verða þau að endurmeta lögmæti samkomulagsins sem þau gerðu og gaf Trafigura algjöra friðhelgi gegn lögsóknum á Fílabeinsströndinni.

Úrgangurinn sem var losaður í Abidjan er skilgreindur hættulegur samkvæmt Basel-samningnum, en samningnum er ætlað að hafa hemil á flutningum hættulegs úrgangs á milli landa og losun þeirra. Útflutningur án samþykkis flokkast sem lögbrot.

Skýrslan er gefin út á sama tíma og aðilar Basel-samningsins hittast í Genf en það felur í sér tækifæri til að tryggja að skip með eiturefnaúrgang frá iðnaði innanborðs geti aldrei aftur losað sig við hann í fátækum löndum.