Umhverfisverndarsinni og kona hans myrt í Mexíkó

Umhverfisverndarfrömuðurinn Ismael Solorio Urrutia og kona hans, Manuela Solís Contreras, voru myrt í Chihuahua-ríki í Norður-Mexíkó.

 

 

Gríptu til aðgerða: taktu þátt í netákallsaðgerð okkar og þrýstu á stjórnvöld í Mexíkó að rannsaka morðin á Ismael Solorio Urrutia og konu hans, Manuela Solís Contreras!

 Netákallsaðgerðin: http://www.netakall.is/adgerdir/mord-a-umhverfisverndarsinnum/

Umhverfisverndarfrömuðurinn Ismael Solorio Urrutia og kona hans, Manuela Solís Contreras, voru myrt í Chihuahua-ríki í Norður-Mexíkó. Þeim hafði borist fjöldi morðhótana áður en þau voru myrt. Óttast er um öryggi annarra fjölskyldumeðlima og umhverfisverndarsinna.

Þann 22. október fundust lík hjónanna en Ismael hafði verið skotinn í höfuðið og Manuela í brjóstið. Þau voru á leið til læknis í Chihuahua-borg. Hjónin voru bæði meðlimir í El Barzón, sem eru samtök smábænda í Chihuahua, en skortur er á aðgangi að vatni í ríkinu og Ismael hafði barist fyrir umbótum í þeim efnum. 

Amnesty International hafði fregnir af endurteknum morðhótunum í garð hjónanna. Í september síðastliðinn bárust Ismael og öðrum meðlimum umhverfisverndarhreyfingarinnar morðhótanir frá óþekktum aðila. Sendar voru formlegar kærur vegna þessa til innanríkisráðherra Chihuahua-ríkis en morðhótanirnar héldu áfram. Þann 13. október var ráðist á Ismael og son hans og þeir barðir af manni sem að sögn vann hjá fyrirtæki í námuvinnslu sem var flækt í deilur um aðgang að vatni.

Þann 15. október síðastliðinn fóru meðlimir í El Barzón-hreyfingunni fram á fund með yfirvöldum og kröfðust íhlutunar til að sporna gegn frekari árásum og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að morðhótununum. Yfirvöld höfnuðu beiðninni og ekkert var að gert.

Aðgerðasinnar El Barzón-hreyfingarinnar standa nú fyrir mótmælum fyrir framan skrifstofur yfirvalda í Chihuahua-borg og krefja ríkisstjórann um að hann tryggi að réttlætið nái fram að ganga.