Gvantanamó: lokið fangabúðunum!

Nú eru liðin 11 ár frá því fyrstu fangarnir voru fluttir til Gvantanamó-fangabúðanna á Kúbu.

 

 

Taktu þátt í aðgerð okkar vegna Gvantanamó!: http://www.netakall.is/adgerdir/sleppid-hussain-almerfedi/

Nú eru liðin 11 ár frá því fyrstu fangarnir voru fluttir til Gvantanamó-fangabúðanna á Kúbu. Barack Obama Bandaríkjaforseti verður að uppfylla loforð sem hann gaf árið 2009 um að loka fangabúðunum í Gvantanamó og staðfesta um leið að Bandaríkin muni rétta yfir föngunum eða sleppa þeim ella.
 
Enn eru 166 fangar í haldi í fangabúðunum. Frá 2002 hafa 779 manns verið fluttir til Gvantanamó og langflestir mátt sitja þar í fangelsi árum saman án ákæru eða réttarhalda.

Herdómstóll hefur fellt dóma yfir sjö manns, þar af hafa fimm verið dæmdir á grundvelli samkomulags, þar sem viðkomandi hafa lýst sig seka í skiptum fyrir möguleikann á að vera leystir haldi.

 

Gvantanamó í hnotskurn

11 – ár frá því að fyrstu fangarnir voru fluttir til Gvantanamó-flóa á Kúbu.

166 – fangar þann 8. janúar 2013. Nærri helmingur eru jemenskir ríkisborgarar.

779 – fjöldi fanga sem talið er að hafi verið í haldi í Gvantanamó, langflestir án ákæru eða réttarhalda.

600 – um það bil sá fjöldi fanga sem fluttir hafa verið frá Gvantanamó til annarra ríkja frá 2002

9 – fangar hafa látist í haldi Bandaríkjamanna í Gvantanamó, síðast í september 2012.

12 – fangar voru undir 18 ára aldri þegar þeir voru handteknir.

1 – fjöldi fanga í Gvantanamó sem fluttir hafa verið úr fangelsinu til meginlands Bandaríkjanna vegna réttarhalda fyrir bandarískum alríkisdómstóli

7 – fjöldi fanga sem réttað hefur verið yfir fyrir herdómstóli

6 – fangar bíða nú mögulega aftöku að loknum óréttlátum réttarhöldum fyrir herdómstóli

 

Sex fangar eiga yfir höfði sér aftöku eftir réttarhöld fyrir herdómstóli sem uppfylla ekki alþjóðleg viðmið um réttlát réttarhöld. Allir sex fangarnir sættu þvinguðu mannshvarfi áður en þeir voru fluttir til Gvantanamó og hafa sætt misþyrmingum. Tveir þeirra hafa sætt vatnspyndingum, þar sem viðkomandi er í raun drekkt með vissu millibili.
  
Barack Obama lofaði að loka Gvantanamó-fangabúðunum innan árs eftir að hann var settur í embætti í janúar 2009.
 
Hann skipaði líka fyrir um að leyniþjónusta Bandaríkjanna skyldi hætta „hertum“ yfirheyrsluaðferðum og loka leynilegum fangelsum.

En Barack Obama hefur haldið áfram alþjóðlegu „stríði“ Bandaríkjanna og leyft ótímabundna varðhaldsvist án dóms eða ákæru.
 
Bandaríkjastjórn verður að láta af háttalagi sínu og viðurkenna alþjóðleg mannréttindalög og framfylgja þeim. Leggja verður herdómstóla niður og rétta yfir einstaklingum í óvilhöllum réttarhöldum fyrir borgaralegum dómstólum. Leysa verður þá tafarlaust úr haldi, sem bandarísk stjórnvöld hafa ekki í hyggju að ákæra og tryggja verður ábyrgðarskyldu vegna mannréttindabrota stjórnvalda.