Margir blaðamenn, sem fjallað hafa um mannréttindabrot í Sýrlandi, hafa verið drepnir, sætt geðþóttahandtökum eða þvinguðum mannshvörfum
Aktívisti tekur mynd í Sýrlandi © REUTERS/Shaam News Network/Handout
Margir blaðamenn, sem fjallað hafa um mannréttindabrot í Sýrlandi, hafa verið drepnir, sætt geðþóttahandtökum eða þvinguðum mannshvörfum, eða verið pyndaðir í borgarastyrjöldinni sem nú geisar.
Bæði sýrlensk stjórnvöld og vopnaðir andstöðuhópar bera ábyrgð á mannréttindabrotunum. Sýrland er nú mjög hættulegur staður fyrir blaðamenn.
Ný skýrsla Amnesty International, Shooting the Messenger: Journalists targeted by all sides in Syria, greinir frá tugum tilfella þar sem ráðist hefur verið að blaðamönnum og starfsfólki fjölmiðla frá því að uppreisnin í Sýrlandi hófst árið 2011 til að koma í veg fyrir að greint sé frá ástandinu í landinu, þar á meðal mannréttindabrotum.
Þar er einnig sagt frá mikilvægu hlutverki almennra borgara, sem hafa tekið að sér að miðla upplýsingum til umheimsins um það sem er að gerast.
Meðal þeirra blaðamanna, sem hafa orðið fyrir barðinu á stjórnvöldum er palestínski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Salameh Kaileh sem var handtekinn þann 24. apríl 2012 eftir að hann gagnrýndi nýja stjórnarskrá landsins.
Hann var fluttur í varðhaldsmiðstöð í Damaskus og neyddur til að afklæða sig í herbergi þar sem voru 35 aðrir menn. Hann sagði Amnesty International að bundið hafi verið fyrir augu hans og hann pyndaður með aðferð sem kallast falaqa (þá eru iljar fólks lamdar).
Hann sætti líka pyndingum meðan verið var að flytja hann á sjúkrahús. Honum var loks sleppt og vísað úr landi til Jórdaníu.
Annað dæmi er af fréttamanni ríkissjónvarps Sýrlands, Mohammed al-Sa’eed, sem var rænt af heimili sínu í Damaskus í júlí 2012 og tekinn af lífi. Þar var að verki Jabhat Al-Nusra, íslamskur uppreisnarhópur.
Nú hefur alþjóðasamfélagið beðið í meira en tvö ár án þess að grípa til raunhæfra aðgerða til að tryggja að þeir sæti ábyrgð sem hafa framið stórfelld mannréttindabrot í landinu. Íbúar landsins bíða enn eftir réttlæti.
Hversu mörg sönnunargögn um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni þarf öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að fá í hendurnar áður en það ákveður að vísa ástandinu í Sýrlandi til alþjóðlega sakamáladómstólsins?
