Ársskýrsla 2013: Heimurinn sífellt hættulegri staður fyrir flóttamenn og farandfólk

Aðgerðarleysi í mannréttindamálum á heimsvísu gerir að verkum að heimurinn verður sífellt hættulegri fyrir flóttamenn og farandfólk að mati Amnesty International

Ársskýrsla Amnesty International 2013

Aðgerðarleysi í mannréttindamálum á heimsvísu gerir að verkum að heimurinn verður sífellt hættulegri fyrir flóttamenn og farandfólk að mati Amnesty International, en samtökin birtu í dag árlega úttekt sína á stöðu mannréttinda í heiminum.

Skoðaðu ársskýrsluna alla hér: http://www.amnesty.org/en/annual-report/2013

Réttindi milljóna sem hafa flúið átök og ofsóknir, eða flust búferlum í leit að vinnu og betra lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar hafa verið virt að vettugi. Yfirvöld um heim allan virðast áhugasamari um að vernda landamæri sín en réttindi borgaranna og þeirra sem leita athvarfs eða tækifæra innan þessara sömu landamæra.

,,Vangeta til að takast með eðlilegum hætti á við átök í heiminum gerir að verkum að nú er að myndast alþjóðleg og fátæk undirstétt . Réttindi flóttamanna eru óvarin. Of mörg stjórnvöld virða mannréttindi að vettugi undir því yfirskini að stjórna þurfi flæði innflytjenda. Um leið fara þau langt út fyrir eðlilegar ráðstafanir við landamæraeftirlit,‘‘ segir Salil Shetty, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

,,Þessar aðgerðir hafa ekki einungis áhrif á fólk sem flýr átök. Milljónir farandfólks eru hraktar inn í svívirðilegar aðstæður á borð við nauðungarvinnu og kynferðislega misnotkun vegna strangrar innflytjendastefnu sem gerir það að verkum að menn geta, sér að refsilausu, notfært sér bágindi þessa fólks. Þessi raunveruleiki hefur að stórum hluta skapast vegna orðræðu stjórnmálamanna sem kenna flóttamönnum og farandfólki um vandamál innanlands,‘‘ segir Shetty.

Margs kyns mannréttindaneyð herjaði á heiminn á árinu 2012, með þeim afleiðingum að mikill fjöldi fólks þurfti að leita hælis annars staðar, bæði innan eigin ríkja og handan landamæra þeirra. Frá Norður-Kóreu til Malí, Súdan til Austur-Kongó flúði fólk heimili sín í von um öruggt athvarf.

Annað ár hefur tapast í Sýrlandi. Þar hefur lítið breyst fyrir utan sífellt hækkandi tölur látinna og flóttamanna, sem hafa flosnað upp af heimilum sínum í milljónatali. Heimurinn sat hjá á meðan öryggissveitir og sýrlenski herinn réðust ýmist að geðþótta eða markvisst gegn óbreyttum borgurum og beitti þvinguðum mannshvörfum, geðþóttahandtökum, pyndingum og aftökum á fólki sem var andsnúið yfirvöldum. Vopnaðir hópar halda áfram að taka gísla, myrða borgara og beita pyndingum en þó í minna mæli en stjórnvöld.

Sú afsökun að mannréttindi séu „innanríkismál“ hefur verið notuð til að hindra aðgerðir alþjóðasamfélagsins í ríkjum þar sem ástand mannréttinda er mjög alvarlegt, eins og í Sýrlandi. Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem falið hefur verið forysta og ábyrgð á öryggi á alþjóðavettvangi, hefur enn ekki tekist að tryggja samræmdar aðgerðir vegna ástandsins í landinu.

„Ekki er hægt að nota virðingu fyrir fullveldi ríkja sem afsökun fyrir aðgerðaleysi. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verður alltaf að vinna gegn mannréttindabrotum þegar lífi fólks er ógnað og það neyðist til að flýja heimili sín. Hafna verður gömlum kenningum, sem standast enga siðferðilega skoðun, þess efnis að fjöldamorð, pyndingar og hungursneyð komi engum öðrum við“, segir Salil Shetty.

Fólk sem gerir tilraun til að flýja átök og ofsóknir þarf reglulega að horfast í augu við gríðarlegar hindranir þegar það reynir að komast yfir alþjóðleg landamæri. Oft á tíðum er erfiðara fyrir flóttamenn að fara yfir landamæri en byssur og sprengjur, sem síðan eru notaðar til að neyða fólk af heimilum sínum. Nýlega samþykktur vopnaviðskiptasamningur glæðir vonir um að flutningur á vopnum sem notuð eru til að fremja grimmdarverk verði loksins stöðvaður.

“Ekki er lengur hægt að hunsa aðstæður flóttafólks og fólks á vergangi. Við berum öll ábyrgð á vernd þeirra. Í heimi nútímasamskipta eru engin landamæri og sífellt erfiðara er að fela slæma meðferð innan landamæra ríkja – og það gefur okkur öllum einstakt tækifæri til að tala máli milljóna sem neyðst hafa til að flýja heimili sín,” segir Shetty.

Flóttamenn sem hafa komist til annarra landa í leit að hæli eru á sama báti – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu – og annað fólk sem yfirgaf land sitt í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. Margir neyðast til að lifa á jaðri samfélagsins vegna þess að stjórnvöld í ríkjum hafa brugðist þeim í lagasetningu og stefnumálum og gert þau að skotmarki þjóðernisorðræðu sem kyndir undir útlendingahatur og eykur líkur á ofbeldi gegn þeim.

Stefna Evrópusambandsins í landamæragæslu setur líf farandfólks og hælisleitanda í hættu og tryggir ekki öryggi þeirra sem eru að flýja átök og ofsóknir. Um heim allan er það fólk reglulega sett í varðhald eða, í verstu tilfellum, haldið í járnrimlakössum eða jafnvel gámum.

Um 214 milljónir farandfólks er í heiminum. Réttindi gríðarmikils fjölda þeirra eru ekki vernduð af heimalandinu eða búsetulandi. Milljónir þeirra vinna við aðstæður sem jafngilda nauðungarvinnu – eða í sumum tilfellum þrælahaldi – vegna þess að ríkisstjórnir litu á  fólkið sem glæpamenn og fyrirtækjum var meira umhugað um hagnað heldur en réttindi verkafólks. Ólöglegt farandfólk var einkum og sér í lagi í hættu á misnotkun og mannréttindabrotum.

,,Þeir, sem búa utan heimalands síns, án auðs eða stöðu, eru berskjaldaðri en aðrir og neyðast oft til að lifa örvæntingarfullu lífi á samfélagsjaðrinum,” segir Shetty. ,,Réttlátari framtíð er möguleg ef ríkisstjórnir virða mannréttindi fólks, án tillits til þjóðernis. Heimurinn hefur ekki efni á því að til séu svæði þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Allir eiga rétt á mannréttindavernd – hvar sem þeir eru í heiminum.”

 

Heimurinn varð sífellt hættulegri fyrir flóttamenn og farandfólk

Önnur mannréttindamál í ársskýrslu Amnesty International 2013.

Amnesty International skráði sérstakar hömlur á tjáningarfrelsi í a.m.k. 101 landi og pyndingar og illa meðferð í a.m.k. 112 löndum.

Helmingur mannkynsins er enn annars flokks borgarar þegar kemur að virðingu fyrir mannréttindum þeirra og fjöldi landa tekst enn ekki á við kynbundið ofbeldi. Hermenn og vopnaðir hópar beittu nauðgunum í Malí, Tsjad, Súdan og Vestur-Kongó; Talibanar tóku konur og stúlkur af lífi í Afganistan og Pakistan; konur og stúlkur sem urðu barnshafandi í kjölfar nauðgana eða voru í lífshættu vegna þungunar var neitað um aðgang að öruggum fóstureyðingum í löndum eins og Chile, El Salvador, Níkaragva og Dóminíska lýðveldinu.

Í Afríku afhjúpuðu átök, fátækt og misbeiting af hendi öryggissveita og vopnaðra hópa veikleika svæðisins hvað mannréttindi varðar – á sama tíma og heimsálfan minnist 50 ára afmælis Afríkusambandsins.

Lögsóknir í Argentínu, Brasilíu, Gvatemala og Úrúgvæ mörkuðu mikilvæg skref í átt til réttlætis vegna mannréttindabrota frá fyrri tíð. Stjórnvöld í Kambódíu, Indlandi, Sri Lanka og á Maldíveyjum gerðu atlögur að tjáningarfrelsinu og vopnuð átök eyðilögðu líf tugþúsunda í Afganistan, Mjanmar, Pakistan og Tælandi. Mjanmar leysti hundruð pólitískra fanga úr haldi en hundruð eru enn bak við lás og slá.

Í Evrópu og Mið-Asíu náði réttlætið ekki fram að ganga. Ekki var réttað vegna glæpa í Evrópu í tengslum við ólöglegt framsal undir forystu Bandaríkjanna. Á Balkanskaga minnkuðu líkurnar á því að réttlætið næði fram að ganga fyrir fórnarlömb stríðsglæpa á tíunda áratugnum og kosningar í Georgíu voru sjaldgæft dæmi um breytingar í lýðræðisátt í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna, en þar héldu valdsherrar enn fast í völd sín.

Í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, í löndum þar sem einvöldum var bolað í burtu, naut fólk  aukins fjölmiðlafrelsis og borgaralegt samfélag gat dafnað. Þar varð einnig bakslag þar sem tjáningarfrelsinu var ógnað á grundvelli trúar eða siðgæðis. Mannréttindasinnar og pólitískir aðgerðasinnar í þessum löndum sæta enn kúgun, þar á meðal fangelsisvistun og pyndingum í varðhaldi. Átök Ísraels og yfirvalda á Gasa stigmögnuðust á ný í nóvember.

Dauðarefsing er á undanhaldi í heiminum þrátt fyrir bakslag, en fyrstu aftökur fóru fram í Gambíu í þrjátíu ár og fyrsta aftaka konu í Japan í fimmtán ár.