26. júní er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum pyndinga. Af því tilefni stendur Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International fyrir aðgerð, laugardaginn 29. júní frá 13 til 15 á Austurvelli þar sem sýndar verða ólíkar pyndingaraðferðir sem beitt hefur verið víðs vegar um heiminn.
26. júní er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum pyndinga. Af því tilefni stendur Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International fyrir aðgerð, laugardaginn 29. júní frá 13 til 15 á Austurvelli þar sem sýndar verða ólíkar pyndingaraðferðir sem beitt hefur verið víðs vegar um heiminn. Gestum og gangandi verður boðið að kynnast nokkrum þeirra en skýrt skal tekið fram að engum verður meint af tilburðunum.
Eitt af meginmarkmiðum Amnesty International er að binda enda á pyndingar. Samkvæmt upplýsingum samtakanna hafa 150 ríki verið uppvís að pyndingum og annarri illri meðferð. Í rúmlega 80 ríkjum létu einstaklingar lífið í kjölfar pyndinga á árunum 1997 til 2000.
Pyndingar verður að stöðva, pyndara verður að sækja til saka og tryggja þarf þolendum skaðabætur.
Amnesty International hvetur öll ríki heims til að stöðva pyndingar og aðra grimmilega, ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Í dag eru 26 ár liðin frá því að Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu gekk í gildi. Amnesty International barðist í áraraðir fyrir gerð samningsins. Mikill meirihluti ríkja heims hefur nú fullgilt samninginn eða 153 ríki.
Baráttan gegn pyndingum og annarri illri meðferð á þó enn á brattann að sækja. Víða um heim er fólk pyndað í fangelsum, á lögreglustöðvum, varðhaldsstöðvum, herstöðvum, yfirheyrslubúðum og öðrum stöðum á vegum yfirvalda. Um allan heim misnota fulltrúar ríkisins vald sitt og pynda varnarlaust fólk.
Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum Amnesty International. Amnesty International krefst þess að öll ríki heims virði hið algjöra bann við pyndingum.
Ríki heimsins verða að taka alþjóðlegar skuldbindingar sínar alvarlega og þau ríki sem enn hafa ekki gerst aðilar að Alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum ættu að fullgilda hann og virða reglur hans. Þau ríki sem gert hafa fyrirvara við ákvæði samningsins eiga að draga þá til baka og öll ríki skulu heimila eftirlitsfólki fullan aðgang að öllum fangelsum og öðrum stöðum þar sem frelsissviptu fólki er haldið. Einnig skulu ríki fullgilda viðauka við samninginn sem heimilar einstaklingum að leggja fram kærur til skoðunar hjá eftirlitsnefnd með framfylgd hans.
Þeir sem gerast sekir um pyndingar eiga ekki að komast upp með slíkt athæfi og allir þeir sem koma að þessum skelfilegu glæpum skulu sóttir til saka.
