Marokkó/Vestur-Sahara: Neydd til að giftast nauðgara sínum

Hin 16 ára gamla Amina Filali fyrirfór sér í marsmánuði árið 2012 með því að gleypa rottueitur. Hún hafði verið neydd í hjónaband með nauðgara sínum. 

„Við krefjumst breytinga á öllum lögum sem skaða kvenréttindi, þar á meðal lögum sem gefa heiðri fjölskyldunnar meira vægi en reisn og kynfrelsi kvenna.“

– Khadua Ryadi, forseti Mannréttindasamtakanna Moroccan Association of Human Rights, í Marokkó.

Hin 16 ára gamla Amina Filali fyrirfór sér í marsmánuði árið 2012 með því að gleypa rottueitur. Hún hafði verið neydd í hjónaband með nauðgara sínum. Hin sorglega saga Aminu er ekki óalgeng í Marokkó þar sem 475. grein þarlendra hegningarlaga veitir nauðgurum undanþágu frá saksókn ef þeir giftast fórnarlömbum sínum.

Atburðurinn, sem vakti heimsathygli, varð til þess að marokkóski löggjafinn gerði drög að breytingum á hegningarlögunum í janúar síðastliðinn. Þó að drögin séu fagnaðarefni felst m.a. í breytingartillögunni að þyngd refsingar fer eftir því hvort fórnarlambið er „óspjallað“ fyrir árásina eður ei. Slík löggjöf er niðurlægjandi og mismunar fórnarlömbunum.

Raunverulegar framfarir sem eru til þess fallnar að binda enda á ofbeldi og mismunun gagnvart konum í Marokkó krefjast mikilla viðhorfsbreytinga í samfélaginu og umbóta í löggjöf. Núgildandi marokkósk löggjöf nær ekki að vernda konur gegn ofbeldi eða veita þeim virk úrræði í kjölfar ofbeldis, í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga. Nauðgun innan hjónabands telst ekki sérstakt brot og kynmök utan hjónabands, með samþykki beggja aðila, eru refsiverð. Þar að auki er ólöglegt að hylma yfir með giftri konu og forða henni þannig undan boðvaldi þess sem hún er lagalega undirgefin. Slík löggjöf hindrar framgang samtaka sem bjóða skjól og vernd fyrir konur sem flýja heimilisofbeldi.

Í kjölfar arabíska vorsins svokallaða, í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, samþykkti Marokkó nýja stjórnarskrá sem á að tryggja jafnræði milli karla og kvenna. Það er kominn tími til að gera þann draum að veruleika.

Amnesty krefst þess að marokkósk yfirvöld taki nauðsynleg skref í átt til þess að binda enda á ofbeldi og mismunun gagnvart konum í landinu, einkum krefst Amnesty þess að:

Marokkósk yfirvöld tryggi að mismunun og ofbeldi gegn konum sé afnumið í framkvæmd, í samræmi við 5. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Gera verður ráðstafanir til að þjálfa lögreglu og dómsvald svo að tryggt sé að þolendur nauðgana fái notið réttlætis. Nauðsynlegt er að einblína á vernd til handa þolendum nauðgana framar heiðri fjölskyldunnar.

Yfirvöld tryggi að 475. grein marokkóskra hegningarlaga sé breytt á þá leið að gerendur nauðgana geti ekki forðast saksókn með því að giftast fórnarlömbunum. Amnesty leggur áherslu á að þyngd refsingar eigi ekki fara eftir því hvort fórnarlambið var „óspjallað” fyrir árásina eða ekki.