Allt frá árinu 2000 hafa milljónir íbúa í Nígeríu
þurft að horfa upp á heimili sín jöfnuð við jörðu
Allt frá árinu 2000 hafa milljónir íbúa í Nígeríu þurft að horfa upp á heimili sín jöfnuð við jörðu án þess að raunverulegt samráð sé haft við þá, fullnægjandi fyrirvari gefinn eða aðgangur að lagalegum úrræðum og réttlátri málsmeðferð veittur. Íbúarnir standa uppi heimilislausir þar sem stjórnvöld í Nígeríu hafa brugðist skyldu sinni að veita íbúum fullnægjandi húsnæði í stað þess sem var tekið og engar eignarnámsbætur eru veittar.
Enn í dag eiga sér stað stórfelldir brottflutningar á fólki og niðurrif þúsunda heimila sem leggur líf fólks í Nígeríu í rúst.
Stjórnarskrá Nígeríu kveður á um að tryggja beri öllum borgurum landsins viðunandi húsaskjól. En rétturinn til húsaskjóls fellur undir kafla um „leiðbeinandi grundvallarreglur“ í stjórnarskránni og því ekki tryggður sem mannréttindi. Afleiðingin er sú að þúsundir íbúa í óformlegum byggðum í Nígeríu eiga stöðugt á hættu að sæta þvinguðum brottflutningi sem er ekki bannaður samkvæmt nígerískum lögum.
Taktu þátt í netákallsaðgerð okkar og þrýstu á stjórnvöld í Nígeríu!
Amnesty International kallar eftir banni gegn þvinguðum brottflutningum þar til að löggjöf verður komið á í landinu sem verndar íbúa þess gegn þessu grófa mannréttindabroti.
Þvingaður brottflutningur er gróft mannréttindabrot samkvæmt alþjóðalögum. Þvingaður brottflutningur er brottflutningur á fólki án lagalegrar verndar og viðeigandi málsmeðferðar. Þvingaðir brottflutningar fara fram án:
Raunverulegs samráðs við fólkið sem þarf að flytja um aðra viðunandi búsetukosti
Fullnægjandi og sanngjarns fyrirvara
Fullnægjandi húsnæðis í stað þess sem var tekið og eignarnámsbóta
Öryggisráðstafana varðandi framkvæmd brottflutninga
Aðgangs að lagalegum úrræðum og réttlátri málsmeðferð, þ.á.m. lögfræðiaðstoð ef þörf krefur
