Hreysi í Kringlunni

Laugardaginn 12. október byggir Íslandsdeild Amnesty International hreysi í Kringlunni í þeim tilgangi að sýna fólki sem sætir þvinguðum brottflutningi í Nígeríu stuðning.

Frá þvinguðum brottflutningm í Nígeríu

Laugardaginn 12. október byggir Íslandsdeild Amnesty International hreysi í Kringlunni í þeim tilgangi að sýna fólki sem sætir þvinguðum brottflutningi í Nígeríu stuðning. Ljósmyndir verða til sýnis, boðið upp á heimsókn í hreysi og heitt afrískt te, afrískur trommari leikur á djembe, og undirskriftum safnað á „hús undirskriftanna“.

Viðburðurinn stendur frá kl. 13-17

Amnesty International hefur lengi barist gegn þvingðum brottflutningi víða og hefur Íslandsdeildin ekki látið sitt eftir liggja í þeirri baráttu. Samkvæmt alþjóðalögum telst þvingaður brottflutningur gróft mannréttindabrot. Þvingaður brottflutningur á sér stað þegar fólk er neytt brott af heimilum sínum gegn vilja þess og þegar lagaleg vernd og viðeigandi málsmeðferð er ekki veitt. Lagaleg vernd og viðeigandi málsmeðferð felur í sér raunverulegt samráð við fólkið sem þarf að flytja, fullnægjandi og sanngjarnan fyrirvara, að fullnægjandi húsnæði sé veitt í stað þess sem var tekið og eignarnámsbætur tryggðar. Einnig þarf að tryggja að viðhlítandi öryggisráðstafanir séu gerðar við framkvæmd brottflutningsins og að íbúar sem flytja á brott hafi aðgang að lagalegum úrræðum þ.á.m. lögfræðiaðstoð ef þörf krefur. Stjórnvöld þurfa einnig að tryggja að enginn sé skilinn eftir heimilislaus eða berskjaldaður gagnvart öðrum mannréttindabrotum í kjölfar þvingaðs brottflutnings.

Þvingaðir brottflutningar eru nánast daglegt brauð víða í Afríku. Á undanförnum árum hefur Amnesty International skráð tilvik um þvingaða brottflutninga í Angóla, Tsjad, Miðbaugs-Gíneu, Gana, Kenía, Nígeríu, Súdan, Svasílandi og Simbabve. Fulltrúar yfirvalda  sem þvinga fólk brott af heimilum sínum í Afríku beita oft óhóflegu ofbeldi og jafnvel skotvopnum. Amnesty International hefur skráð tilfelli þar sem fólk hefur látið lífið í aðgerðunum eða í kjölfar þeirra, meðal annars börn.

Allt frá árinu 2000 hafa milljónir íbúa í Nígeríu horft upp á heimili sín jöfnuð við jörðu án þess að raunverulegt samráð sé haft við þá, fullnægjandi fyrirvari gefinn eða aðgangur að lagalegum úrræðum og réttlátri málsmeðferð veittur. Íbúarnir standa uppi heimilislausir þar sem stjórnvöld í Nígeríu hafa brugðist þeirri skyldu sinni að veita íbúum fullnægjandi húsnæði í stað þess sem var tekið og engar eignarnámsbætur eru greiddar.

Stjórnarskrá Nígeríu kveður á um að  tryggja beri öllum borgurum landsins viðunandi húsaskjól. Rétturinn til húsaskjóls fellur hins vegar undir kafla um „leiðbeinandi grundvallarreglur“ í stjórnarskránni og er því ekki tryggður sem mannréttindi. Afleiðingin er sú að þúsundir íbúa í óformlegum byggðum Nígeríu eiga stöðugt á hættu að sæta þvinguðum brottflutningi sem er ekki bannaður samkvæmt nígerískum lögum.

Enn í dag eiga sér stað stórfelldir brottflutningar á fólki og niðurrif þúsunda heimila sem leggur líf fólks í Nígeríu í rúst. 

Amnesty International kallar eftir bann gegn þvinguðum brottflutningi þar til að löggjöf verður komið á í landinu sem verndar íbúa þess gegn þessu grófa mannréttindaabroti. Rétturinn til húsaskjóls er mannréttindi!