Amnesty International stendur nú fyrir stuðningsaðgerð til handa íbúum fátækrahverfa í Kenía sem lifa við daglega ógn um að missa heimili sín.
Amnesty International stendur nú fyrir stuðningsaðgerð til handa íbúum fátækrahverfa í Kenía sem lifa við daglega ógn um að missa heimili sín. Ekki láta þitt eftir liggja. Taktu þátt í einfaldri aðgerð samtakanna.
Það eina sem þú þarft að gera er að prenta út þetta veggspjald (sjá veggspjaldið hér ) sem á stendur letrað: „This house in Iceland stands against forced evictions in Kenya“ og taka ljósmynd af þér með veggspjaldið fyrir framan húsið þitt.
Sendu síðan ljósmyndina á netfangið bb@amnesty.is og við komum myndunum í hendurnar á ráðherra húsnæðismála í Kenía.
Einnig er hægt að sækja veggspjald á skrifstofu deildarinnar í Þingholtsstræti 27, 101 Reykjavík.
Þrýstum saman á kenísk stjórnvöld vegna hræðilegra mannréttindabrota gegn fátæku fólki!
Nánar um þvingaða brottflutninga í Kenía
Alls búa um 2 milljónir manna í Naíróbí í fátækrahverfum og er það meira en helmingur íbúa borgarinnar. Íbúar fátækrahverfanna búa samt aðeins á 5% þess svæðis sem notað er undir íbúðarhúsnæði í borginni. Í Kíbera, sem er stærsta fátækrarhverfið í Naíróbí, býr um ein milljón manna á 2,2 ferkílómetrum. Til samanburðar búa 3,2 á hvern ferkílómeter á Íslandi. Mismunun er gríðarleg enda hafa íbúarnir takmarkaðan aðgang að vatni, hreinlætisaðstöðu, rafmagni, sorphirðu, heilsugæslu, menntun og samgöngum, eins og gildir víða um önnur fátækrahverfi í Naíróbí. Þvingaðir brottflutningar eru nánast daglegt brauð í Kíbera og íbúar lifa í stöðugum ótta við að heimili þeirra verði jöfnuð við jörðu án viðvörunar. Ótryggt eignarhald og ekkert búsetuöryggi gerir íbúana að auðveldu skotmarki fyrir þvingaða brottflutninga. Þvingaðir brottflutningar eru aftur undirliggjandi orsök annarra mannréttindabrota sem íbúar fátækrahverfa sæta.
Í fátækrahverfi eins og Kíbera kostar öll grunnþjónusta peninga, hvort sem það er vatn eða hreinlætisaðstaða og verðið er alltof dýrt. Vatnsverðið er tuttugufalt hærra í fátækrahverfunum en annars staðar en samt liggja vatnslagnirnar í gegnum fátækrarhverfin og tengja byggðir hinna betur stæðu. Skortur á nauðsynjum eins og hreinu vatni gerir að verkum að óléttar konur missa oft fóstur eða fæða börnin langt fyrir tímann. Mörg börn láta einnig lífið af sjúkdómum sem rekja má til ófullnægjandi vatnsbóla, lélegrar sorphirðu og rusls.
Af öllum þeim löndum þar sem Amnesty International hefur barist gegn þvinguðum brottflutningum er Kenía þó næst því að tryggja vernd gegn slíkum mannréttindabrotum í landslögum. Til stóð að leggja fyrir keníska þingið frumvarp um brottflutninga árið 2012 en það gekk ekki eftir. Ný ríkisstjórn tók við embætti í maí 2013 og vinna er nú hafin við frumvarpið að nýju.
