Sex þúsund manns tóku þátt í bréfamaraþoni árið 2013!

Aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar lagt bréfamaraþoni Amnesty International lið. Um sex þúsund manns gerðu sér far um að skrifa undir aðgerðakort til yfirvalda, senda kveðjur til þolenda mannréttindabrota eða ljá undirskrift sína í sms-neti og netákalli. 

Aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar lagt bréfamaraþoni Amnesty International lið. Um sex þúsund manns skrifuðu undir aðgerðakort til yfirvalda, sendu kveðjur til þolenda mannréttindabrota eða ljáðu undirskrift sína í sms-neti og netákalli. Fjöldi undirskrifta og undirritaðra aðgerðakorta árið 2013 var samanlagt 51.219 sem er ótrúlegur árangur í ljósi þess að það er tvöföldun frá árinu áður. Þar af voru 30.188 undirskriftir á aðgerðakort og kveðjur.

Á annan tug bókasafna víðs vegar um landið lögðu bréfamaraþoni samtakanna lið, auk þess sem framúrskarandi einstaklingar á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Höfn í Hornafirði og í Borgarnesi tóku þátt og skipulögðu viðburði sem tókust með stakri prýði. Þess ber að geta að margir þessara einstaklinga hafa staðið að bréfamaraþoninu í mörg ár. Þakkar Íslandsdeild Amnesty International þeim Guðlaugu Úlfarsdóttur á Höfn, Ragnhildi Rós Indriðadóttur á Egilsstöðum og Ólöfu Björk Oddsdóttur á Ísafirði fyrir dyggan stuðning á liðnum árum. Einnig þakkar deildin öllum þeim sem stóðu að framkvæmd bréfamaraþonsins í fyrsta sinn og vonar að framhald verði á þeirri góðu samvinnu. 

Á Höfn í Hornafirði söfnuðust 3.443 undirskriftir sem hlýtur að teljast einstakur árangur, á Egilsstöðum 806, á Akureyri 1.553 og á Ísafirði 267 undirskriftir. 

Þá tóku tíu skólar þátt í bréfamaraþoninu: Menntaskólinn á Akureyri, Borgarholtsskóli, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskóli Borgarfjarðar, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Framhaldsskólinn á Laugum og Verslunarskóli Íslands. Alls söfnuðu skólarnir 15.239 undirskriftum á aðgerðakort sem er stórkostlegur árangur.

Við sendum öllu því góða fólki um land allt sem stóð að framkvæmd bréfamaraþonsins og þeim mikla fjölda sem tók þátt innilegar þakkarkveðjur fyrir að láta sig mannréttindi varða!