Úkraína verður án tafar að stöðva stigvaxandi öldu ofbeldis

Stjórnvöld
í Úkraínu veittu lögreglu landsins leyfi til að beita skotvopnum gegn
mótmælendum í Kænugarði með þeim afleiðingum að fjórir hafa látið lífið og mörg
hundruð særst.

Stjórnvöld í Úkraínu veittu lögreglu landsins leyfi til að beita skotvopnum gegn mótmælendum í Kænugarði með þeim afleiðingum að fjórir hafa látið lífið og mörg hundruð særst. Að sögn Amnesty International gerir leyfisveiting á skotvopnum til lögreglu ástandið enn eldfimara. Þá lét einn mótmælandi lífið í kjölfar barsmíða af hálfu óeirðalögreglu og er enn eitt dæmið um allsráðandi refsileysi lögreglunnar. Amnesty International skorar á úkraínsk stjórnvöld að draga þá lögreglumenn til saka sem ábyrgð bera á mannréttindabrotum.

Úkraínsk stjórnvöld verða að muna að löggæslumenn mega þá og því aðeins beita skotvopnum þegar slíkt er óhjákvæmilegt til að koma í veg fyrir yfirvofandi dauðsföll eða lífshættuleg meiðsli. Refsileysi meðal löggæslumanna í Úkraínu er þegar alvarlegt vandamál og leyfi stjórnvalda fyrir notkun lögreglunnar á skotvopnum í þessu samhengi er ógnvekjandi.

Mótmælin í Kænugarði hafa að mestu farið friðsamlega fram en til harðra átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu síðastliðinn sunnudag þegar stjórnvöld kynntu afar umdeild lög gegn mótmælendum sem takmarka alvarlega funda-, félaga- og tjáningarfrelsi. Lögin tóku gildi miðvikudaginn 22. janúar. 

Stjórnvöld í Úkraínu verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva stigvaxandi öldu ofbeldis í landinu áður en fleiri láta lífið. Ef stjórnvöld óska eftir friðsamlegri lausn á þeim pólitíska vanda sem ríkir í landinu, eins og þau hafa lýst yfir, þá verður að virða mannréttindi almennings og ekki svipta fólk frelsinu með yfirgripsmikilli löggjöf sem bannar friðsöm mótmæli og veitir lögreglu leyfi til að beita ofbeldi í skjóli refsileysis.