Japanskur dómstóll hefur loksins séð að sér og úrskurðað að taka upp á ný mál fanga sem hefur eytt rúmum fjórum áratugum á dauðadeild.
Japanskur dómstóll hefur loksins séð að sér og úrskurðað að taka upp á ný mál fanga sem hefur eytt rúmum fjórum áratugum á dauðadeild. Hann hefur loks verið leystur úr haldi.
Hakamada Iwao, 78 ára, var dæmdur til dauða árið 1968. Talið er að hann hafi setið lengst allra fanga á dauðadeild í heiminum. Eftir ósanngjörn réttarhöld var hann dæmdur fyrir morð á yfirmanni sínum, eiginkonu hans og tveimur börnum þeirra.
Þann 27. mars ákvað héraðsdómstóll í Shizuoka að mál Hakamada yrði tekið upp á ný samkvæmt beiðni hans. Saksóknarar höfðu fjóra daga til að áfrýja úrskurði dómstólsins og var það gert 31. mars. Liðið geta allt að því tvö ár þar til dómurinn kveður upp úrskurð sinn í málinu.
Það er kaldlyndi og ósanngjarnt af saksóknurum að áfrýja úrskurðinum. Tíminn er að renna út fyrir Hakamada til að fá sanngjörn réttarhöld sem honum var neitað um fyrir rúmum fjórum áratugum síðan. Málið á skilið endurupptöku. Hakamada var dæmdur út frá þvingaðri játningu og spurningum er enn ósvarað í kjölfar nýlegra lífsýna.
Hakamada „játaði á sig sök“ eftir 20 daga yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann dró játninguna til baka í réttarhöldunum þar sem hann sagði að lögreglan hefði beitt hann barsmíðum og ógnað honum.
Samkvæmt lögfræðingi hans eru lífsýni af fatnaði, sem saksóknari hélt fram að væri af morðingjanum, ekki af Hakamada. Einn af þremur dómurum sem dæmdi Hakamada hefur opinberlega lýst því yfir að hann telji Hakamada saklausan.
„Japönsk yfirvöld ættu að skammast sín fyrir þá grófu meðferð sem Hakamada hefur þurft að þola. Í rúmlega 45 ár hefur hann búið við stöðugan ótta við aftöku, þar sem hann hefur aldrei vitað frá degi til dags hvort hann verði tekinn af lífi. Það er andleg pynding ofan á grimmilega og ómannúðlega refsingu“ sagði Roseann Rife sem stýrir Amnesty International í Austur-Asíu.„Þessi áfrýjun eykur aðeins á þjáningar hans og gæti hindrað það að eldri maður fær endurupptöku á máli sínu sem hann á svo sannarlega skilið. Þetta virðist vera gert með ásetningi að tefja fyrir vitandi það að tíminn er að renna út fyrir Hakamada.“
Líkt og flestir fangar á dauðadeild hefur Hakamada að mestu verið haldið í einangrun. Andlegri heilsu hans hefur hrakað í kjölfar áratuga einangrun.
Bakgrunnur
Amnesty International hefur kallað eftir því að japönsk yfirvöld stöðvi allar aftökur sem fyrsta skref í átt að afnámi dauðarefsingunnar.
Japanskt réttarkerfi styðst enn við játningar sem hafa verið fengnar með pyndingum eða annarri illri meðferð. Ekki eru til skýr tímamörk á yfirheyrslum án lögfræðings.
Amnesty International hefur skráð að í yfirheyrslum er reglulega notast við barsmíðar, ógnanir, sviptingu á svefni og fangar neyddir til að standa eða sitja í sömu stöðu langtímum saman.
Amnesty International hefur ítrekað kallað eftir endurbótum á réttarkerfi Japans í samræmi við alþjóðlega staðla.
Amnesty International er á móti dauðarefsingu í öllum tilvikum án undantekninga, alveg óháð eðli eða aðstæðum glæpsins, sekt eða sakleysi einstaklinga. Það skiptir heldur ekki máli hvaða aðferð er notuð við framkvæmd aftaka. Dauðarefsing brýtur á réttinum til lífs og er grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi refsing.
