Á Grikklandi búa nálægt 350.000 Róma-fólks og hefur það sætt mismunun og umburðaleysi í margar kynslóðir. Mismunin birtist í þvinguðum brottflutningum, aðskilnaði í skólum, ójafnræði í aðgerðum lögreglunnar og kynþáttaofbeldi.
Á Grikklandi búa nálægt 350.000 Róma-fólks og hefur það sætt mismunun og umburðaleysi í margar kynslóðir. Mismunin birtist í þvinguðum brottflutningum, aðskilnaði í skólum, ójafnræði í aðgerðum lögreglunnar og kynþáttaofbeldi.
Kynþáttaárásir gegn minnihlutahópum eins og Róma-fólki hafa færst í aukana síðast liðin ár á Grikklandi.
Frá árinu 2012 hefur Róma-fólkið í Etoliko á Vestur-Grikklandi orðið fyrir grimmilegum árásum, heimili þeirra eyðilögð og brennd með Molotov-kokteilum. Margar Róma-fjölskyldur hafa ekki átt annarra kosta völ en að flýja með börn sín og yfirgefa heimili sín.
Fyrir Paraskevi Kokoni, 36 ára sjö barna móður, var það kornið sem fyllti mælinn í október 2012 þegar röð árása var gerð á svæðinu þar sem Róma-fólk hélt sig til. Paraskevi var að versla í matinn með 11 ára gömlum syni sínum og Kostas 23 ára gömlum andlega fötluðum frænda, þegar þau voru elt af nokkrum mönnum sem réðust á þau og misþyrmdu.
„Tveir mannanna réðust gegn mér en hinir kýldu og spörkuðu í Kostas. Ég kallaði á hjálp en enginn kom… Ég greip í son minn og flúði en þeir voru enn með frænda minn,“ sagði hún.
Paraskevi hljóp á næstu lögreglustöð til að biðja um hjálp og sagði lögreglumanni að frændi hennar væri enn í hættu. Hún sagði að lögreglumaðurinn hafi tjáð sér að hann gæti ekkert gert, þar sem hann væri of hræddur að fara einn síns liðs. Þegar liðsauki barst voru árásarmennirnir á bak og burt.
Eignmaður Paraskevi fann Kostas meðvitundarlausan á götunni. Bæði Paraskevi og Kostas voru slösuð, með sár og marbletti og voru flutt á spítala.
Paraskevi sá sér ekki annan kost en að flýja borgina með börnin sín. „Lögreglan verndaði okkur ekki. Við fluttum frá Etoliko og til Patra. Við flýðum heimilið okkar. Börnin vilja ekki snúa aftur heim. Þau eru hrædd. Þetta er heimilið mitt en ég vil heldur ekki fara til baka. Ég er hrædd… af hverju ætti ég að snúa aftur svo þeir geti drepið börnin mín?“ sagði Paraskevi
Í nóvember 2013 voru þrír árásarmannanna ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás. Þeir verða leiddir fyrir rétt á næstu vikum.
Saga Paraskevi er ekki einsdæmi í Etoliko en í janúar 2013 náði ofbeldi gegn Róma-fólki nýjum hæðum þegar 70 árásir voru gerðar á hverfið.
Mannréttindasamtök eins og Amnesty International telja að vanhæfni lögreglunnar til að stöðva árásir á minnihlutahópa eins og farandfólk og Róma-fólk og láta gerendur sæta ábyrgð hafi í raun ýtt undir fjölgun grimmilegra kynþáttaárása.
