„Velkominn í þorp dauðadómanna“, sagði lögfræðingurinn Ahmed Shabeeb við komu mína í þorpið Mattay fyrir stuttu. Ég fór þangað í þeim tilgangi að hitta nokkrar fjölskyldur þeirra 528 einstaklinga sem áttu að fá staðfestingu á dómum sínum daginn eftir, m.a. dauðadómum fyrir meinta þátttöku í pólitísku ofbeldi á síðasta ári.
‘-Frásögn rannsakanda Amnesty International í Egyptalandi sem viðstaddur var stærstu réttarhöld landsins-
„Velkominn í þorp dauðadómanna“, sagði lögfræðingurinn Ahmed Shabeeb við komu mína í þorpið Mattay fyrir stuttu. Ég fór þangað í þeim tilgangi að hitta nokkrar fjölskyldur þeirra 528 einstaklinga sem áttu að fá staðfestingu á dómum sínum daginn eftir, m.a. dauðadómum fyrir meinta þátttöku í pólitísku ofbeldi á síðasta ári.
Ahmed Shabeeb benti á götuna þar sem skrifstofa hans var staðsett og sagði mér að það væru a.m.k. 8 einstaklingar sem þar áttu heima sem voru á meðal 528 sakborninganna. Hann sagði mér að það væri ekki til gata í þorpinu þar sem ekki væri hægt að finna fjölskyldu sem tengdist réttarhöldunum.
Læknir í haldi
Hann lýsti einnig réttarhöldum bróður síns, lækni á sjúkrahúsinu í Mattay, sem „algjörum brandara“. Öryggissveitir handtóku hann að miðnætti 28.ágúst 2013. Ahmed vissi ekki að bróðir hans var í haldi á lögreglustöðinni í Mattay fyrr en daginn eftir handtökuna. Hann flýtti sér á lögreglustöðina þar sem hann fékk að vita að bróðir hans var sakaður um að brjóta útgöngubann. Þegar hann heyrði fréttirnar andaði hann léttar, bróðir hans var aðeins sakaður um minniháttar brot. Auk þess voru læknar undanskildir útgöngubanni vegna þess hvers eðlis vinna þeirra er.
Ahmed var lögfræðingur bróður síns þegar hann var yfirheyrður af saksóknara sem síðan fyrirskipaði lausn hans. En lögreglan leysti bróður hans ekki úr haldi. Í staðinn voru nýjar sakargiftir lagðar fram um að hann hefði ekki meðhöndlað lögreglustjóra Mattay á sjúkrahúsinu 14. ágúst. Í annarri yfirheyrslu hjá saksóknara neitaði bróðir Ahmeds ásökunum – sem almennur læknir gat hann ekki meðhöndlað hann þar sem hann þurfti á bráðaaðgerð að halda. Hann sagði að það hefðu ekki verið neinir skurðlæknar á sjúkrahúsinu þennan dag – allir hefðu flúið þegar öryggissveitir gátu ekki verndað spítalann frá reiðum múgi sem stóð fyrir utan.
Saksóknari fyrirskipaði aftur að bróðir hans yrði leystur úr haldi. Enn og aftur fékk hann ekki að fara. Þess í stað var hann sakaður um hafa tilkynnt múgnum um að lögreglustjórinn hefði lifað af og síðan hefði múgurinn ruðst inn á spítalann og myrt hann.
Bróðir Ahmeds var í haldi í 70 daga þar til hann var loks látinn laus og yfirgaf Egyptaland. Ahmed hló að fáránleika málsins. Hvernig gat einstaklingur sem ákærður var fyrir morð verið leystur úr haldi og síðan leyft að yfirgefa landið, spurði hann.
Í haldi fjarri heimili sínu
Á skrifstofu Ahmed hitti ég fjölskyldu eins úr 528 manna hópnum. Þau voru reið yfir dómnum. Ég reyndi að útskýra vinnu Amnesty International. Svar þeirra var: „Við viljum ekki tala. Ekkert mun breytast: Í okkar götu eru a.m.k. 10 einstaklingar í 528 manna hópnum. Hvað getum við gert eða hvað getur þú gert? Það er ekkert réttlæti lengur í þessu landi. Við treystum engum nema guði“.
Þau sögðu að frændi þeirra væri í haldi í Al Wadi Al Gadid fangelsinu sem er í átta klukkustunda fjarlægð frá Mattay. Til að hitta hann þurfa þau að fara að nóttu til að geta verið komin þar um morguninn og þau geta þá aðeins fengið að hitta hann í þrjár mínútur. „Hver mun borga kostnað fjölskyldna þeirra sem voru handteknir að geðþótta“, spurðu þau.
Lögfræðingur í ævilangt fangelsi
Ég hitti síðan foreldra Ahmed Eid, lögfræðings sem var einn af 528 manna hópnum. Við komu mína leiddi faðir hans mig til að hitta eiginkonu hans og börn. Eiginkonan var miður sín og augun full af tárum. Faðir hans hóf að sýna mér öll gögn í málinu. Hann sagði að Ahmed hefði tekið að sér mál 66 einstaklinga sem voru ákærðir fyrir árásina á lögreglustöðina í Mattay þann 14. ágúst. Hann sýndi mér gögn frá saksóknara þegar Ahmed Eid var mætti með sakborningunum við rannsókn málsins. Hann sagði að sonur sinn hefði ekki vitað að hann væri á meðal þeirra ákærðu.
Eiginkona hans sagði frá því að 22. janúar komu óeinkennisklæddir lögreglumenn heim til þeirra og gerðu húsleit í fjarveru lögfræðingsins. Tölva barnanna, sem talin var að væri í eigu Ahmed Eid, var tekin. Síðan var hringt frá lögreglustöðinni í Ahmed Eid þann 24. janúar og hann beðinn um að koma til að ræða dómsmálið. Ahmed Eid var handtekinn um leið og hann mætti á lögreglustöðina. Máli hans var vísað til dómstóla þann 25. janúar. Hann var í haldi þar til hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann var aldrei yfirheyrður allan þann tíma, hvorki af saksóknara eða í réttarhöldunum.
Sýndarréttarhöld
Fyrir utan bygginguna þar sem réttarhöldin voru haldin í El Minya var stíf öryggisgæsla lögreglu og hermanna. Hvorki ættingjar né blaðamenn fengu leyfi til að vera við réttarhöldin. Fyrir utan bygginguna sá ég fjölskyldur þeirra rúmlega 1200 einstaklinga sem voru ákærðir í tveimur aðskildum málum. Málin tengdust árásum á lögreglustöðvar í Mattay og Adwa og drápi á tveimur lögreglumönnum í pólitísku ofbeldi eftir að forseta landsins, Mohamed Morsi, var bolað frá völdum.
Ég fékk að vera viðstaddur réttarhöldin. Ég hitti Ahmed Shabeeb inn í byggingunni. Hann var þó ekki í réttarsalnum og tjáði mér að hann væri svo stressaður og smeykur að hann treysti sér ekki að hlusta á úrskurðinn.
Í réttarsalnum var afgirta svæðið fyrir sakborningana autt. Enginn af sakborningum fékk að heyra úrskurðinn. Ströng öryggisgæsla var á staðnum – grímuklæddir lögreglumenn vopnaðir vélbyssum stóðu fyrir aftan dómarann.
Dómarinn hóf að lesa dómsúrskurðinn. Eftir að hafa tekið til hliðsjónar skoðun Grand Mufti [æðsti trúarleiðtogi í Egyptalandi en réttinum ber skylda að bera alla dauðadóma undir hann áður en þeir eru staðfestir ] hefði rétturinn ákveðið að 37 yrðu teknir af lífi með hengingu. Dómarinn las upp nöfn þeirra. Næst tilkynnti hann að allir hinir fengju lífstíðardóm. Í fyrstu virtist dómarinn rólegur. Eftir því sem lengra leið á lestur úrskurðarins, hóf hann að hækka rödd sína þar til hann var farinn að hrópa. Enginn gat sagt mér ástæðuna. Eftir lesturinn varð ótrúleg stefnubreyting. Dómarinn hvatti saksóknara til að mótmæla lífstíðardómunum og sækja aftur eftir dauðadómi.
Fleiri dauðadómar
Sami dómari hóf síðan að lesa næsta dómsúrskurð yfir 683 einstaklingum í aðskildu máli frá Al Adwa þar sem fleiri voru ákærðir fyrir meint pólitískt ofbeldi. Enn og aftur voru sakborningar ekki í réttarsalnum. Samþykkt var að allir skyldu fá dauðadóm og málinu vísað til Grand Mufti sem þarf að gefa álit sitt áður en rétturinn getur formlega kveðið upp dauðadóm.
Dómarinn vísaði einnig máli verjenda sakborninganna til aganefndar og sektaði þá um 50 egypsk pund (um 800kr.) fyrir að hafa ekki verið viðstaddir við fyrri réttarhöld. Verjendur höfðu neitað að vera viðstaddir réttarhöldin 25. mars til að mótmæla þeirri staðreynd að sömu aðilar færu yfir málið sem höfðu vísað máli 528 einstaklinga í Mattay málinu til Grand Mufti daginn áður.
Ég yfirgaf réttarsalinn og fyrir utan sá ég fjölskyldur veinandi og grátandi þar sem þær báðu um réttlæti. Ein kona féll í yfirlið, aðrir voru grátandi og báðu til guðs um hjálp.
Nokkrir ættingar sögðu mér að allt þorpið væri reitt út í ákvörðun réttarins og í hverri götu í Adwa væri fjölskylda sem þetta mál snerti. „Þessi dómur er marklaus“ sagði einn mér. „Við höfum engan nema guð. Við treystum stjórnvöldum ekki lengur“. Hann sagði að bróðir sinn og fjórir frændur sínir væru á meðal þeirra 683 einstaklinga sem voru dæmdir til dauða og að hann hefði borgað 5250 egypsk pund (um 85 þúsund kr.) til að leysa bróður sinn úr haldi gegn tryggingu sem var síðan aldrei látinn laus.
Ein móðir sagði að sparkað hefði verið í sig í fangelsi þegar hún reyndi að heimsækja son sinn. „Við höfum engan að nema guð“ sagði hún mér.
Úrskurðurinn afhjúpar hversu gerræðislegt dómskerfið í Egyptalandi er orðið. Dómstólar í landinu sýna algera lítilsvirðingu við þær grundvallarreglur sem ríkja um sanngjörn réttarhöld og hafa með öllu fyrirgert trúverðugleika sínum. Tími er kominn til að egypsk stjórnvöld geri hreint fyrir sínum dyrum og viðurkenni að dómskerfið í núverandi mynd er hvorki réttlátt, óháð né hlutlaust.
