Amnesty International kallar eftir alþjóðlegri rannsókn á öllum brotum sem framin eru í tengslum við loftárásir Ísraelsmanna á Gasaströndinni og ófyrirsjáanlegar flugskeytaskothríðir vopnaðra hópa Palestínumanna á Ísrael.
Amnesty International kallar eftir alþjóðlegri rannsókn á öllum brotum sem framin eru í tengslum við loftárásir Ísraelsmanna á Gasaströndinni og ófyrirsjáanlegar flugskeytaskothríðir vopnaðra hópa Palestínumanna á Ísrael.
Allt frá því að Ísraelar hófu aðgerðina ,,Protective Edge“ snemma morguns þann 8. júlí hafa að minnsta kosti 100 Palestínumenn legið í valnum á Gasaströndinni, flestir óbreyttir borgarar sem voru ekki beinir þátttakendur í átökunum. Frá því á föstudaginn hafa að minnsta kosti 24 börn og 16 konur fallið í árásunum. Meira en 600 manns hafa særst og margir þeirra alvarlega. Hundruð heimila á Gasa hafa verið eyðilögð og standa eftir algjörlega óíbúðarhæf og að minnsta kosti fimm heilsugæslustöðvar og þrír sjúkrabílar hafa orðið fyrir tjóni. Í Ísrael hafa að minnsta kosti 20 einstaklingar særst vegna flugskeytaárása og eignir hafa verið skemmdar.
Á sama tíma og ofbeldið magnast er brýn þörf fyrir SÞ að setja á laggirnar sjálfstæða og alþjóðlega rannsóknarsendinefnd til Gasa og Ísrael til að rannsaka brot allra aðila átakanna á alþjóðlegum mannúðarlögum. ,,Þetta er fyrsta mikilvæga skrefið í átt að því að tryggja að gerendur stríðsglæpa eða annarra alvarlegra brota verði dregnir til ábyrgðar“, segir Philip Luther, framkvæmdarstjóri Mið-Austurlanda og Norður-Afríkuáætlunar Amnesty International.
,,Alþjóðasamfélagið má ekki endurtaka fyrri mistök með því að standa hjá og horfa á átakanlegar afleiðingar fyrir óbreytta borgara, vegna þess að hvorugur aðilinn hlítir eða framfylgir lögum í stríði. Þörf er á skjótum viðbrögðum SÞ þar sem líf hanga á bláþræði“.
Amnesty International hvetur SÞ til að leggja samstundis á alhliða vopnasölubann á Ísraelsmenn, Hamas og vopnaða hópa Palestínumanna til að koma í veg fyrir frekari alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum af hálfu stríðandi fylkinga. Á meðan beðið er eftir slíku vopnasölubanni verða öll ríki að stöðva samstundis allan flutning á hernaðarvarningi, aðstoð og skotfærum til þeirra aðila sem hafa ekki rannsakað til hlítar brot sem framin voru í fyrri átökum eða dregið þá seku til ábyrgðar.
Samkvæmt yfirlýsingum Ísraelshers hafa verið gerðar loftárásir á heimili borgara á Gasa með þeim rökum að þar séu að finna heimili fjölskyldna ,,stjórnenda Hamas“. Heimilin hafa verið jöfnuð við jörðu í kjölfar viðvarana til fjölskyldumeðlima um að yfirgefa þau. Hins vegar hafa engar sannanir fengist sem staðfesta að ,,stjórnendur Hamas“ hafi verið inni á heimilum sínum á tímum árásanna, né að heimilin hafi verið notuð til geymslu á skotfærum eða í öðrum hernaðarlegum tilgangi.
,,Ef að ísraelsk stjórnvöld geta ekki veitt nákvæmar upplýsingar til að sýna fram á að heimilin hafi verið notuð sem mikilvægur þáttur í hernaðaraðgerðum, þá flokkast vísvitandi árás á heimili borgara undir stríðsglæpi og jafngildir almennri refsingu gagnvart fjölskyldunni“, segir Philip Luther.
Í öðrum tilvikum hafa óbreyttir borgarar verið drepnir í ísraelskum loftárásum nálægt heimilum sínum. Á fyrstu þremur dögum hernaðaraðgerðanna ollu loftárásir Ísraelsmanna, á eða við heimili, dauða að minnsta kosti 32 óbreytta borgara, þeirra á meðal fjölda meðlima Karawa’, al-Hajj, Hamad, al-Nawasra og Malaka fjölskyldna. Tilkynnt var um að minnsta kosti tvö heimili sem ráðist var á án viðvörunar.
Heimili annarra borgara hafa orðið fyrir barðinu á loftárásunum með aðferð sem nefnist ,,bank á þakið“ þar sem Ísraelsher skýtur litlum viðvörunarflugskeytum á heimili stuttu áður en þeir skjóta öðru flugskeyti sem gjöreyðileggur það. Í sumum tilvikum, en ekki öllum, hafa fjölskyldur fengið símtöl fyrirfram frá Ísraelsher.
,,Það er engin leið að sjá að flugskeyti á heimili óbreyttra borgara geti flokkast undir árangursríka ‚viðvörun‘. Amnesty International hefur skrásett tilvik þar sem borgarar hafa verið drepnir eða særðir í slíkum flugskeytaárásum Ísraelshers á Gasaströndinni,“ segir Philip Luther.
Níu óbreyttir borgarar, þar á meðal tvö börn, voru einnig drepin á miðvikudagskvöldið í síðustu viku í loftárás Ísraelshers á kaffihús á ströndinni nálægt Khan Younis, þar sem tugir manna höfðu safnast saman til að horfa á leik í heimsmeistarakeppninni í fótbolta.
Á sama tíma hafa vopnaðir hópar Palestínumanna á Gasaströndinni skotið nærri 600 handahófskenndum eldflaugum á Ísrael, þar á meðal á stórar ísraelskar borgir eins og Jerúsalem, Tel Aviv, Be‘er Sheva, Ashkelon og Hadera, og sett milljónir manna í hættu. Talsmaður Hamas hefur sagt að Ísraelar séu lögmæt skotmörk. ,,Að skjóta handahófskenndum eldflaugum sem ekki er hægt að miða á nákvæmlega á hernaðarleg skotmörk, er stríðsglæpur, líkt og að ráðast vísvitandi á óbreytta borgara,“ segir Philip Luter.
,,Stríðandi fylkingar geta ekki réttlætt að bregðast óbreyttum borgurum, þar á meðal blaðamönnum, læknum og mannúðarstarfsmönnum.“
Amnesty International sendir einnig út ákall til Ísraels og Egyptalands til að tryggja að nægilegar birgðir af sjúkra- og mannúðarvistum séu leyfðar á Gasaströndinni og að bæði löndin auðveldi brottför þeirra sem þarfnast tafarlausrar læknishjálpar.
Sjúkrahús á Gasa eru vart starfhæf þar sem fjöldi særðra borgara vex, og sjúkragögn, eldsneyti og rafmagn eru af skornum skammti, sem má að stórum hluta rekja til tálmana Ísraelsmanna á Gasaströndinni síðastliðin sjö ár.
Bakgrunnur
Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum verða aðilar í vopnuðum átökum að gera greinarmun á hernaðarlegum skotmörkum annars vegar, og óbreyttum borgurum og borgaralegum skotmörkum hins vegar, og beina árásum aðeins að fyrrnefndum skotmörkum. Handahófskenndar og óhóflegar árásir eru bannaðar. Aðilarnir verða að gæta nauðsynlegra varúðarráðstafana meðan á árásum stendur til að lágmarka mannfall og eignatjón. Þeir verða einnig að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að vernda óbreytta borgara undir þeirra stjórn frá afleiðingum árásanna.
