Afganistan: Ekkert réttlæti fyrir þúsundir borgara sem látist hafa í aðgerðum bandaríska hersins og NATÓ.

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International hafa þúsundir afganskra borgara látið lífið í aðgerðum Atlandshafsbandalandsins og bandarískra hersveita, án þess að fjölskyldur hinna látnu hafi séð réttlætinu fullnægt.

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International, Left in the Dark: Failure of accountability for civilian casualties caused by international military operations in Afghanistan, hafa þúsundir afganskra borgara látið lífið í aðgerðum Atlandshafsbandalandsins og bandarískra hersveita, án þess að fjölskyldur hinna látnu hafi séð réttlætinu fullnægt. Skýrsla samtakanna horfir sérstaklega til loftárása og skyndiárása að nóttu til, sem bandaríski herinn ber ábyrgð á, og er niðurstaða skýrslunnar sú að jafnvel augljósir stríðsglæpir hafa ekki verið rannsakaðir eða hinir ábyrgu sóttir til saka. Þúsundir Afgana hafi verið drepnir eða særst í aðgerðum bandarískra hersveita frá innrás Bandaríkjanna í Afganistan, en fórnalömbin og fjölskyldur þeirra eygja litla von um að réttvísin nái fram að ganga. Bandarískir herdómstólar bregðast nærri undantekningarlaust þeirri skyldu sinni að draga bandaríska hermenn fyrir dómstóla og láta þá sæta ábyrgð fyrir ólögmæt dráp og önnur mannréttindabrot. Vísbendingar um stríðsglæpi og ólögmæt manndráp hafa verið hunsaðar.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að engin ábyrgð hefur verið tekin á hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna í Afganistan.

Amnesty International skorar á afgönsk stjórnvöld að tryggja að ábyrgð sé tekin á öllum ólögmætum drápum á óbreyttum borgurum, ef gerður er tvíhliða samningur um öryggismál við Atlandshafsbandalagið eða Bandaríkin í náinni framtíð.

Amnesty International gerði ítarlega rannsókn á tíu tilvikum sem áttu sér stað á árunum 2009 til 2013, þar sem óbreyttir borgarar létu lífið af völdum hernaðaraðgerða Bandaríkjanna. Amnesty rannsakaði að minnsta kosti 140 dauðsföll. Meðal þeirra sem létu lífið voru þungaðar konur og að minnsta kosti 50 börn. Samtökin tóku viðtöl við 125 vitni, þolendur og fjölskyldur þeirra en margir höfðu aldrei borið vitni áður. Í tveimur málum – sem fólu í sér áhlaup bandarískra sérsveita á hús í Paktiahéraði árið 2010 og þvinguð mannshvörf, pyndingar og dráp í Nerkh og Maidan Shahr í  Wardakhéraði, í nóvember 2012 og febrúar 2013 – liggja fyrir áþreifanlegar og óyggjandi sannanir um stríðsglæpi. Enginn hefur verið sóttur til saka í hvorugu málinu. Qandi Agha, fyrrum fangi bandarísku sérsveitanna, sem var í haldi í Nerkh síðla árs 2012, greindi Amnesty frá daglegum pyndingum sem hann mátti þola af hendi bandarískra sérsveitarmanna. „Fjórir menn börðu mig með kaðli. Þeir bundu saman fótleggina og börðu á mér iljarnar með priki. Þeir kýldu mig í andlitið og spörkuðu í mig og þeir slengdu höfði mínu í gólfið“. Qandi greindi ennfremur frá því að honum hafi verið dýft ofan í vatnstunnu og gefið rafstuð. Hann sagði bæði bandaríska og afganska hermenn hafa tekið þátt í pyndingunum. Qandi greindi Amnesty jafnframt frá því að fjórir af átta samföngum hans hafi verið myrtir í varðhaldi Bandaríkjamanna, þar á meðal Sayed Muhammed, en Qandi var vitni að morðinu. 

Maður syrgir við gröf föður síns © Amnesty International.

Formlegar sakamálarannsóknir á morðum á óbreyttum borgurum í Afganistan eru mjög sjaldgæfar. Amnesty International er aðeins kunnugt um sex slík tilfelli frá árinu 2009 þar sem bandarískir hermenn hafa komið fyrir rétt. Ekki eru öll dauðsföll sem eiga sér stað í vopnuðum átökum lögbrot samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum en ef óbreyttir borgarar eru myrtir af ráðnum hug eða af handahófi, þarf að rannsaka málið án tafar, á hlutlausan hátt. Ef sú rannsókn leiðir í ljós að alþjóðlegar reglur í stríði hafi verið brotnar, skal tafarlaust hefja lögsókn.

Af öllum þeim gríðarlega fjölda vitna, þolenda og fjölskyldumeðlima sem Amnesty International ræddi við og koma fram í skýrslunni, höfðu bandarískir rannsakendur á vegum hersins, aðeins rætt við tvo einstaklinga. Talsmenn Atlandshafsbandalagsins og bandaríska hersins tilkynntu aðeins að rannsóknin hafi átt sér stað en greindu hvorki frá gangi mála eða niðurstöðum rannsóknarinnar. Þolendur brotanna og fjölskyldumeðlimir máttu því þola að vera skildir eftir í kuldanum.

Amnesty International hvetur bandaríska herinn til að rannsaka tafarlaust öll þau tilfelli sem greint er frá í skýrslunni og öll önnur tilvik þar sem óbreyttir borgarar hafa verið myrtir. Fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra eiga réttvísina skilið. Fórnarlömb og fjölskyldur þeirra í Afganistan eiga ekki greiðan aðgang að réttvísinni vegna þess að bandarískir herdómstólar eru meingallaðir.

Vandinn er sá að herdómstólarnir reiða sig að stærstum hluta á frásagnir hermannanna sjálfra þegar lögmæti tiltekinna aðgerða er metið. Skortur er á óháðum saksóknurum og treyst er á hermenn og yfirmenn að greina sjálfir frá mögulegum mannréttindabrotum. 

Skýrslan greinir einnig frá skorti á gagnsæi í rannsóknum og lögsóknarferlinu vegna ólögmætra morða á óbreyttum borgurum í Afganistan. Bandaríski herinn lætur engum í té upplýsingar um þá sem ábyrgð kunna að bera á mannfalli og veitir sjaldan upplýsingar um einstaka mál.

Amnesty International skorar ennfremur á afgönsk stjórnvöld að koma á laggirnar skilvirku ferli fyrir lok ársins 2014, til að rannsaka brot sem framin voru af afgönskum öryggissveitum.