Tvö bræðrapör úr sömu stórfjölskyldunni voru teknir af lífi fyrr í vikunni í suðausturhluta Najran eftir að hafa verið dæmdir fyrir að hafa „fengið í hendur mikið magn af hassi“. Dómurinn var byggður á þvinguðum játningum fengnum með pyndingum.
Amnesty International krefst þess að sádi-arabísk yfirvöld stöðvi allar aftökur, í kjölfar þess að fjórir meðlimir sömu fjölskyldunnar voru teknir af lífi fyrr í vikunni. Mikil aukning hefur verið á aftökum undanfarið í Sádi-Arabíu.
Tvö bræðrapör úr sömu stórfjölskyldunni voru teknir af lífi fyrr í vikunni í suðausturhluta Najran eftir að hafa verið dæmdir fyrir að hafa „fengið í hendur mikið magn af hassi“. Dómurinn var byggður á þvinguðum játningum fengnum með pyndingum.
Fjöldi aftaka er þá kominn í 17 á síðastliðnum tveimur vikum – sem gerir fleiri en ein aftaka á dag.
„Þessi mikla aukning nýlega á aftökum í Sádi-Arabíu er mjög óhugnanleg. Yfirvöld verða að bregðast við tafarlaust til þess að stöðva þessa grimmilegu framkvæmd“ sagði Said Boumedouha, aðstoðarframkvæmdastjóri Amnesty International.
„Dauðarefsing á aldrei rétt á sér, og stríðir það gegn alþjóðalögum að nota hana vegna glæpa sem leiða ekki til dauða og þar sem sakfelling er byggð á þvinguðum játningum fengnar með pyndingum.
Fjórir fjölskyldumeðlimir voru líflátnir þrátt fyrir örvæntingafulla tilraun ættingja þeirra til að upplýsa heiminn um hlutskipti þeirra.
Ættingjar mannanna höfðu samband við Amnesty International nokkrum dögum fyrir aftöku mannanna með ákall um hjálp enda óttuðust þeir að aftökurnar væru yfirvofandi.
Teymi Amnesty International í Sádi-Arabíu brást við með því að kalla á frekari upplýsingar um málið, en nokkrum klukkustundum síðar bárust teyminu þær upplýsingar að fjölskyldan hefði fengið símtal frá Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu þar sem hún var vöruð við að hafa frekara samband við Amnesty International.
Þann 18. ágúst sl. var send út tilkynning að aftökur þeirra hefði farið fram.
„Hótanir og eftirlit með fórnarlömbum mannréttindabrota og baráttufólks gefur dauðarefsingum í Sádi-Arabíu nýtt óheillavænlegt yfirbragð. Þetta er skýr vitnisburður um að stjórnvöld eru tilbúin að ganga langt til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar um gróf mannréttindabrot í landinu nái til umheimsins,“ sagði Said Boumedouha.
Mennirnir fjórir sem voru líflátnir, bræðurnir Hadi bin Saleh Abdullah al-Mutlaq og Awad bin Saleh Abdullah al-Mutlaq, ásamt bræðrunum Mufrih bin Jaber Zayd al-Yami og Ali bin Jaber Zayd al-Yami, voru handteknir og settir í varðhald nokkrum sinnum af allsherjarrannsóknarnefnd Innanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu (þekkt sem al-Mabahith) eftir meint afbrot þeirra árið 2007.
Að sögn, sættu þeir pyndingum í yfirheyrslum, meðal annars barsmíðum og svefnskerðingu, í því skyni að fá frá þeim falskar játningar.
Réttað var yfir þeim og dauðadómur þeirra byggði að miklu leyti á grundvelli þessara „játninga”.
Mikil aukning hefur átt sér stað í aftökum í Sádi-Arabíu síðan að Ramada lauk þann 28. júlí, en tilkynnt hefur verið um 17 aftökur sem áttu sér stað frá 4. til 18. ágúst, í samaburði við 17 staðfestar aftökur frá janúar til júlí 2014.
Bakgrunnur
Sádi-Arabía er með einna flestar aftökur í heiminum, eða yfir 2000 aftökur á árunum 1985 til 2013.
Árið 2013 voru að minnsta kosti 79 manns, þar af þrír undir 18 ára aldri á þeim tíma sem hinn meinti glæpur var framinn en það er augljóst brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að minnsta kosti 34 einstaklingar hafa verið teknir af lífi það sem af er þessu ári.
Dómstólar í Sádi-Arabíu eru langt frá því að uppfylla alþjóðlega staðla um sanngjörn réttarhöld. Réttarhöld í morðmálum eru oft haldin á laun. Sakborningar fá sjaldan formlega lögfræðiaðstoð og í mörgum tilfellum fá þeir engar upplýsingar um framvindu málarekstursins gegn þeim.
Þeir geta verið dæmdir eingöngu á grundvelli „játningar“ sem fengin er með pyndingum og annarri illri meðferð eða blekkingu. Í sumum tilfellum er fjölskyldum dæmdra fanga ekki tilkynnt fyrirfram um aftökur þeirra.
Sádi-Arabía beitir dauðarefsingu vegna ýmiss konar brota sem, samkvæmt alþjóðalögum, falla ekki undir allra alvarlegustu glæpina og stríðir það gegn alþjóðlegum viðmiðum um notkun dauðarefsingarinnar. Þar á meðal eru brot eins og „hórdómur“, vopnað rán, „trúvilla“, eiturlyfjabrot, nauðgun, „fjölkynngi“ og „galdrar“.
Amnesty International er á móti dauðarefsingu í öllum tilfellum án undantekninga. Hún brýtur í bága við réttinn til lífs eins og lýst er í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Dauðarefsing er grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi refsing.
