Ísland: Bandaríska sendifulltrúanum afhent 5481 undirskrift

Íslandsdeild Amnesty
International afhenti í gær sendifulltrúa bandaríska sendiráðsins, Paul
O’Friel, bréf með 5481 undirskrift.

Íslandsdeild Amnesty International afhenti í gær sendifulltrúa bandaríska sendiráðsins, Paul O’Friel, bréf með 5481 undirskrift. Í bréfinu er skorað á bandarísk stjórnvöld að stöðva samstundis allan flutning á hernaðarvarningi til Ísraels til þess að koma í veg fyrir frekari alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum. Krafan felur í sér að stöðva allan flutning á vopnum, hernaðarvarningi, skotfærum, lögreglubúnaði sem og þjálfun og tækni til Ísraels.

Einnig er skorað á bandarísk stjórnvöld að leggja sitt af mörkum við að tryggja að alhliða vopnasölubann verði lagt á Ísrael, Hamas og vopnaða hópa Palestínumanna til að koma í veg fyrir frekari alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum af hálfu stríðandi fylkinga.

Bandarísk lög kveða á um að ólöglegt sé að flytja vopn til ríkja þar sem er raunveruleg hætta á að þau verði notuð í alvarlegum mannréttindabrotum. Bandarísk yfirvöld verða að bregðast við samkvæmt eigin lögum og reglugerðum er varða vopnaflutninga.