Líbía: ,,Opinber aftaka“ kristallar ótta hins almenna Líbíumanns.

Hræðileg upptaka sem sýnir aftöku af hendi vopnaðs hóps á fótboltavelli í austurhluta Líbíu er skýrt dæmi um getuleysi yfirvalda við að koma í veg fyrir öldu ofbeldis og lögleysu, að sögn Amnesty International.

Hræðileg upptaka sem sýnir aftöku af hendi vopnaðs hóps á fótboltavelli í austurhluta Líbíu er skýrt dæmi um getuleysi yfirvalda við að koma í veg fyrir öldu ofbeldis og lögleysu, að sögn Amnesty International.

Myndbandið, sem birt var af almennum borgara á samfélagsmiðli, sýnir aftöku egypsks manns sem, að því er virðist, var skipulögð af vopnuðum hópi sem kallast Shura-ráð íslamskrar æsku í borginni Derna í austurhluta landsins.

Þessi ólöglegu morð kristalla ótta hins almenna Líbíumanns, sem er á valdi miskunnarlausra vopnaðra hópa og getulausrar ríkistjórnar, segir Hassiba Hadj Sahraoui, aðstoðarframkvæmdastjóri Mið-Austurlanda- og Norður-Afríkudeildar Amnesty International.

Aðgerðir sem þessar geta aðeins af sér fleiri mannréttindabrot í Derna, þar sem íbúarnir hafa engin úrræði innan stjórnsýslunnar og þar af leiðandi enga leið til að leita réttar síns eða fá raunverulega vernd gegn illri meðferð. Brýnt er að stjórnvöld í Líbíu, með stuðningi alþjóðasamfélagsins, takist á við lögleysuna og stjórnleysið sem hefur varað í Derna og annars staðar frá falli stjórnar Gaddafis.

Upptakan sem sett var á veraldarvefinn sýnir egypska fórnarlambið, Mohamed Ahmed Mohamed, færðan á fótboltavöllinn í pallbíl með bundið fyrir augun. Vopnaðir menn með grímu þvinga hann svo til að krjúpa á hné sér.

Í yfirlýsingu sem lesin er áður en aftakan fer fram er maðurinn sakaður um að hafa stungið til bana líbískan mann að nafni Khalid al-Dirsi. Fram kemur að hann hafi játað morð og þjófnað meðan á yfirheyrslu stóð af hálfu Hinnar lögmætu nefndar um lausn ágreiningsmála, stofnun sem, að því er virðist, vinnur undir stjórn hins vopnaða hópsShura-ráð íslamskrar æsku.

Því er lýst yfir að nefndin dæmi hann til dauða nema fjölskylda fórnarlambsins náði hann. Af myndbandinu má ráða að fjölskyldan neitar að veita honum náðun. Í kjölfarið er grímulausum manni í hefðbundnum fötum afhent byssa. Sá er talinn er vera bróðir Khalid al-Dirsi. Hann sést skjóta Mohamed Ahmed Mohamed aftan frá, hugsanlega í höfuðið eða hálsinn.

Amnesty International hefur einnig farið yfir myndir af atvikinu sem settar voru á samfélagsmiðla og sýna stóran hóp fólks fylgjast með aftökunni úr áhorfendastúku. Amnesty International hefur fengið það staðfest frá heimildarmönnum í Derna að aftakan hafi átt sér stað þann 19. ágúst í útjaðri borgarinnar. ,,Þetta var ólögmætur verknaður, framinn í hrottafenginni hefnd, en ekki í nafni réttlætis,“ segir Hassiba Hadj Sahraoui.

„Líbönsk yfirvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að endurreisa opinberar stofnanir og réttarríki í Derna, sem og annars staðar í landinu.“

Yfirvöldum hefur mistekist að halda um stjórnartaumana í Derna allt frá lokum átakanna í Líbíu árið 2011.

Hvorki lögregla né her hafa verið starfrækt allt frá þeim tíma og áfrýjunardómstóll Derna var leystur upp í júní 2013, í kjölfar morðs á háttsettum dómara. Mitt í þessu öllu hafa dómurum ítrekað borist hótanir frá vopnuðum hópum. Meðlimir í dómarastéttinni neita að mæta til vinnu nema með því skilyrði að ríkið veiti þeim nauðsynlega vernd og öryggi, en það hefur stöðugt brugðist.

Ýmsir vopnaðir hópar hafa nýtt sér glufur í öryggismálum, þar á meðal hópurinn Ansar al-Sharia, sem heldur raunverulega um stjórnartaumana í borginni.

Undanfarin tvö ár hafa starfsmenn öryggismála, stjórnmálamenn, trúarleiðtogar og dómarar orðið fórnarlömb skipulagðra morða í Derna. Þessa glæpi á enn eftir að rannsaka til fulls.

Fjölmargir vopnaðir hópar íslamista sem starfræktir eru í borginni virðast hafa nýtt sér sundurliðun réttarríkisins til að efla stjórn sína í, að því er virðist, tilraun til að knýja fram eigin túlkun á íslömskum lögum (sjaría).

Aftökur, líkt og sú sem myndbandið sýnir, brjóta í bága við alþjóðleg mannúðarlög.