Í rúmlega fimm áratugi hefur Amnesty International rannsakað og skrásett pyndingamál í Mexíkó.
Í rúmlega fimm áratugi hefur Amnesty International rannsakað og skrásett pyndingamál í Mexíkó. Pyndingar voru víðfeðmar í Mexíkó á árunum 1964 til 1982 þegar reynt var bæla niður alla pólitíska andstæðinga og vopnaða hópa. Pyndingum hefur ennfremur lengi verið beitt gegn fólki sem grunað er um saknæmt athæfi. Á undanförnum árum hefur beiting pyndinga aukist mikið innan lögreglu og hers. Á tíu árum hefur 600% aukning orðið á pyndingum og annarri illri meðferð í Mexíkó, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið Out of control: Torture and other ill-treatment in Mexico en rúmlega 7000 manns tilkynntu pyndingar til mannréttindanefndar landsins á árunum 2010 til 2013.
Skýrslan er sú fyrsta í röð fimm landaskýrslna sem Amnesty International mun gefa út á næstu tveimur árum sem liður í alþjóðlegri herferð samtakanna, Stöðvum pyndingar.
Samkvæmt skýrslu samtakanna beita lögregla og her pyndingum ítrekað í Mexíkó í þeim tilgangi að fá fram „játningu“ eða „upplýsingar“ frá þeim sem liggja undir grun um glæpsamlegt athæfi eða þeim sem eru handteknir fyrir að vera á röngum stað, á röngum tíma.
Pyndingar eru orðnar hluti af starfsháttum bæði lögreglu og hers í svonefndri baráttu þeirra gegn glæpum. Þeir sem eru handteknir geta átt von á öllu frá raflosti til kæfingar með plastpoka, barsmíða og nauðgana.
Ángel Amílcar Colón Quevedo, frá Hondúras sætti pyndingum og illri meðferð af hendi lögreglu og hermanna í Mexíkó. Ángel Amílcar er dökkur á hörund og talið er að misþyrmingarnar á hendur honum hafi átt rætur sínar að rekja til kynþáttafordóma og vegna stöðu hans sem farandverkamanns í Mexíkó. Ángel Amílcar var barinn, afklæddur og þvingaður til niðrandi athafna. Plastpoki settur yfir höfuð hans svo lá við köfnun og að auki mátti hann þola niðurlægjandi athugasemdir tengdar uppruna hans. Amnesty International lítur á Ángel Amílcar sem samviskufanga. Í skýrslu Amnesty International er greint frá tuttugu öðrum einstaklingum sem sætt hafa pyndingum af hálfu yfirvalda í Mexíkó.
Refsileysi gerenda er viðtekið í landinu og gefur það til kynna að pyndingar séu umbornar í baráttunni gegn glæpum. Sjá má hve refsileysið er afgerandi t.d. af þeirri staðreynd að frá árinu 1991 hafa aðeins sjö gerendur verið sakfelldir fyrir að beita pyndingum. Eins og skýrsla Amnesty International sýnir fram á leiða mjög fáar kærur til sakfellingar, ekki af því að um staðlausar kærur sé að ræða, heldur eru rannsóknir embætti ríkissaksóknara í Mexíkó á þeim haldnar alvarlegum göllum. Þetta á sérstaklega við um störf réttarlækna og sálfræðinga á vegum hins opinbera sem fylgja ekki þeim viðmiðum sem sett eru í Istanbúl-bókuninni um skoðun á meintum þolendum pyndinga. Istanbúl-bókunin er hinn alþjóðlega viðurkenndi mælikvarði á starfshætti sérfræðinga á sviði læknavísinda og lögfræði við slíkar aðstæður. Ef bókunin er nýtt rétt getur það breytt miklu í lífi þolenda pyndinga með því að tryggja að rannsókn á meintum pyndingum hlíti alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um gæði slíkra rannsókna.
Skortur á sönnunargögnum, sem eru fengin með óháðum réttarrannsóknum, gerir þolendum pyndinga mjög erfitt fyrir að leita réttar síns og fá skaðabætur. Þolendur pyndinga sæta að auki oftast hlutdrægri rannsókn sem er þeim óvilhöll og óyfirstíganleg sönnunarbyrði hvílir á þeim að sanna að þeir hafi sætt pyndingum. Þá reiða dómstólar sig jafnan athugunarsemdalaust á sönnunargögn sem fengin eru fram með pyndingum, þrátt fyrir að lög landsins leggi bann við slíku. Þetta ýtir ekki aðeins undir áframhaldandi ástundun pyndinga og illrar meðferðar, heldur gefur ósanngjörnum réttarhöldum byr undir báða vængi sem grefur enn frekar undan dómskerfi landsins og mannréttindum.
Afleiðingar af þessum meinbugum í rannsóknarferlinu eru meðal annars þær að umfang pyndinga og annarrar illrar meðferðar í Mexíkó er rangfært og endurspeglast það meðal annars í fáum tillögum mannréttindanefndar landsins um úrbætur. Tími er kominn til að mexíkósk stjórnvöld viðurkenni hið raunverulega umfang pyndinga og annarrar illrar meðferðar í landinu.
Árið 2003 ákvað embætti ríkissaksóknara í Mexíkó að taka upp nýjar aðferðir við réttarlæknisskoðun og sálfræðimat á meintum þolendum pyndinga, aðferðir sem að hluta til hlíta viðmiðum Istanbúl-bókunarinnar. Engu að síður duga þessar nýju aðferðir skammt sökum þess að margir þolendur pyndinga hljóta ekki aðgang að þessari sérstöku réttarlæknisskoðun og ef þeir hljóta slíka skoðun þá fer hún fram mörgum mánuðum eða jafnvel árum eftir að meintar pyndingar áttu sér stað. Niðurstaðan byggir þá jafnan á óáreiðanlegum sönnunargögnum sem fengin voru við læknisskoðun sem fór fram við handtöku af opinberum aðila. Við slíkar aðstæður komast réttarlæknar oft að þeirri óréttmætu niðurstöðu að séu engin merki um pyndingar þá hafi þær ekki átt sér stað. Þannig er komið í veg fyrir frekari rannsókn og öll sund lokuð fyrir þolendur pyndinga.
Stjórnvöld í Mexíkó verða að viðurkenna umfang pyndinga í eigin landi og getuleysi margra opinberra starfsmanna til að grípa til aðgerða þegar upplýsingar um pyndingar og aðra illa meðferð berast.
Það er sérstakt áhyggjuefni að Mexíkó, sem leikur sífellt stærra hlutverk á hinu alþjóðlega sviði, virðist ekki viljugt til að taka af alvöru og festu á vandanum. Sú staðreynd að sex af hverjum tíu Mexíkóbúum telja sig ekki hulta frá pyndingum lögreglu er til marks um að stór hluti borgaranna deilir þessari skoðun samtakanna.
Samtökin skora á stjórnvöld í Mexíkó að grípa til tafarlausra aðgerða til að stöðva kerfisbundna og útbreidda beitingu pyndinga af hálfu lögreglu og hers í landinu og binda endi á refsileysi.
Smelltu hér til að lesa skýrsluna
