Pyndingar á börnum í Nígeríu

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið Welcome to hell fire: Torture and other ill-treatment in Nigeria, pynda lögregla og her í Nígeríu kerfisbundið konur, menn og börn allt niður í 12 ára gömul. 

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið Welcome to hell fire: Torture and other ill-treatment in Nigeria, pynda lögregla og her í Nígeríu kerfisbundið konur, menn og börn allt niður í 12 ára gömul. Í þeim tilgangi er margvíslegum aðferðum beitt samanber barsmíðum, nauðgunum og skotárásum. Í skýrslunni kemur fram að fjöldi fólks er oft settur í varðhald í framhaldi af yfirgripsmiklu áhlaupi lögreglu og það pyndað í refsingarskyni til að fá fram játningu eða til að hafa af því peninga.

„Þetta nær mun lengra en til ógeðfelldra pyndinga og morða á vegum meðlima í Boko Haram. Konur, börn og karlmenn víðs vegar um landið sæta grimmilegum og kerfisbundnum pyndingum af hálfu yfirvalda, hinum sömu og eiga að vernda þau. Grimmdin er slík og umfangið að jafnvel hörðustu rannsakendum mannréttindabrota er brugðið,“ segir Netsanet Belay framkvæmdastjóri rannsóknarteymis Amnesty International.

Pyndingar varða ekki við hegningarlagabrot í Nígeríu og því er löngu tímabært að þingheimur Nígeríu komi á lögum sem gera pyndingar refsiverðar í landinu. Pyndingar eru bannaðar í stjórnarskrá landsins en brýn þörf er á binda slíkt bann í landslög.

Í skýrslunni koma fyrir hundruð vitnisburða og sönnunargögn sem Amnesty International hefur safnað saman á tíu ára tímabili og vitna til um stofnanabundna beitingu pyndinga af hálfu lögreglu og hers í landinu.

Skýrslan greinir jafnframt frá því að flestir sem sæta fangelsisvist sitja í einangrun og er með öllu meinaður aðgangur að umheiminum, þar með talið lögfræðingum, fjölskyldu og dómstólum.

Pyndingar eru orðnar svo órjúfanlegur þáttur í löggæslu í Nígeríu að margar lögreglustöðvar hafa skipað fulltrúa í embætti sem ber ábyrgð á pyndingum. Yfirmenn slíkra pyndingadeilda beita ískyggilegum pyndingaraðferðum, meðal annars kæfingu, rafstuði, kynferðisofbeldi og útdrætti nagla á tám og fingrum.

Eitt sláandi dæmi um grófar pyndingaraðferðir lögreglu sem getið er um í skýrslunni er að finna í frásögn Abosede sem er 24 ára nígerísk stúlka en ofbeldið olli henni varanlegum skaða. „Lögreglumaður fór með mig í lítið herbergi og skipaði mér að klæða mig úr hverri spjör. Hann sagði mér að glenna út fæturna og skaut síðan táragasi upp í leggöngin…mér var síðan skipað að játa á mig vopnað rán…mér blæddi…enn í dag finn í fyrir sársauka í móðurlífinu.“

Nígeríski herinn fremur áþekk mannréttindabrot og hefur handtekið þúsundir nígerískra borgara í leit sinni að meðlimum Boko Haram.

Nígerískir hermenn handtóku Mahmood, 15 ára pilt frá Yobe-fylki og 50 aðra, aðallega pilta á aldrinum 13 til 19 ára. Mahmood tjáði Amnesty International að herinn hafi haldið honum föngum í þrjár vikur, barið hann endurtekið með byssuskafti, priki og sveðju, hellt bráðnu plasti yfir bak hans, þvingað hann til að ganga á og velta sér upp úr brotnum glerflöskum og neytt hann til að horfa á aftöku annarra fanga. Hann var leystur úr haldi í apríl árið 2013.

Þá handtók herinn í Yobe-fylki 12 ára dreng, barði hann og hellti áfengi yfir hann, þvingaði hann til að þrífa spýju með berum höndum og tröðkuðu á honum.

Hermenn elta uppi hundruðir fólks í leit sinni að öllum sem mögulega geta tengst Boko Haram, pynda síðan hina grunuðu í ferli sem nefnist „skimun”. Þetta minnir á nornaveiðar miðalda.

Pyndingar fá að líðast af þessarri stærðargráðu sökum þess að enginn – hvorki háttsettir embættismenn né aðrir – er dreginn til ábyrgðar. Nígería þarf á róttækri stefnubreytingu að halda. Víkja þarf úr embætti öllum yfirmönnum sem trúverðugar ásakanir um beitingu eða fyrirskipum pyndinga beinast að, rannsaka gaumgæfilega allar slíkar ásakanir og tryggja að hinir grunuðu séu dregnir fyrir dóm.

Þær ásakanir um pyndingar sem Amnesty International hefur skráð á hendur öryggissveita ríksins hafa fæstar verið rannsakaðar. Þá hafa yfirvöld í Nígeríu látið undir höfuð leggjast að draga hina seku til ábyrgðar.

Þegar innri rannsókn á störfum lögreglunnar eða hersins á sér stað eru hvorki niðurstöðurnar gerðar opinberar né tilmælum um úrbætur fylgt eftir.

Af hundruðum pyndingamála sem Amnesty International rannsakaði og skráði hlaut ekki eitt fórnarlamb pyndinga eða annarar illrar meðferðar í Nígeríu skaðabætur frá stjórnvöldum.

Nígerísk stjórnvöld eru meðvituð um vandann og hafa sett á laggirnar a.m.k fimm forseta- og starfsnefndir síðastliðinn áratug í þeim tilgangi að gera endurbætur á dómskerfinu og útrýma pyndingum. Breytingar hafa hins vegar verið mjög hægfara.

„Skilaboð okkar til nígerískra stjórnvalda eru skýr – látið pyndingar varða við lög, bindið endi á einangrunarvist og rannsakið að fullu ásakanir um pyndingar og aðra illa meðferð“, segir Netsanet Belay.