Vernd fyrir milljónir manna er búa við
hörmungar sem rekja má til bágborins eftirlits á vopnaflutningi er í nánd. Átta
ríki; Argentína, Tékkland, Senegal, Úrúgvæ, Portúgal, Sankti Lúsía og
Bosnía-Hersegóvína afhentu nýlega aðalritara Sameinuðu þjóðanna staðfestingu um
fullgildingu þeirra á alþjóðasamningi um vopnaviðskipti.
Vernd fyrir milljónir manna er búa við hörmungar sem rekja má til bágborins eftirlits á vopnaflutningi er í nánd. Átta ríki; Argentína, Tékkland, Senegal, Úrúgvæ, Portúgal, Sankti Lúsía og Bosnía-Hersegóvína afhentu nýlega aðalritara Sameinuðu þjóðanna staðfestingu um fullgildingu þeirra á alþjóðasamningi um vopnaviðskipti. Þar með höfðu yfir 50 lönd fullgilt samninginn sem þarf til að samningurinn taki gildi 90 dögum síðar. Alþjóðasamningur um vopnaviðskipti verður því að alþjóðalögum þann 25. desember 2014 og bindur öll ríki er þá hafa fullgilt hann.
Íslandsdeild Amnesty International hefur beitt sér í árafjölda fyrir því að íslensk stjórnvöld tækju forystu í að gera samninginn að veruleika og skrifa undir hann og fullgilda. Því var það fagnaðarefni þegar Ísland varð fyrst ríkja til að fullgilda samninginn 2. júlí 2013.
„Þetta er stór áfangi í baráttunni fyrir að binda enda á þjáningar fólks vegna óhefts flæðis vopna. Í lok þessa árs, verða til öflugar alþjóðlegar reglur til að hindra að vopn eigi greiða leið til þeirra er brjóta mannréttindi”, sagði Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.
Þessi markverða framför hefði ekki orðið að veruleika án stuðnings yfir milljón manns sem aðstoðaði okkur við að viðhalda þrýstingi á ríkisstjórnir og sögðu að nú væri nóg komið, að það yrði að stöðva framboð vopna til voðaverka. En baráttunni lýkur ekki hér, öll ríki þurfa að taka á honum stóra sínum og virða sáttmálann”.
Amnesty International hefur barist fyrir alþjóðasamningnum um vopnaviðskipti frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Áætlað er að minnsta kosti hálf milljón manna láti lífið að meðaltali á ári og milljónir til viðbótar slasast, er nauðgað eða flýja heimili sín vegna bágs eftirlits með alþjóðlegum vopnaviðskiptum.
Alþjóðasamningur um vopnaviðskipti felur í sér reglur með það að marki að stöðva flæði vopna til landa þar sem er vitað að þau auðveldi eða verði notuð til þess að fremja þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi eða önnur mannréttindabrot.
Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn og Bretland, sem eru á meðal tíu helstu vopnaútflytjenda, hafa fullgilt vopnaviðskiptasamninginn en Bandaríkin hafa skrifað undir samninginn án þess að fullgilda hann. Mikil andstaða við fullgildingu samningsins hefur komið frá stórum vopnaframleiðendum eins og Kína, Kanada, Ísrael og Rússlandi.
„Ef leiðtogum heims er alvara með að binda enda á óheft flæði vopna sem notuð eru til þess að fremja glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og ýta undir langvarandi vopnuð átök sem skerða mannréttindi fólks, verða ríkisstjórnir að samþykkja samninginn um vopnaviðskipti og innleiða hann. Það eru engar afsakanir fyrir aðgerðarleysi eða moðreyk þegar það kemur að samningi sem bjargar mannslífum”, sagði Salil Shetti.
Bakgrunnur
Amnesty International ásamt öðrum félagasamtökum hefur barist í 20 ár fyrir því að ná öflugum, bindandi, alþjóðlegum reglum er taka yfir alþjóðlegan vopnaflutning til þess að stemma stigu við flæði hefðbundinna vopna og hergagna sem ýta undir grimmdarverk og mannréttindabrot. Yfir milljón manns víðsvegar um heiminn skoruðu á ríkisstjórnir að fallast á vopnaviðskiptasamning með kröftugum reglum til bjargar mannslífum.
Þann 2. apríl 2013 samþykktu 155 ríki á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vopnaviðskiptasamninginn og 118 ríki hafa síðan þá skrifað undir samninginn, og gefið þannig til kynna vilja sinn að gera hann að landslögum. Þó að enn eigi 42 ríki, sem studdu samþykktina í fyrra, eftir að skrifa undir samninginn, er vaxandi slagkraftur á alþjóðavísu um að gera samninginn að veruleika.
Amnesty International heldur áfram að skrá og afhjúpa óábyrgan vopnaflutning þar sem hætta er á grófri misnotkun. Samtökin skráðu meðal annars umfangsmikla vopnasendingu frá Kína til Suður-Súdan þar sem báðir aðilar í vopnuðum átökum hafa framið hryllileg voðaverk og nýlega sendu Bandaríkin, Kýpur, Tékkland, Slóvakía og Tyrkland vopn til Egyptalands frá þrátt fyrir raunverulega hættu á að þessi vopn verði notuð af egypskum öryggissveitum til að auðvelda eða fremja alvarleg mannréttindabrot.
