Austur-Úkraína: Báðir aðilar ábyrgir fyrir handahófskenndum árásum

Fyrir stuttu féll 18 ára nemi í sprengjukúluárás í austurhluta Úkraínu í borginni Donetsk. Það er eitt dæmi af mörgum handahófskenndum árásum á svæðinu sem gætu fallið undir stríðsglæpi.

„Báðir stríðsaðilar, úkraínsk stjórnvöld og aðskilnaðarsinnar, verða að stöðva án tafar allar handahófskenndar árásir þar sem það brýtur gegn stríðsreglum.

Fyrir stuttu féll 18 ára nemi í sprengjukúluárás í austurhluta Úkraínu í borginni Donetsk. Það er eitt dæmi af mörgum handahófskenndum árásum á svæðinu sem gætu fallið undir stríðsglæpi.

„Báðir stríðsaðilar, úkraínsk stjórnvöld og aðskilnaðarsinnar, verða að stöðva án tafar allar handahófskenndar árásir þar sem það brýtur gegn stríðsreglum. Mannfall óbreyttra borgara, sem er fyrirséð í slíkum árásum, er óforsvaranlegt og draga verður gerendur beggja stríðsaðila til ábyrgðar“, segir John Dalhuisen, framkvæmdastjóri Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International.

Í rannsóknarferð Amnesty International í lok september og byrjun október voru skráð 20 dauðsföll óbreyttra borgara vegna sprengjukúlu- og eldflaugaárása í austurhluta Úkraínu í Donetsk, Avdiivka og Debaltseve. Flest dauðsföll áttu sér stað í íbúðahverfum, að því virðist vegna handahófskenndra árása, þar sem árásarsveitir notuðu vopn sem geta ekki aðgreint með nákvæmi hernaðarleg skotmörk frá borgaralegum.

Mannfall var mest í Donetsk, svæði sem aðskilnaðarsinnar hafa á sínu valdi, og talið líklegast að úkraínskar hersveitir beri ábyrgðina, en sveitir aðskilnaðarsinna eru taldar bera ábyrgð á nokkrum dauðsföllum í Avdiivka og Debaltseve sem eru undir stjórn Úkraínu.

Rannsókn Amnesty bendir til þess að sveitir aðskilnaðarsinna hafi skotið frá íbúðahverfum og að úkraínskar hersveitir hafi skotið í áttina að þeim. Í a.m.k  einu tilviki komu úkraínskar hersveitir stórskotavopnum fyrir í íbúðahverfi. 

Báðir stríðsaðilar eru ábyrgir fyrir handhófskenndum árásum á þéttbýl svæði þar sem óbreyttir borgarar hafa fallið eða særst og heimili þeirra eyðilögð. Hvorugir aðilar virðast sjá ástæðu til að binda enda á slík brot.

Alþjóðleg mannúðarlög og stríðsreglur banna árásir á óbreytta borgara eða borgaraleg mannvirki og banna að auki árásir á hernaðarleg skotmörk á borgaralegum svæðum ef ekki er hægt að miða af nákvæmni. Báðir stríðsaðilar hafa brotið gegn þessu banni með því að nota sprengjuvörpur og eldflaugar, vopn sem ekki er hægt að miða með nákvæmni, á mjög þéttbýla íbúabyggð.

Þar að auki, með því að staðsetja herlið, vopn og önnur hernaðarleg skotmörk í íbúðahverfi, hafa úrkaínskar sveitir og aðskilnaðarsinnar sett óbreytta borgara í hættu. Þar með hafa þeir brugðist skyldum sínum til að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir til verndar óbreyttum borgurum sem er brot á stríðsreglum.

Bakgrunnur

Þrátt fyrir yfirlýst vopnahlé, eru enn deilur milli úkraínskra sveita og aðskilnaðarsinna á þeim svæðum sem Amnesty International heimsótti.

Í Donetsk, sem er stærsta borgin á valdi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, eru enn átök um og við alþjóðlega flugvöllinn í útjaðri borgarinnar í norðri en báðir stríðsaðilar hafa haldið því fram að þeir hafi áður haft flugvöllinn á sínu valdi. Flugvöllurinn er hernaðarlega mikilvægur en þar er að finna stærstu flugbrautina á svæðinu.  

Avdiivka, er 10 km frá Donetsk og er undir valdi úkraínskra sveita sem nota staðinn sem tengingu við Donetsk flugvöllinn til að afla sér birgða.

Debaltseve er annað höfuðvígi úkraínskra sveita. Það er aðalsvæðið fyrir flutninga og er staðsett á vegamótum við helstu þjóðvegi og járnbrautaleiðir milli Úkraínu og Rússlands.

Donetsk

Þann 15. september 2014, kl 17.45 varð svæðið í kringum vinsælt bílaverkstæði á Kuybisheva-götu fyrir nokkrum sprengjuvörpum. Þetta var fyrsta árás þessa dags. Dmitriy Sitnikov, 19 ára, og tveir aðrir menn, Fil, 31 árs og Sergey, 24 ára, sátu fyrir framan verkstæðið þegar árásin átti sér stað. Þeir dóu allir samstundis.  Hægt er að sjá myndband af atburðinum hér.

Þann 19. september 2014, um kl. 21:45, var hús nr. 22 á Rustaveli-götu fyrir sprengju eða eldflaug og þar lést Vladimir Likov, 64 ára. Rustaveli-gatan er staðsett í íbúðahverfi nálægt Donetsk flugvellinum. Likov sat í eldhúsinu og var að horfa á sjónvarpið þegar hann lést.

Þann 28. september 2014, um klukkan 11:30, lést Natalia Lysenko, 63 ára, þegar sprengja féll í íbúðahverfi nálægt Trudovskaya-námunni. Um 60 manns búa í gömlu loftvarnarbirgi við námuna vegna stöðugs ótta við sprengju, Natalia Lyesnko var í þeim hópi. Hún varð fyrir sprengju þegar hún var að koma til baka eftir að hafa kíkt á húsið sitt sem er í nágrenninu. „Líkami hennar var alblóðugur“ sagði einn íbúi sem aðstoðaði við að koma henni í sjúkrabíl. Natalia Lysenko dó á leiðinni á sjúkrahús.

Þann 29. september 2014 var hús númer 16 á Pugacheva-götu fyrir sprengju þar sem þrír féllu, Byla Taran, 76 ára, Svetlana Belykh, 35 ára og Elena Kiseliova-Byila, 52 ára. Konunar, sem voru allar skyldar, höfðu verið í felum í húsinu vegna stöðugra árása þennan dag. Ungt par, Liubov Belykh, 22 ára, og Aleksandr Taran, 25 ára, særðist alvarlega. Pugacheva-gata er staðsett nálægt Donetsk flugvellinum.

Rannsóknarhópur Amnesty International varð vitni að því hvernig íbúðahverfi í Donetsk voru notuð sem staðsetning til þess að gera árásir gegn úkraínskum sveitum sem héldu til við Donetsk flugvöllinn. Það bendir til sameiginlegrar ábyrgðar beggja stríðsaðila á mannfalli og líkamstjóni í Donetsk.

Í Kubysheviskyi-umdæminu þann 27. september sá rannsóknarhópur Amnesty International stórskotavopn staðsett við götu í íbúðahverfi innan við fimm metra frá einu húsanna.

Stuttu síðar náðist á myndband (sjá hér) þegar aðskilnaðarsinnar skutu ítrekað úr samskonar vopni í áttina að flugvellinum. Þar sést að vopnið er staðsett við þrönga götu með íbúðarhús báðum megin –  á öðrum stað en þar sem rannsóknahópur Amnesty International sá það. Á einum stað sjást 13 skothylki við hlið þess.

Amnesty International sá einnig að brú sem liggur í áttina að Donetsk flugvellinum var notuð sem hernaðarleg staðsetning fyrir aðskilnaðarsinna 30. september 2014. Hópurinn sá a.m.k. eitt stórskotavopn undir brúnni og heyrði ítrekaðar skotárásir þaðan. Innan við kílómetra er skóli og íbúðahúsnæði, sem hafa orðið fyrir skemmdum eftir mismunandi árásir og valdið dauða eins óbreytts borgara. Íbúar á svæðinu sögðu Amnesty International að aðskilnaðarsinnar notuðu hreyfanlegar eldflaugavörpur til að skjóta frá íbúðahverfum. Þeir skjóta eldflaugum og færa vopnin síðan með hraði yfir á annan stað.

Avdiivka

Þann 3. september 2014 kl. 19:00 varð sjúkrahús í Avdiivka fyrir sprengju- eða eldflaugaárás þar sem ein kona féll og önnur særðist alvarlega. Sjúkrahúsið, sem er staðsett í útjaðri bæjarins í áttina að Donetsk flugvellinum, hefur orðið fyrir miklum skemmdum þar sem stórt gat er á þriðju hæð þess.

Taisiya Yurchenko, 66 ára, lést þegar hún varð fyrir sprengjubroti en verið var að hlúa að sárum hennar vegna annarrar árásar fyrr um daginn. Vera Ivanovna, 65 ára, var að þrífa gólfin í andyrinu þegar árásin hófst. Hún fékk sprengjubrot í vinstra læri, hægri sköflung, maga, hæri hendi og efsti hluti þumalfingurs fór af.  „Ég skreið að hurðinni“ sagði Vera Ivanovna við Amnesty International. „Þeir fóru með mig á skurðstofuna í myrkri og gerðu aðgerð á mér án lýsingar. Læknarnir brugðust skjótt við og ég var virkilega lánsöm. Ég er enn með sprengjubrot í kviðnum.“

Debaltseve

Leningradskaya gata, miðsvæðis í Debaltseve sem er undir stjórn úkraínskra sveita, varð fyrir eldflaug eða stórskotavopni kl. 20.30 þann 3. september 2014. Árásin hófst skyndilega. Maksim Poznyakov, 27 ára, varð fyrir sprengjubroti fyrir framan hús sitt. Þegar árásin hófst ýtti hann konu sinni, Svetlana Kulikova, inn í húsið en þau náðu ekki í tíma. Svetlana Kulikova fékk sprengjubrot í fótlegginn.

Ég heyrði Maksim kalla: „Hlauptu, hlauptu, og þá gerðist það“ sagði nágranni sem kynnti sig sem Vladimir Nikolaevich og fékk sprengjubrot í handlegginn.
Zavodskoy Poselok, úthverfi Debaltseve, varð fyrir eldflaugaárás kl. 17.15 þann 22. september 2014. Anna Viktorovna 64 ára, varð fyrir árásinni á heimleið sinni eftir að hafa farið út til að ná í vatn eftir árásahlé. Lík hennar var illa farið þegar það fannst kl. 18.00 sama dag. Húsasundið þar sem hún fannst er kallað „slóð dauðans“ af heimamönnum.