Alþjóðlegi mannréttindadagurinn 10. desember

Í dag, 10. desember er Alþjóðlegi mannréttindadagurinn en 66 ár eru síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í dag, 10. desember er Alþjóðlegi mannréttindadagurinn en 66 ár eru síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í henni eru mörkuð þau grundvallarréttindi og það undirstöðufrelsi sem allir menn – karlar og konur – eiga skýlausan rétt á. Í inngangsorðum yfirlýsingarinnar er undirstrikað að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verða af honum tekin og að þetta sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.

Til grundvallarréttinda teljast réttur til lífs, frelsis og ríkisfangs; frelsi til hugsana, sannfæringar og trúar; réttur til atvinnu og menntunar; réttur til að njóta lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu; og réttur til að taka þátt í stjórn síns eigin lands.

Réttindin sem kveðið er á í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru lagalega bindandi í krafti tveggja sáttmála, annars vegar Alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og hins vegar Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Amnesty International vinnur fyrir og með einstaklingum um heim allan og krefst þess að sérhver manneskja fái notið allra þeirra mannréttinda sem Mannréttindayfirlýsingin kveður á um. Amnesty International sinnir rannsóknum og grípur til aðgerða sem miða að því að koma í veg fyrir og binda enda á gróf brot á þeim mannréttindum. Við krefjumst þess að allar ríkisstjórnir og aðrir voldugir aðilar virði lög. Þetta þýðir að við berjumst í senn á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum og landsvæðum þar sem við getum haft áhrif. Við grípum til dæmis til aðgerða til að:

Verja réttindi og mannhelgi þeirra sem fastir eru í viðjum fátæktar

Afnema dauðarefsinguna

Berjast gegn pyndingum og verjast hryðjuverkum með réttlæti

Leysa samviskufanga úr haldi

Vernda réttindi flóttafólks og farandfólks

Koma böndum á vopnaviðskipti á alþjóðavettvangi

Þúsundir félaga í Amnesty International bregðast við aðgerðabeiðnum í þágu einstaklinga í hættu í sms-aðgerðaneti Íslandsdeildarinnar (http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/).

Þúsundir berjast einnig fyrir þolendur mannréttindabrota í netákalli samtakanna (http://www.netakall.is/). Kynningarstarf í fjölmiðlum og á internetinu kemur skilaboðum okkar á framfæri við almenning.

Herferðarstarf getur skipt sköpum í lífi fólks – fórnarlamba mannréttindabrota, baráttufólks fyrir mannréttindum og jafnvel þeirra sem mannréttindabrotin fremja.

Ýttu hér til að gerast virk(ur) í baráttu Amnesty International