Mikilvægur sigur vannst
nýverið þegar olíurisinn Shell greiddi síðbúnar skaðabætur til
Bodó-samfélagsins á óseyrum Nígerfljóts, þar sem íbúar hafa þurft að horfa upp
á lífsviðurværi sitt lagt í rúst vegna olíuleka sem Shell bar ábyrgð á.
Mikilvægur sigur vannst nýverið þegar olíurisinn Shell greiddi síðbúnar skaðabætur til Bodó-samfélagsins á óseyrum Nígerfljóts, þar sem íbúar hafa þurft að horfa upp á lífsviðurværi sitt lagt í rúst vegna olíuleka sem Shell bar ábyrgð á. Sex árum eftir tvo olíuleka sem urðu á Bodó-svæðinu í ágúst og desember árið 2008 varð lögsókn í Bretlandi til þess að Shell gerði sátt. Hún hljóðar upp á 55 milljónir evra sem renna til íbúa á svæðinu. Heildarppuhæðinni verður skipt þannig að 35 milljónir evra renna til 15.600 einstaklinga og 20 milljónir evra til samfélagsins. „Enda þótt skaðabæturnar séu langþráður sigur fyrir þúsundir einstaklinga sem glötuðu lífsviðurværi sínu í Bodó, hefði það ekki átt að taka sex ár,“ segir Audrey Gaughran, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Amnesty International.
Í raun vissu forsvarsmenn Shell að olíuvinnslan í Bodó hlyti að fara á versta veg. Ekki var gripið til nokkurra skilvirkra aðgerða af hálfu Shell til að koma í veg fyrir olíulekana og í kjölfarið gáfu forsvarsmenn stórfyrirtækisins út falskar yfirlýsingar um magn olíunnar sem lak. Ef Shell hefði ekki verið tilneytt að afhjúpa sannleikann um magn olíunnar sem lak, vegna bresku lögsóknarinnar, hefðu íbúar Bodó verið sviknir með öllu.
Biðin eftir skaðabótum hefur tekið sinn toll á íbúa Bodó en margir sem lifðu á fiskveiðum og landbúnaði glötuðu lífsviðurværi sínu vegna mengunar sem olíulekarnir ollu. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að olíulekarnir áttu sér stað hafa íbúar í Bodó þurft að lifa við áframhaldandi mengun og án skaðabóta þurft að berjast við sára fátækt.
„Skaðabæturnar eru skref í átt að réttlæti fyrir íbúa Bodó en réttlætinu verður aðeins fyllilega náð þegar Shell hreinsar stórmengaðar ár og mýrar svo þeir sem lifa á fiskveiðum og landbúnaði geti endurheimt lífsviðurværi sitt,“ segir Styvn Obodoekwe, framkvæmdastjóri Miðstöðvar umhverfismála, mannréttinda og þróunar (CEHRD).
SJÁ MYNDBAND
„Ég er mög ánægður með að Shell hafi loks tekið ábyrgð á gjörðum sínum,“ segir sóknarpresturinn og fiskimaðurinn Christian Kpandei en fiskeldisstöð hans gjöreyðilagðist í fyrri olíulekanum.
Shell viðurkenndi frá upphafi að olíulekarnir tveir árið 2008 í Bodó hafi stafað af bilun í olíuleiðslum, en opinberlega og endurtekið haldið því fram að magn olíunnar sem lak hafi verið um það bil 4000 tunnur af báðum lekunum samanlagt, enda þótt olíulekarnir hafi staðið yfir í margar vikur.
Árið 2012 komst Amnesty International að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa rannsakað myndbandsupptöku af fyrri lekanum, að heildarmagn olíu sem lak samsvaraði rúmlega 100.000 tunnum. Þá er ótalið magnið af olíu sem seinni lekinn olli.
Þegar lögsóknin í Bretlandi stóð yfir varð Shell að viðurkenna að magnið af olíu sem fyrirtækið hélt fram að hafi lekið var stórlega vanáætlað í báðum tilvikum. Shell hefur engu að síður ekki gefið upp hversu mikið magn af olíu lak í kjölfarið á umræddum olíulekum. Við réttarhöldin í Bretlandi varð Shell að viðurkenna að fyrirtækið hafi vitað frá árinu 2002 að flestar olíuleiðslurnar í Bodó væru gamlar og af sumum stafaði „mikil hætta“. Í gögnum frá 2002 lýsir Shell því yfir að nauðsynlegt sé að skipta um olíuleiðslur vegna gríðarlegs ryðs og eyðingar.
Eftir því sem Amnesty International og CEHRD best vita greip Shell ekki til aðgerða þrátt fyrir þessar upplýsingar mörgum árum áður en Bodó-lekarnir áttu sér stað. Innanhúss tölvupóstur frá Shell frá árinu 2009 sýnir að fyrirtækið var fyllilega meðvitað um að flett hafi verið ofan af olíulekunum í Ogonílandi þar sem Bodó er staðsett. Eftirfarandi kemur fram í tölvupóstinum, „olíuleiðslunum í Ogonílandi hefur ekki verið haldið almennilega við í rúmlega 15 ár.“
Þúsundir annarra á Bodó-svæðinu eru nú í hættu á frekari olíulekum vegna vanrækslu Shell við að lagfæra gamlar og hrörlegar olíuleiðslur.
„Olíumengun á óseyrum Nígerfljóts er eitt stærsta fyrirtækjahneyskli okkar tíma. Shell verður að veita tilhlýðilegar bætur, hreinsa mengunina og tryggja að olíuleiðslurnar séu öruggar, fremur en að reka hála almannatengslastefnu til að víkja sér undan allri ábyrgð,“ segir Audrey Gaughran.
Bakgrunnur:
Tveir olíulekaráttu sér stað í Bodó á óseyrum Nígerfljóts árið 2008 sá fyrri í ágúst og síðari í desember. Amnesty International og CEHRD hafa unnið að máli Bodó-samfélagsins vegna lekanna frá árinu 2008 og stutt íbúa á svæðinu í baráttu þeirra fyrir skaðabótum og hreinsun vegna mengunar sem lekarnir ollu.
Árið 2011 hófu íbúar Bodó lögsókn gegn Shell Petroleum Development Company of Nigeria sem breska lögmannafyrirtækið Leigh Day rak fyrir þeirra hönd.
Hundruð þúsunda olíuleka af völdum olíuleiðslna Shell eiga sér stað á hverju ári. Shell skellir síendurtekið skuldinni á ólöglegar aðgerðir íbúa á óseyrum Nígerfljóts en staðhæfingar fyrirtækisins hafa verið dregnar í efa í rannsóknum Amnesty International og CEHRD. Hægt er að lesa skýrslu Amnesty International hér: http://www.amnesty.org/en/library/asset/AFR44/028/2013/en/b0a9e2c9-9a4a-4e77-8f8c-8af41cb53102/afr440282013en.pdf
