Alþjóðleg andstaða gegn geðþóttaeftirliti Bandaríkjanna á net- og símanoktun

Almenn andstaða er í heiminum gegn eftirliti Bandaríkjanna á net- og símanotkun samkvæmt stórri alþjóðlegri könnun sem Amnesty International lét gera. 

Almenn andstaða er í heiminum gegn eftirliti Bandaríkjanna á net- og símanotkun samkvæmt stórri alþjóðlegri könnun sem Amnesty International lét gera.

Könnunin náði til 15.000 manns í þrettán löndum úr öllum heimsálfum. Hún leiddi í ljós að 71% svarenda voru mjög andsnúnir því að Bandaríkin fylgdust með netnotkun þeirra. Að auki sögðu næstum tveir þriðju aðspurðra að þeir vildu að tæknifyrirtæki eins og Google, Microsoft og Yahoo myndu bæta fjarskiptaöryggi sitt til að hindra aðgang stjórnvalda.

„Bandaríkin ættu að líta á þessa könnun sem viðvörun um að eftirlitið er að grafa undan trúverðugleika þeirra. Obama Bandaríkjaforseti ætti að veita röddum fólks um heim allan athygli og hætta að nota netið sem verkfæri til að safna saman gögnum um einkalíf fólks,“ sagði Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.

„Tæknimöguleikar í dag gefa stjórnvöldum fordæmalaust vald til að fylgjast með því hvað við erum að gera á netinu. Við þurfum óháð eftirlit með eftirlitsaðilunum til að gæta þess að valdið sé ekki misnotað. Það er lítil sem engin löggjöf í löndum heims sem raunverulega verndar mannréttindi okkar gegn geðþóttaeftirliti. Í reynd eru lönd frekar að íhuga lög sem leyfa víðtækara eftirlit á kostnað réttinda fólks.“

Í júní 2013 afhjúpaði uppljóstrarinn Edward Snowden að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, fylgdist með síma- og netnotkun í 193 löndum um heim allan. Sem dæmi um eftirlitsgetu stofnunarinnar var gefið upp að hún gat safnað 5 milljörðum skráa um staðsetningar símtækja á dag og 42 milljörðum skráa af netinu, þar á meðal varðandi tölvupóst og vefsögu, á mánuði.

Andstaðan gegn fjöldaeftirliti Bandaríkjanna mest í Brasilíu og Þýskalandi

Mesta andstaðan gegn því að Bandaríkin komist yfir, geymi og greini netnotkun er í Brasilíu (80%) og Þýskalandi (81%).

Í kjölfar uppljóstrana Snowden var andstaða útbreidd í báðum löndum eftir að ljóstrað var upp að símtöl forseta Brasilíu og kanslara Þýskalands voru hleruð af Bandaríkjunum.

Jafnvel í Frakklandi, þar sem andstaðan var minnst, var meirihluti fólks samt sem áður mótfallinn bandarísku eftirliti (56%). Könnunin var gerð eftir árásina á Charlie Hebdo.

Helstu bandamenn Bandaríkjanna eru andsnúnir eftirliti

Bandaríkin eru í bandalagi um fjöldaeftirlit með Ástralíu, Kanada, Nýja Sjálandi og Bretlandi. Jafnvel í þessum löndum er fólk sem andsnúið bandarísku eftirliti (70%) yfir þrefalt fleira heldur en þeir sem studdu það (17%).

„Skilaboðin eru skýr, jafnvel borgarar nánustu bandamanna Bandaríkjanna vildu ekki að netnotkun þeirra væri skráð. Bretland og önnur ríki í bandalaginu ættu að koma hreint fram við sitt eigið fólk um það hvernig það deilir eftirlitsgögnunum, okkar persónulegum gögnum,“ sagði Salil Shetty.

Tæknifyrirtæki undir þrýstingi um að styrkja, en ekki hindra, réttinn á einkalífi

Meirhlutinn finnst einnig að tæknifyrirtæki eins og Google, Microsoft og Yahoo hafi skyldum að gegna til að tryggja öryggi persónulegra upplýsinga gegn stjórnvöldum (60%) en færri styðja að fyrirtæki veiti stjórnvöldum aðgang að gögnum (26%).

Árið 2013, eftir að gögnum var lekið frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, komst upp að tæknifyrirtæki hefðu verið í samvinnu við bandarísk stjórnvöld um greiða fyrir eftirlit á notkun fólks á forritum, þar á meðal netföngum og samskiptamiðlum.

Tæknifyrirtæki þurfa að taka ákvarðanir um framtíð netsins. Er það vettvangur fyrir tjáningu eða bælingu? Þau geta beðið notendur sína um að skilja réttindi sín um einkalíf eftir við innskráningu eða leyft þeim að vera við stjórnvölinn um sín persónuleg gögn,“ sagði Salil Shetty.

Eftirlit heima fyrir

Í öllum þeim þrettán löndum sem könnunin var gerð vildi fólk ekki að eigin stjórnvöld myndu komast yfir, geyma og greina síma- og netnotkun sína. Að meðaltali, voru tvöfalt fleiri sem voru mótfallnir eftirliti eigin stjórnvalda (59%) heldur en þeir sem voru því samþykktir (26%).

Flestir sem eru andsnúnir fjöldaeftirliti eigin stjórnvalda eru aftur frá Brasilíu (65%) og Þýskalandi (69%). Á Spáni, þar sem skýrslur um að NSA hafi hlerað 60 milljónir spænskra símtala sem misbauð fólki árið 2013, var einnig eitt hæsta hlutfall þeirra sem voru mótfallin eftirliti (67%).

Meirihluti bandarískra borgara (63%) voru andsnúnir áformum um eftirlit stjórnvalda en til samanburðar voru aðeins 20% samþykkir því.

Fólk vill að vinir þeirra fylgist með sér en ekki stjórnvöld. Það vill ekki vera stöðugt undir smásjá eftirlitskerfis „stóra bróður“, sagði Salil Shetty.

Óvinur heima fyrir?

Viðhorf til eftirlits eru verulega ólík þegar kemur að erlendu fólki. Í löndunum þrettán var hlutfall þeirra (45% að meðaltali) sem samþykktu að stjórnvöld í eigin landi fylgdist með net- og símanotkun erlendra íbúa í landinu aðeins hærra heldur en þeirra sem voru á móti því (40%).

Í Frakklandi og Bretlandi var hlutfall þeirra sem voru samþykkir því að hafa eftirlit með erlendu fólki í eigin landi hæst, þar sem tvöfalt fleiri voru því samþykkir (54% og 55% hvor um sig) en þeir sem voru því andsnúnir (27% og 26%).

Ennfremur, taldi um helmingur bandarískra borgara að stjórnvöld ættu að fylgjast með net- og símanotkun erlenda íbúa í Bandaríkjunum en aðeins 30% voru á móti því.

„Sú staðreynd að fólk er viljugra að samþykkja að stjórnvöld fylgist með erlendu fólki fremur en því sjálfu sýnir ef til vill óttann í samfélaginu sem er nýttur til að réttlæta eftirlitið. Stjórnvöld verða að takast á við útlendingahræðslu og viðurkenna að fórn á mannréttindum veiti ekki meira öryggi,“ sagði Salil Shetty.

Amnesty International hefur nú þegar hafið málaferli gegn bandarískum og breskum stjórnvöldum til að freista þess að hafa taumhald á fjöldaeftirliti. Einnig er hafin herferð gegn fjöldaeftirliti, #UnfollowMe, sem hægt er að sjá í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International. http://www.netakall.is/adgerdir/unfollow-me/