Úkraína: Ný sönnunargögn um fanga sem sæta pyndingum og drápum

Í nýrri og ítarlegri samantekt Amnesty International koma fram margvísleg sönnunargögn um áframhaldandi stríðsglæpi, þeirra á meðal pyndingar og skyndiaftökur á föngum, sem eiga sér stað á degi hverjum í Austur-Úkraínu. 

Í nýrri og ítarlegri samantekt Amnesty International koma fram margvísleg sönnunargögn um áframhaldandi stríðsglæpi, þeirra á meðal pyndingar og skyndiaftökur á föngum, sem eiga sér stað á degi hverjum í Austur-Úkraínu.

Samantektin, sem ber heitið Breaking bodies: Torture and summary killings in eastern Ukraine, sýnir fram á útbreiddar og tíðar misþyrmingar á föngum sem báðir aðilar stríðandi fylkinga beita.

Fyrrum fangar hafa lýst pyndingum og annarri illri meðferð á þá leið að þeir hafi verið barðir allt þar til beinbrot hlutust af, stungnir, bundnir og hengdir upp í loft, þeim gefið rafstuð, sparkað í þá og þeir sviptir svefni svo dögum skiptir, hótað lífláti, neitað um læknisaðstoð og þolað sýndaraftökur.

„Rannsóknir okkar mitt í ólgandi stríðsátökum í Austur-Úkraínu sýna að pyndingar á föngum eru jafn algengar og þær eru átakanlegar. Rúmlega 30 fyrrum fangar, sem báðar fylkingar stríðandi aðila sviptu frelsi, hafa greint okkur frá skelfilegri meðferð fangara sinna,“ sagði John Dalhuisen framkvæmdastjóri Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International. „Aðskilnaðarsinnar og öfl hliðholl stjórnvöldum í Úkraínu verða að binda enda á þessa glæpi og tryggja að allir sem berjast undir þeirra merkjum séu meðvitaðir um að beiting pyndinga og illrar meðferðar á föngum á stríðstímum hefur afleiðingar samkvæmt alþjóðalögum. Úkraínsk stjórnvöld verða að rannsaka allar ásakanir um stríðsglæpi og aðra glæpi, safna sönnunargögnum um illa meðferð af hálfu aðskilnaðarsinna og draga alla til ábyrgðar sem drýgt hafa slík óhæfuverk.“

Af þeim 33 fyrrum föngum sem Amnesty International tók viðtal við lýstu 32 grófum barsmíðum og öðrum alvarlegum misþyrmingum sem bæði aðskilnaðarsinnar og hópar vilhallir úkraínskum stjórnvöldum beittu. Allir voru fangarnir í haldi á tímabilinu júlí 2014 til apríl 2015 og tók Amnesty International viðtölin við þá í mars, apríl og maí á þessu ári.

Vitnisburður fangana var studdur frekari sönnunargögnum, þeirra á meðal röntgenmyndum af brotnum beinum, sjúkrahússkýrslum, myndum af marblettum, örum og brotnum tönnum, og öðrum áverkum. Tveir þolendur pyndinga voru enn til aðhlynningar á sjúkrahúsi þegar Amnesty International tók viðtölin.

Breiður hópur fangara úr röðum beggja aðila stríðandi fylkinga er að sögn ábyrgur fyrir pyndingum og annarri illri meðferð. Af þeim 33 fyrrum föngum sem Amnesty International ræddi við voru 17 í haldi aðskilnaðarsinna og 16 í haldi hópa sem eru vilhallir úkraínskum stjórnvöldum, þeirra á meðal Öryggissveita Úkraínu.

Amnesty International hefur ennfremur bent á að minnsta kosti þrjú nýleg tilfelli þar sem aðskilnaðarsinnar skipulögðu skyndiaftökur á átta mönnum sem berjast fyrir úkraínsk stjórnvöld. Er þetta byggt á vitnisburði sjónarvotta, sjúkrahússkýrslum og frásögnum fjölmiðla. Í viðtali við blaðamann viðurkenndi foringi hóps á vegum aðskilnaðarsinna að hafa drepið hermenn á vegum úkraínskra stjórnvalda. Hér er um að ræða skýran stríðsglæp.

Ástandið í röðum aðskilnaðarsinna er sérstaklega óreiðukennt þar sem fjöldinn allur af ólíkum hópum þeirra á meðal halda fólki föngnum á hinum ýmsu stöðum.

Frásögn fyrrum fanga sem var í haldi þjóðernissinnaðra herliða er sérstaklega óhugnanleg. Héldu þeir nokkrum tugum fanga í yfirgefnu húsnæði ungmennabúða og pynduðu fangana á hrottafenginn hátt, auk þess að kúga fé af fjölskyldum þeirra. Amnesty International hefur reynt að ná tali af úkraínskum stjórnvöldum vegna þessa en engin viðbrögð fengið enn. Samtökin hafa ennfremur fengið fregnir af því að báðar fylkingar stríðandi aðila halda óbreyttum borgurum föngnum, að eigin geðþótta, fólki sem engan glæp hefur framið en er svipt frelsi sínu fyrir það eitt að styðja andstæðinginn.

„Í sumum tilfellum er óbreyttum borgurum haldið föngnum sem gjaldmiðli í skiptum fyrir aðra fanga en stundum eru þeir einfaldlega frelsissviptir til að refsa þeim fyrir skoðanir sínar. Þetta er óhugnanleg og ólögleg iðja sem verður að binda enda á án tafar,“ segir John Dalhuisen.

Amnesty International hefur sent áskorun til Sameinuðu þjóðanna þess efnis að sendisveit skoði án tafar allar varðhaldsstöðvar þar sem föngum er haldið í Úkraínu í tengslum við átökin. Samtökin fara fram á að undirnefnd á vegum SÞ um varnir gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð taki þátt í förinni, auk vinnuhóps um varðhald af geðþóttaástæðum og sérstaks eftirlitsfulltrúa Sameinuðu þjóðanna.