Yecenia Armeta var handtekin og pynduð í þeim tilgangi að þvinga fram játningu á glæp sem hún segist aldrei hafa framið. Stjórnvöld í Mexíkó eiga að sjá sóma sinn í að leysa Yeceniu úr haldi og sækja þá til saka sem ábyrgð bera á pyndingunum.
Yecenia Armenta hefur mátt dúsa í fangelsi í tæplega þrjú ár á meðan kvalarar hennar ganga frjálsir. Martröð Yeceniu hófst árið 2012 þegar hún keyrði ættingja á flugvöll í Culiacán, í Norður-Mexíkó. Óeinkennisklæddir lögreglumenn stöðvuðu bifreið hennar, þvinguðu hana út úr bílnum, bundu fyrir augu hennar og keyrðu með hana á brott. Þegar komið var á lögreglustöð bundu lögreglumennirnir hendur Yeceniu og fætur, létu hana hanga á hvolfi, börðu hana og nauðguðu, á meðan þeir hótuðu að deyða börnin hennar. „Ég óskaði þess að þeir skytu mig í höfuðuð svo þessu myndi öllu ljúka“, sagði Yecenia.
HÉR MÁ SJÁ MYNDBAND AF YECENIU ÞAR SEM AMNESTY INTERNATIONAL RÆÐIR VIÐ HANA.
Eftir að hafa þolað pyndingar í 15 klukkustundir hótuðu lögreglumennirnir að sækja börnin hennar, nauðga þeim og drepa. Á þeirri stundu lét Yecenia undan kröfum lögreglunnar, skrifaði undir játningu og gaf fingraför sín, á meðan bundið var fyrir augu hennar.
Læknar, sem starfa á skrifstofu saksóknara líkt og lögreglumennirnir sem pynduðu Yeceniu, skoðuðu áverka á líkama hennar. Þeir létu undir höfuð leggjast að skrá áverkana. Mánuðum síðar skoðuðu réttarlæknar á vegum ríkissaksóknara Yeceniu en ályktuðu að hún hafi ekki sætt pyndingum. Niðurstaða þeirra byggði á fyrri ályktun lækna. Þetta er dæmigert ferli í Mexíkó þar sem opinberar læknisskoðanir á þolendum pyndinga standast ekki alþjóðleg viðmið eða er fylgt eftir seint og um síðir og koma því að litlu gagni fyrir þolendur.
Óháðir læknar hafa skoðað Yeceniu tvisvar og fylgt eftir alþjóðlegum viðmiðum um slíkar læknisskoðanir. Í báðum tilvikum var niðurstaðan skýr. Yecenia var án nokkurs vafa pynduð. Engu að síður hafa yfirvöld hunsað niðurstöður óháðu læknana og játning Yeceniu er enn eitt helsta sönnunargagnið gegn henni.
Ítarleg læknisskoðun getur skipt sköpum í réttindabaráttu þolenda pyndinga. Ef læknisskoðun er gerð tímanlega og alþjóðlegum viðmiðum fylgt geta þær fært sönnur á pyndingar og afhjúpað óréttmætar játningar.
Smelltu hérna og krefðu yfirvöld í Mexíkó að rannsaka til fullnustu kæru Yeceniu um pyndingar, að leysa hana tafarlaust úr haldi, fella niður ákærur á hendur henni og gera róttækar breytingar á framkvæmd réttarlæknisskoðana á þolendum pyndinga í landinu.
