Amnesty International samþykkti á heimsþingi sínu 11. ágúst sl. ályktun um skyldur ríkja til að virða mannréttindi vændisfólks (e. „sex workers“). Hér má finna nokkrar helstu spurningar sem Íslandsdeildinni hafa borist frá félögum og komið hafa fram í opinberri umræðu um ályktunina, ásamt svörum við þeim.
Amnesty International samþykkti á heimsþingi sínu 11. ágúst sl. ályktun um skyldur ríkja til að virða mannréttindi vændisfólks (e. „sex workers“). Hér má finna nokkrar helstu spurningar sem Íslandsdeildinni hafa borist frá félögum og komið hafa fram í opinberri umræðu um ályktunina, ásamt svörum við þeim.
Hvað felst í ályktuninni?
Heimsþing Amnesty International fer fram á að alþjóðastjórn samtakanna marki samtökunum stefnu í málefnum vændisfólks sem miði að því að tryggja sem best mannréttindi þess, meðal annars með því að aflétta refsingum af tilteknum þáttum í vændisstarfsemi. Ályktunin lýsir í 13 töluliðum því sem alþjóðastjórnin skal miða við þegar hún markar stefnuna, þar á meðal því meginmarkmiði að leita skuli leiða til að draga úr þeim skaða sem vændisfólk verður fyrir (sjá m.a. 4. lið ályktunarinnar).
Vill Amnesty lögleiða vændi?
Nei, Amnesty tekur ekki afstöðu til þess hvort lögleiða skuli vændi, þ.e. hvort viðurkenna skuli það sem atvinnugrein og setja reglur um slíka starfsemi (sjá 13. lið). Ályktun heimsþingsins lýtur eingöngu að því að aflétta refsingum af iðju vændisfólks og draga úr þeim skaða sem það verður fyrir af þeim sökum (sjá 4. lið). Slík aflétting refsinga, einnig nefnd „afglæpavæðing“, gengur því skemur en lögleiðing.
Er þá Amnesty að krefjast þess að aflétt verði refsingum af allri slíkri starfsemi, bæði kaupum, sölu og hvers kyns aðkomu þriðja aðila og hún látin óátalin?
Nei. Tilgangur ályktunarinnar er að nema úr gildi þau lög sem auka líkur á mannréttindabrotum vændisfólks (sjá 1. og 4. lið), brýna fyrir stjórnvöldum að vernda vændisfólk gegn mismunun og að takmarka ekki tækifæri þess til að losna úr vændi (sjá 3. og 8. lið). Hins vegar er áréttað að ríkjum beri að berjast gegn mansali og vernda mannréttindi fórnarlamba þess (sjá 5. lið), auk þess að leggja refsingar við hvers kyns kynferðislegri misnotkun barna (sjá 7. lið). Aðkoma annarra en seljenda sem felst í mismunun, mansali eða misnotkun barna er því ekki starfsmi sem Amnesty telur að eigi að aflétta refsingum af.
Vill Amnesty þá að refsingum verði aflétt af dólgum sem gera út vændisfólk eða öðrum sem beita valdi til að fá fólk til að selja sig?
Nei. Auk þess sem brýnt er fyrir stjórnvöldum að koma í veg fyrir nauðung, mansal og barnavændi þá er í ályktuninni sérstaklega áréttað að ríkjum beri skylda til að tryggja að vændisfólk sé varið fyrir misneytingu og að lögð sé refsing við henni (sjá 6. lið). Þá er einnig tekið fram að líta verði til þess í hvaða aðstæðum vændið fer fram, þ.e. hvort munur á valdastöðu sé svo mikill að vændisfólk verði ekki talið geta átt raunverulegt val (sjá 12. lið).
Felur ályktunin í sér að Amnesty telji það til mannréttinda að geta keypt sér kynlíf eða að fá aðgang að líkama vændisfólks?
Nei, ályktunin fjallar ekki um rétt fólks til að kaupa sér vændi heldur lýtur eingöngu að því að vernda mannréttindi vændisfólks og að aðgerðum til að draga úr þeim skaða sem það verður fyrir (sjá 4. lið).
Af hverju vill Amnesty aflétta refsingum af öðrum en vændisfólki, svo sem kaupendum?
Með ályktuninni er ekki hvatt til þess að refsingum verði aflétt af þætti allra annarra en vændisfólks, svo sem nánar greinir hér að framan. Ályktuninni er beint gegn þeim lögum sem skerða mannréttindi vændisfólks eða stefna þeim í hættu eða eru til þess fallin að valda þessu fólki skaða (sjá 4. lið). Amnesty styður afnám slíkra laga, óháð því hvort með því sé aflétt refsingum af þætti kaupenda eða annarra í starfseminni.
Telur Amnesty að það að aflétta refsingum af kaupendum og þriðju aðilum leiði til þess að auðveldara verði að verja mannréttindi vændisfólks?
Þrátt fyrir að Amnesty telji að ríkjum beri að beita refsilögum gegn margs konar aðkomu kaupenda og þriðju aðila, svo sem að framan greinir, telja samtökin að í mörgum öðrum tilvikum leiði afnám refsinga til styrkari stöðu vændisfólks og mannréttinda þeirra (sjá 1., 3. og 4. lið).
Vill Amnesty afnema refsingar við rekstri vændishúsa?
Ályktunin fjallar ekki sérstaklega um vændishús. Í hérlendri löggjöf er ekki heldur vikið beinlínis að rekstri vændishúsa, en refsing lögð við því að stuðla að eða hafa atvinnu, viðurværi eða tekjur af vændi annarra. Í mörgum öðrum ríkjum eru mun skýrari refsiákvæði sem beint er gegn vændishúsum. Þannig verður vændisfólk t.d. fyrir því í mörgum ríkjum að ef það býr saman, í þeim tilgangi að tryggja öryggi sitt og stunda iðju sína þar, þá telst sú sambúð vera rekstur vændishúss og við því lögð refsing. Ályktuninni er m.a. beint gegn slíkri löggjöf.
Hyggst Íslandsdeild Amnesty beita sér hér á landi í þessu máli, svo sem með því að berjast fyrir breytingu á löggjöf eða fyrir mannréttindum vændiskaupenda?
Nei, deildin hefur engin áform um að beita sér hér á landi hvað þetta varðar eða þrýsta á um breytingar á hérlendri löggjöf. Benda má á að í niðurlagi ályktunarinnar er veitt svigrúm til að tekið verði mið af ólíkum aðstæðum í einstökum ríkjum heims (sjá næstu mgr. eftir 13. lið).
Á hvaða gögnum er ályktunin byggð?
Amnesty hefur á undanförnum tveimur árum unnið að rannsóknum á þeim áhrifum sem refsingar við ýmsum þáttum vændis hafa á mannréttindi vændisfólks. Ályktunin er byggð á þeim rannsóknum, auk þess sem litið er til annarra rannsókna sem gerðar hafa verið og samráðs sem haft hefur verið við vændisfólk, rannsakendur, önnur samtök og alþjóðastofnanir. Í því sambandi var sérstaklega horft til þess starfs sem unnið hefur verið á þessu sviði af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og stofnunum Sameinuðu þjóðanna, svo sem UN AIDS. Meðal samtaka sem leitað var til um samráð voru samtökin Anti-Slavery International og Global Alliance in Trafficking in Women. Þær rannsóknir sem Amnesty stóðu sjálf að tóku til ríflega 200 einstaklinga meðal vændisfólks, fólks sem ekki stundar lengur vændi, lögreglu, stjórnvalda og annarra stofnana, í Argentínu, Hong Kong, Noregi og Papúa Nýju-Gíneu. Þá náði samráð samtakanna til samtaka vændisfólks, samtaka þeirra sem komist hafa út úr vændi, samtaka sem vinna að útrýmingu vændis, samtaka feminista og annarra kvenréttindasamtaka, LGBTI aðgerðarfólks, stofnana sem vinna gegn mansali, HIV/AIDS aðgerðarfólks og margra annarra.
Tekur ályktunin eingöngu til kvenna?
Nei. Þrátt fyrir að í ályktuninni sé lögð sérstök áhersla á það markmið Amnesty að tryggja jafnrétti kynjanna og réttindi kvenna (sjá 2. lið) þá tekur ályktunin til alls fólks, óháð kyni, kynvitund eða öðrum eigindum sem gjarnan eru notuð til að flokka fólk.
Af hverju talar Íslandsdeild Amnesty um „vændisfólk“?
Ályktun heimsþingsins var samþykkt á ensku og fjallar um mannréttindi „sex workers“ sem stunda „sex work“. Bein þýðing þessara hugtaka gæti verið „kynlífsstarfsmenn“ og „kynlífsstörf“. Þar sem í ályktuninni er hins vegar tekið fram að Amnesty taki ekki afstöðu til þess hvort iðja vændisfólks teljist vera „starfsgrein“ (sjá 13. lið) hefur Íslandsdeildin leitast við að nota þýðingar á þessum orðum sem vísa ekki til starfs eða starfsmanna.
Vill Amnesty ekki útrýma vændi með öllum ráðum?
Amnesty International eru samtök sem berjast fyrir mannréttindum, sérstaklega þeirra sem síður geta borið hönd fyrir höfuð sér. Samtökin sem slík hafa ekki haft þá stefnu að uppræta skuli vændi með öllum ráðum. Þar sem hörð framganga yfirvalda og ríkisstjórna víða um heim, svo sem við tilraunir til upprætingar vændis, hefur oft leitt til mannréttindabrota, þá mun Amnesty ávallt standa með réttindum vændisfólks ef árekstur verður milli þeirra réttinda og aðgerða til að stemma stigu við vændi.
Leysir afglæpavæðing allan vanda vændisfólks?
Nei. Veruleiki margs vændisfólks er ömurlegur og hættulegur, en refsingar sem lagðar eru við mörgum þáttum í starfsemi þeirra auka einungis á byrðar þess og hættu á að það verði fyrir mannréttindabrotum. Aflétting þeirra refsinga felur því ekki í sér hina einu „réttu“ lausn heldur er hún leið til að draga úr hættu og skaða sem vændisfólk verður fyrir.
Hafa önnur mannréttindasamtök eða alþjóðastofnanir sett sér sambærilega stefnu?
Já, m.a. hafa Human Rights Watch (t.d. grein, 18. júní 2014), UNAIDS (t.d. skýrsla, 2014), Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (t.d. tilkynning, 12. desember 2012) og UN Women (t.d. minnisblað,) öll gefið út yfirlýsingar þar sem hvatt er til ýmist afglæpavæðingar eða lögleiðingar vændisstarfsemi. Hvað varðar síðastnefnt minnisblað, þar sem þeirri afstöðu er m.a. lýst að lögleiða beri vændi („UN Women also supports the regulation of sex work in order to protect sex workers from abuse and violence“), skal hins vegar bent á að landsnefnd UN Women hér á landi gaf út yfirlýsingu þann 11. ágúst 2015, þar sem segir m.a. um þetta minnisblað samtakanna: „Ekki var um formlega afstöðu UN Women að ræða heldur skilgreiningar í tengslum við ákveðna fyrirspurn.“
Hvers vegna hvetur Amnesty International ekki til þess að farin verði hin svonefnda „norræna leið“?
Þrátt fyrir að ekki sé lögð refsing við iðju vændisfólks samkvæmt hinni norrænu leið þá er samt sem áður lögð refsing við mörgu því sem það reiðir sig á, svo sem það að leigja sér húsnæði til að stunda vændi. Þetta stefnir öryggi vændisfólks í hættu og eykur hættu á misneytingu þess. Þessi lög valda því að lögregla getur samt sem áður þjarmað að vændisfólki, en í mörgum ríkjum leggja yfirvöld að lögreglu að útrýma vændi með öllum tiltækum ráðum.
Þýðir þessi ályktun að þið, sem mannréttindasamtök, leggið blessun ykkar yfir vændisstarfsemi?
Nei. Amnesty telur að enginn eigi að þurfa að þola að vera neyddur eða kúgaður til að stunda vændi. Rannsóknir benda til þess að vændisfólk neyðist oft til að stunda vændi þar sem það er eina leið þess til að komast af eða vegna þess að það á ekki annarra kosta völ. Slíkar aðstæður ýta enn frekar undir það að þessi hópur lendir utangarðs í samfélögum. Það er ástæða þess að við viljum tryggja að við setjum okkur stefnu sem styrkir baráttu þess fyrir mannréttindum sínum.
