Sárköld áminning um ástandið í Sýrland fyrir flóttafólk sem er fast við landamæri Makedóníu.  

Sýnin var sláandi þegar ég kom í þorpið Idomeni, nálægt grísku landamærunum að Makedóníu.

Sýnin var sláandi þegar ég kom í þorpið Idomeni, nálægt grísku landamærunum að Makedóníu. Hátt í 4000 flóttamenn, margir frá Sýrlandi, þeirra á meðal fjölskyldur með börn, voru í sjálfheldu eftir að ríkisstjórn Makedóníu lýsti landamærum í suðri, rétt fyrir utan bæinn Gevgelija, sem “krísusvæði” og lokuðu svæðinu með aðstoð hersins. Flóttafólkið var allt að reyna að komast til Evrópu í gegnum Makedóníu.

Ég hef aldrei séð eða upplifað neitt þessu líkt. Rúmum kílómetra frá landamærunum, var Idomeni lestarstöðin sem er pínulítil, yfirfull af flóttafólki sem þegar hafði gist þarna í nokkrar nætur. Fjöldi annarra svaf úti á víðavangi í hrjúfu landslagi, berskjaldað fyrir hita og rigningu.

Fjölskyldur, ásamt börnum allt niður í nokkra mánaða gömul, voru samþjöppuð í litlum tjöldum mitt á svæði sem var atað aur. Rennblaut og örmagna spurðu þau hvort lögreglan myndi hleypa þeim í gegnum landamærin þennan dag.

Grikklandsmegin við landamærin beið fjöldi flóttafólks, þeirra á meðal börn, á bak við gaddavír. Makedóníumegin, beið lögreglan þungvopnuð og nálægt henni voru herbílar, á víð og dreif.

Skammt frá gaddavírsflækjunni hitti ég Zaha frá Damaskus í Sýrlandi en hún er um þrítugt og hafði flúið ásamt fjórum börnum sínum og öðrum ættingjum. Zaha starði í átt að landamærunum þar sem hún sat fyrir framan pínulítið tjald sem sökk ofan í leðju sem myndast hafði í jarðveginum. Hún sagði mér frá því hvernig hún og fjölskylda hennar höfðu flúið til Grikklands í gegnum Tyrkland og var bjargað af grísku strandgæslunni þegar bátur þeirra sökk í Eyjahafinu. Þar sem þau gátu ekki komist yfir landamæri Makedóníu höfðu þau varið fjórum dögum í Idomeni í algerri eymd. Þegar Zaha kynnti mig fyrir börnunum sínum og eldri ættingja tóku sprengingar að heyrast meðfram landamærunum. Zaha teygði sig í átt að syni sínum og vafði handleggjunum þétt utan um hann. Þetta minnir mig á Sýrland. „Það hræðir börnin; ég bjóst aldrei við því að þurfa að upplifa þetta í Evrópu. Aldrei, aldrei“, sagði Zaha. Hún hrökk við í hvert sinn sem hávaðinn heyrðist í sérstökum hávaða – og ljósasprengjum sem makedóníska lögreglan notaði til að fæla flóttafólkið aftur að landamærunum. Ég taldi fleiri tugi sprenginga yfir einn dag.

Zaha hélt áfram: „Áður en stríðið skall á var Sýrland paradís…ef ekki væri fyrir stríðið hefðum við ekki þurft að ferðast alla þessa leið…við vorum að reyna að halda áfram með líf okkar en síðan fóru stríðandi fylkingar að taka börnin okkar og neyða þau til að berjast og sprengjum tók að rigna yfir höfði okkar“.

Eldri ættingi Zaha sýndi mér sárin sem hún hafði hlotið á fótum sér eftir ferðalagið frá Sýrlandi. „Vegna stríðsins höfum við glatað öllu, heimilum okkar, börnunum okkar. Allt er farið. Allt sem við eigum eftir eru þau, sagði ættinginn og benti á börn Zaha“.

Nokkrum metrum frá okkur var önnur fjölskylda frá Sýrlandi sem gerði tilraun til að komast yfir landamærin – tveir ungir menn, faðir þeirra og móðir sem var komin sjö mánuði á leið og auðsjáanlega úrvinda. Hún hafði þegar dvalið á spítala í nokkra daga á grísku eyjunni Lesvos en núna gerði hún tilraun til að komast til Makedóníu og áfram þaðan.

„Ég missti foreldri mitt í stríðinu og síðan skall á hungursneyð og við urðum að flýja“, sagði konan. „Við vonum að börnin okkar fái að lifa við frið og að ganga í skóla”, sagði faðirinn sem starfað hafði sem hönnuður í Damaskus. „Við eigum fjölskyldu í Þýskalandi og viljum komast þangað“.

Stuttu síðar flýtti fjölskyldan sér í átt að landamærunum í þeirri von að komast í gegnum tálmana. Nokkrum mínútum síðar þegar ég gekk til baka í átt að lestarstöðinni heyrði ég háan hvell í sprengjum. Ég fraus og varð á augabragði hugsað til þunguðu konunnar sem nú gekk í átt að sprengjunum. Ég get ekki skilið hvernig nokkur gæti viljað kasta slíkum sprengjum að fólki eins og henni og fjölskyldu hennar.

Mörgum mánuðum fyrr hafði Amnesty International greint frá því hvernig flóttafólki og farandverkafólki var kerfisbundið og ólöglega vísað frá af makedónísku lögreglunni og hvernig það sætti illri meðferð af hennar hálfu.

Hjálparstarfsfólk á vegum Lækna án landamæra, og öðrum óháðum félagasamtökum, gerði sitt besta til að aðstoða þúsundir sem þurftu að lifa við þessar skelfilegu aðstæður. Það sem snerti mig djúpt var hversu mikla samstöðu bæjarbúar sýndu flóttafólkinu sem án efa hefur hefur dregið úr þjáningum þeirra og jafnvel bjargað einhverjum lífum. Nokkrir bæjarbúar fluttu særða flóttamenn á spítala í nágrenninu. Þessi stuðningur er algjör andstæða við auðséðan skort á stuðningi yfirvalda.

Næsta dag, þann 23. ágúst ákváðu makedónísk yfirvöld þó að opna landamærin og leyfa flóttafólkinu að fara yfir. Flestir fóru í rútur og lestir til að halda áfram ódysseifsför sinni í átt að landamærum Serbíu og þaðan áfram.

Ég yfirgaf Idomeni með þá sterku trú að við eigum öll að rétta fram hjálparhönd til stríðshrjáðra bræðra okkar og systra á neyðarstundu. Núna er tími fyrir einhug og samstöðu ekki gaddavírsgirðingar og handsprengjur – þau hafa  upplifað nóg af slíku.

Eftir Giorgos Kosmopoulos, framkvæmdastjóra Amnesty International á Grikklandi, 27. ágúst 2015.

 ATH. Nöfnum viðmælenda hefur verið breytt af öryggisástæðum