Flóttamannavandinn er áfellisdómur yfir leiðtogum Evrópu!

Stundin er mörkuð af grafarþögn!
Um heim allan eru þetta hefðbundin viðbrögð þegar líf fólks glatast í harmleik.
Evrópa er ekki undanskilin þessum viðbrögðum þegar harmleikur hefur riðið yfir
álfuna eða skollið á strendur hennar eins og nú er, þar sem þúsundir
flóttamanna og farandfólks, hafa glatað lífi sínu. 

Stundin er mörkuð af grafarþögn! Um heim allan eru þetta hefðbundin viðbrögð þegar líf fólks glatast í harmleik. Evrópa er ekki undanskilin þessum viðbrögðum þegar harmleikur hefur riðið yfir álfuna eða skollið á strendur hennar eins og nú er, þar sem þúsundir flóttamanna og farandfólks, hafa glatað lífi sínu. Fólkið féll ekki fyrir sprengjum í heimalandi sínu heldur lét lífið í hrikalegri ferð sinni til að leita betra lífs í Evrópu. Stærð harmleiksins og framvinda hans hefur nú rofið þögnina!

Aðeins á örfáum dögum hrökk ég, eins og heimsbyggðin öll, undan hryllingnum þegar þrjár nýjar harmsögur bættust við langan lista atburða sem þegar höfðu tekið einn stærsta toll mannslífa meðal flóttamanna og farandverkafólks á þessu ári. Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa 2.500 manns þegar látið lífið á leið sinni til Evrópu frá 1. janúar 2015.

Miðvikudaginn 26. ágúst fundust 52 lík í skipsskrokki í um það bil 30 sjómílna fjarlægð frá ströndum Líbíu. Daginn eftir varð annar líkfundur þegar lögreglan í Austurríki fann 71 látinn, þeirra og meðal börn, flóttafólk sem troðið hafði verið í flutningabíl sem fannst yfirgefinn á útjaðri hraðbrautar á milli Búdapestar og Vínarborgar. Lögreglan greindi frá því að hinir látnu væru Sýrlendingar og þeir hefðu að öllum líkindum kafnað.

Þann 27. ágúst bárust síðan fregnir um enn einn harmleikinn af skipbroti við strendur Zuwara í Líbíu. Þegar þessi grein er skrifuð eru upplýsingar um málið óljósar og enn leitað að líkum en óttast að hátt í 200 manns hafi látið lífið. Hryllingurinn sem átti sér stað þessa viku var hvorki óvæntur né einstakur.

Fólkið sem látið hefur lífið í tugum talið – hvort sem það er í yfirfullum flutningabílum eða skipum á leið sinni eftir betra lífi – er sorglegur áfellisdómur um vangetu Evrópuleiðtoga til að tryggja örugga leið til álfunnar. Að slíkt skuli eiga sér stað á degi hverjum ber vitni um sameiginlega skömm Evrópu.

Í Vínarborg, fimmtudaginn 27. ágúst, skammt frá líkfundi lögreglu í flutningabílnum, hittust leiðtogar Evrópusambandsins og fulltrúar frá ríkjum á vesturhluta Balkanskaga.  Þrátt fyrir að flóttamannavandinn hafi upphaflega ekki verið á dagskránni tóku leiðtogar Evrópusambandsins fljótlega upp umræðuna um meðferð flóttamanna í Evrópu. Ekki að ástæðulausu – fyrr í vikunni hafði Amnesty International greint frá 4000 flóttamönnum sem fastir voru við landamæri Makedóníu að Grikklandi, eftir að yfirvöld í Makedóníu ákvaðu að loka landamærunum. Herþjálfaðir lögreglumenn lokuðu landamærunum með gaddavír og skutu sérstökum hávaða- og ljósasprengjum í átt að skelfingu lostnum fjölskyldum sem flúið höfðu stríðið í Sýrlandi. Vinnufélagi minn hitti móður fjögurra barna frá Damaskus sem hélt þéttingsfast utan um son sinn mitt í sprengjuhávaðanum: „Þetta minnir mig á Sýrland. Þetta hærðir börnin. Ég bjóst aldrei við að upplifa þetta í Evrópu. Aldrei, aldrei,“ sagði hún.

Þegar lengra er haldið á Balkanskagann, á flóttamannleiðinni, tekur ungveska lögreglan á móti flóttafólkinu með því að sprauta táragasi yfir fjöldann sem bíður í móttökumiðstöð, og ungversk stjórnvöld vinna að kappi að reisa gaddavírsgirðingu meðfram landamærunum að Serbíu til að sporna við komu fleiri flóttamanna og farandverkafólks. 

Amnesty International snéri nýverið frá grísku eyjunni Lesbos sem er í framlínu flóttamannavandans í Evrópu. Undirmönnuð og ofhlaðin verkefnum, hafa yfirvöld á Lesbos ekki geta ráðið við átakanlega aukningu flóttafólks sem kemur á eyjuna en aðeins frá 1. ágúst hafa 33.000 numið þar land. Afleiðingin er sú að þúsundir flóttamanna, þar með talið frá Sýrlandi, þurfa að hírast við ömurlegar aðstæður á eyjunni.

Allar þessar krísur eru einkenni sama vandans: Evrópa tekst ekki á við ábyrgð sína við að leysa fordæmalausan flóttamannavanda. Evrópu hefur mistekist að skapa örugga leið fyrir flóttamenn, leið þar sem réttindi og vernd eru í fyrirrúmi, í samræmi við þá mannhelgi og reisn sem flóttafólkið á tilkall til.

Hvað er hægt að gera? Altént, engar fleiri stundir sem markaðar eru af grafarþögn -  við höfum fengið nóg af slíku. Nú er tími til að taka forystu. Sumir leiðtogar Evrópu virðast hafa brugðist við ákallinu. Á fundinum í Vín töluðu leiðtogar Evrópu minna um Fortress Europe og að halda fólki frá Evrópu, og meira um samstöðu og ábyrgð.

Varaforseti Framkvæmdastjórnar ESB, Federica Mogherini gæti ekki hafa talað skýrar í lok fundarins í Vín. „Evrópu ber siðferðisleg og lagaleg skylda til að vernda hælisleitendur“, sagði Federica. 

Orðin eru sannarlega rétt en nú þurfa þau einnig að raungerast. 

Amnesty International hefur árum saman kallað eftir samhentu átaki Evrópu í þessum efnum, en atburðir undanfarnar vikur og daga sanna að oft var þörf en nú er nauðsyn.

Leiðtogar allra Evrópuríkja, [á Íslandi þeirra á meðal], verða að gera mun betur og tryggja vernd fyrir fleira fólk, deila ábyrgðinni betur og sýna öðrum löndum og þeim sem eru í sárustu þörfinni, samstöðu.

Slík viðbrögð verða í það minnsta að fela í sér frekari aðstoð við flóttafólk við að setjast að í Evrópu – núverandi tillögur þess efnis blikna í samanburði við Tyrkland sem hefur tekið á móti 1.8 milljón flóttafólks frá Sýrlandi – þörf er á fleiri vegabréfsáritunum af mannúðarástæðum og fleiri leiðum til að sameina fjölskyldur.
Allt minna en þessar aðgerðir myndi þýða átakanleg mistök á sviði mannréttinda.

Grein eftir Gauri van Gulik varaframkvæmdastjóra Amnesty International í Evrópu, 28. ágúst 2015.