Tilkynning til félaga um breytingar á félagafjölda

Á heimsþingi Amnesty International í ágúst 2015
var samþykkt ályktun um að stjórn alþjóðasamtakanna marki stefnu varðandi
mannréttindi vændisfólks. Í þeim mánuði hætti hópur fólks að starfa með
Íslandsdeild samtakanna. Flestir í þessum hópi hættu á næstu dögum eftir
að ályktunin var samþykkt þ.e. á tímabilinu 11.-20. ágúst síðastliðinn.

29. september 2015

Á heimsþingi Amnesty International í ágúst 2015 var samþykkt ályktun um að stjórn alþjóðasamtakanna marki stefnu varðandi mannréttindi vændisfólks. Í þeim mánuði hætti hópur fólks að starfa með Íslandsdeild samtakanna. Flestir í þessum hópi hættu á næstu dögum eftir að ályktunin var samþykkt þ.e. á tímabilinu 11.-20. ágúst síðastliðinn. Þótt alltaf sé nokkur hreyfing á fjölda félaga má gera ráð fyrir að flestir í þessum hópi hafi hætt þátttöku vegna ályktunar heimsþingsins. Á sama tíma gekk einnig nokkur fjöldi fólks til liðs við deildina. Má gera ráð fyrir að stærstur hluti þess hóps hafi gengið til liðs við deildina í tengslum við hefðbundið átak hennar við félagaöflun sem jafnan fer fram á sumrin.

Nú liggur fyrir hversu miklar þessar breytingar voru. Þeir sem sögðu skilið við deildina í ágústmánuði, ýmist með því að segja sig úr henni eða með því að hætta þátttöku í SMS-neti eða netákalli deildarinnar, voru 434 talsins eða um 1,3% þeirra sem störfuðu með deildinni. Þar af tiltóku 247 einstaklingar ályktun heimsþingsins sem ástæðu fyrir ákvörðun sinni. Þá fjölgaði þeim sem starfa með deildinni um 485 í sama mánuði, þ.e. um 1,4% og voru þeir alls 33.776 talsins í lok mánaðarins.

Þeim sem taka þátt í starfi Íslandsdeildar Amnesty hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og eru bæði deildin og alþjóðasamtökin þakklát fyrir þann stuðning. Þrátt fyrir að sú aukning hafi haldið áfram að undanförnu liggur fyrir að ákveðinn hópur fólks hefur sagt skilið við deildina í tengslum við framangreinda ályktun heimsþings samtakanna. Um leið og stjórn Íslandsdeildarinnar harmar að þessir félagar hafi ekki séð sér fært að starfa lengur með deildinni telur hún mikilvægt að þeim skilaboðum sem felast í úrsögnunum sé haldið til haga og að þau komist til skila. Því mun hún vekja sérstaka athygli stjórnar alþjóðasamtakanna á þessum úrsögnum og þeim skilaboðum öðrum sem deildin hefur fengið í tengslum við ályktunina.

Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International