Undirbúningur fyrir einn stærsta mannréttindaviðburð í heimi, bréfamaraþonið, er hafin og í aðdraganda þess lítum við yfir farin veg og skoðum hvernig bréf þín höfðu áhrif á líf þolenda mannréttindabrota í kjölfar bréfamaraþonsins 2014.
Níu dæmisögur um hvernig skrif þín breyttu lífi þolenda mannréttindabrota
Undirbúningur fyrir einn stærsta mannréttindaviðburð í heimi, bréfamaraþonið, er hafinn og í aðdraganda þess lítum við yfir farin veg og skoðum hvernig bréf þín höfðu áhrif á líf þolenda mannréttindabrota í kjölfar bréfamaraþonsins 2014.
1. Frelsi í Nígeríu
Fylkisstjóri á óseyrum Nígerfljóts lét undan öflugum þrýstingi frá félögum Amnesty og náðaði Moses Akatugba, sem var dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall í kjölfar ásakana um stuld á þremur farsímum. Alls söfnuðust rúmlega 16.000 undirskriftir frá Íslandi árið 2014 vegna Moses í gegnum sms-aðgerðanetið, netákallið og á bréfamaraþoni samtakanna. Moses lét eftirfarandi orð falla þegar ljóst var að hann yrði náðaður:
„Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum samtakanna fyrir stórkostlegan stuðning sem gerðu mig að sigurvegara í þessum aðstæðum. Félagar Amnesty International og aðgerðasinnar eru hetjurnar mínar. Ég fullvissa þá um að þessi ótrúlegi stuðningur sem þeir hafa sýnt mér er ekki fyrir borð borinn. Með náð guðs mun ég uppfylla væntingar þeirra. Ég heiti því að gerast aðgerðasinni sjálfur og berjast fyrir aðra. Ég þakka einnig fylkisstjóranum fyrir góðverk sitt og að standa við orð sín.“
Íslandsdeildin þakkar öllum þeim sem börðust fyrir lausn Moses heilshugar fyrir þátttökuna. Samtakamáttur einstaklinga eins og ykkar sem af þrautseigju haldið baráttunni áfram í þágu þeirra sem sæta grófum mannréttindabrotum skilar sér sannarlega.
2. Rannsókn á pyndingum á Filippseyjum
Þann 27. mars afhenti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum undirskriftir frá bréfamaraþoninu 2014 til lögreglunnar þar í landi og kallaði eftir rannsókn á pyndingum sem Jerryme Corre sætti. Strax eftir afhendingu undirskriftanna bárust Jerryme og fjölskyldu hans þær fregnir frá lögreglunni að rannsókn yrði sett af stað líkt og Amnesty International kallaði eftir.
Mánudaginn 6. apríl var starfsfólk Amnesty International viðstatt fyrstu skýrslutöku rannsóknarinnar ásamt Jerryme Corre og lögfræðingi hans. Í skýrslutökunni var staðfest að Innra eftirlit lögreglunnar hóf rannsóknina vegna bréfa sem því barst frá Amnesty International.
Við heimsóknina tjáði Jerryme starfsfólki Amnesty International á Filippseyjum að honum hafi borist fjöldinn allur af bréfum í fangelsið og lét eftirfarandi orð falla af því tilefni: „Ég get aldrei þakkað nógsamlega fyrir mig. Bréfin gáfu mér styrk. Þau breyttu jafnvel þróuninni á máli mínu samanborið við það sem áður var. Þau veittu einnig eiginkonu minni styrk. Við erum ekki ein í baráttunni. Margt fólk berst einnig fyrir réttlæti fyrir okkar hönd.“
3. Leyfi veitt fyrir heimsóknum í fangelsi í Kína
Liu Ping, sem er baráttukona fyrir mannréttindum í Kína, var dæmd í sex og hálfs árs fangelsi fyrir að reyna að afhjúpa spillingu í landinu. Dómurinn yfir Liu Ping er hluti af viðleitni stjórnvalda til að brjóta á bak aftur Nýju borgarahreyfinguna, sem er friðsamleg hreyfing baráttufólks er vinnur að gagnsæi í stjórnsýslunni, hjálpa þeim sem standa höllum fæti og afhjúpa spillingu. Dóttur Liu Ping, var loksins veitt leyfi til að heimsækja móður sína í fangelsið í fyrra. Sú alþjóðlega athygli sem mál Liu Ping hefur fengið og þrýstingur þátttakenda í bréfamaraþoninu hafði áhrif á þetta jákvæða skref.
4. Barátta gegn kynþáttfordómum í Grikklandi.
Paraskevi Kokkoni er 35 ára gömul kona af Róma-ættum sem býr í Vestur-Grikklandi. Hún og andlega vanheill frændi hennar urðu fyrir heiftarlegri líkamsárás – sprottinni af kynþáttahatri – þegar þau voru í verslunarleiðangri í október 2012. Paraskevi Kokoni hitti dómsmálaráðherra Grikklands síðla árs 2014 og afhenti honum bréf þar sem þess var krafist að kynþáttahatur yrði ekki liðið í Grikklandi og réttlæti krafist fyrir hönd Paraskevi. Dómsmálaráðherra Grikklands sagði við það tilefni að núverandi löggjöf gegn kynþáttahatri dugði ekki og lagði til að gripið yrði til aðgerða til að breyta ástandinu.
5. Endurbætur á heilbrigðisþjónustu í Suður-Afríku.
Þungaðar konur og nýbakaðar mæður í Mkhondo-sveitarfélaginu í austurhluta Suður-Afríku hafa látið lífið að óþörfu sökum þess að þær njóta ekki nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Nú njóta þær betra aðgengis að mæðravernd. Ein heilsugæslustöð í Mkhondo-sveitarfélaginu hefur aukið þjónustu sína við þungaðar og nýbakaðar mæður og nú er boðið upp á mæðravernd sjö daga vikunnar í stað tveggja daga, eins og áður var sem hefur dregið verulega úr biðtíma.
6. Bætur á Indlandi
Indversk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni endurskoða fjölda látinna og slasaðra í kjölfar gaslekans í Bophal árið 1984 með tilliti til skaðabóta. Þetta kann að vera stórt skref í þátt átt að tryggja að fyrirtækin sem ábyrgð bera á gaslekanum greiði skaðabætur í samræmi við þá stærðargráðu af hörmungum sem gaslekinn olli.
7. Þolanda mannréttindabrota í Úsbekistan veittur styrkur
Erkin Musaev var ranglega ásakaður um njósnir, pyndaður og dæmdur í 20 ára fangelsi eftir nokkur ósanngjörn réttarhöld.
Um leið og við komumst að því að bréf kæmust ekki til skila til Erkin Musaev, þolanda pyndinga sem hefur verið í haldi síðan 2006 í Úsbekistan, lögðum við fram kvörtun til fangelsisstjórans. Erkin var þá leyft að lesa nokkur bréf í návist starfsmanna fangelsisins áður en hann skilaði þeim til baka.
Erkin og fjölskylda hans færa innilegustu þakkir til allra í Amnesty sem hafa sent þeim stuðningskveðjur, þar á meðal í bréfamaraþoninu 2014. Erkin segir að hver einasta kveðja skipti hann miklu máli og gefi honum styrk, bjartsýni og trú.
8. Stuðningur við Chelsea Manning í Bandaríkjunum
Saman sendum við rúmlega 240,000 bréf og kort vegna Chelsea Manning sem hlaut 35 ára fangelsisdóm eftir að hafa út leynilegum gögnum frá Bandaríkjastjórn á vefsíðunni Wikileaks, þar á meðal efni sem afhjúpaði möguleg mannréttindabrot bandarískra hersveita á erlendri grundu. Í kjölfar bréfamaraþonsins árið 2014 lét hún eftirfarandi orð fall: „Ég er svo þakklát fyrir allan stuðning ykkar við að halda mér jákvæðri. Ég er sterk vegna ykkar!“
9. Vitundarvakning í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Lögfræðingurinn og prófessorinn Mohammed al-Roken hlaut tíu ára fangelsisdóm í kjölfar yfirgripsmikillar herferðar stjórnvalda gegn pólitískum aðgerðasinnum og mannréttindafrömuðum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þið börðust fyrir máli hans og kröfðu yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um að leysa Mohammed tafarlaust úr haldi. Í kjölfar bréfamaraþonsins árið 2014 lét aðgerðasinni frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum eftirfarandi orð falla, „Við erum mjög vongóð um að herferðir eins og þessar [bréfamaraþonið] kunni að þrýsta á stjórnvöld að stíga jákvæðari skref í átt að mannréttindum“.
