Í rúmlega 50 ár hefur Amnesty International barist fyrir stjórnmálalegum
og borgaralegum réttindum, þar á meðal réttarins til mannúðlegrar meðferðar
handtekinna manna og til réttlátrar málsmeðferðar.
Í rúmlega 50 ár hefur Amnesty International barist fyrir stjórnmálalegum og borgaralegum réttindum, þar á meðal réttarins til mannúðlegrar meðferðar handtekinna manna og til réttlátrar málsmeðferðar. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er mikið verk enn að vinna. Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum samtakanna. Í ársskýrslu samtakanna frá 2011 er að finna upplýsingar frá 101 ríki þar sem pyndingar og önnur grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð viðgengst. Árið 2012 skrásetti Amnesty International pyndingar í 112 ríkjum. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki. Pyndingar af hálfu ríkisvaldsins eru því hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir að alþjóðleg lög gegn pyndingum hafi víða verið samþykkt.
Amnesty International ýtti því úr vör nýrri herferð þann 13. maí 2014 sem nefnist Stöðvum pyndingar. Með herferðinni er lögð áhersla á að ríki grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist. Ríkisstjórnir allra landa verða að sýna í verki að þær líði ekki pyndingar eða illa meðferð undir nokkrum kringumstæðum.
Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í herferðinni m.a. með því að þrýsta á íslensk stjórnvöld að fullgilda valfrjálsa bókun við samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og niðurlægjandi meðferð og refsingu. Ísland undirritaði samninginn árið 1985 og fullgilti hann árið 1996. Bókunin sem var undirrituð 24. september 2003 felur m.a. í sér að komið verði á alþjóðlegri eftirlitsnefnd sem er heimilað að skoða aðstæður í þeim löndum sem fullgilda bókunina. Einnig er gert ráð fyrir að þau ríki sem fullgilda bókunina grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir pyndingar og aðra illa meðferð, m.a. með því að setja á fót sjálfstæða stofnun sem annast eftirlit með stöðum þar sem einstaklingar dveljast á vegum hins opinbera og almennt eftirlit með störfum lögreglunnar. Nefnd gegn pyndingum á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að fullgilda bókunina og setja sjálfstæða eftirlitsstofnun á fót.
Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn pyndingum og annarri illri meðferð fela einnig í sér að tryggja þekkingu fólks á réttindum sínum, þar á meðal réttinum til réttlátrar málsmeðferðar. Sem hluti af herferðinni Stöðvum pyndingar, sem leggur áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn pyndingum og annarri illri meðferð, hefur Íslandsdeild Amnesty International dreift veggspjöldum víða á höfuðborgarsvæðinu með upplýsingum á íslensku, ensku og pólsku, um réttindi fólks við handtöku og skýrslutöku, sbr. hjál. sýnishorn. Átakið nefnist Þinn réttur. Þá hefur Íslandsdeild samtakanna jafnframt sett fram ítarlegar upplýsingar á vefsíðu samtakanna um margvísleg réttindi fólks í samskiptum við lögreglu.
Hægt er að finna upplýsingarnar á: http://www.amnesty.is/starfid-okkar/herferdir/thinn-rettur
