Sýning heimildamyndarinnar, In the land of the free í Bíó Paradís

Íslandsdeild Amnesty International stendur fyrir
sýningu verðlauna- heimildamyndarinnar, In the land of the free (2010) í Bíó Paradís, fimmtudaginn 19. nóvember kl. 20
í sal 2. 

Íslandsdeild Amnesty International stendur fyrir sýningu verðlauna- heimildamyndarinnar, In the land of the free (2010) í Bíó Paradís, fimmtudaginn 19. nóvember kl. 20 í sal 2. 

Allir eru velkomnir á meðan pláss leyfir og aðgangur ókeypis.

Sýning myndarinnar er hluti af bréfamaraþoni Amnesty International sem fram fer ár hvert í kringum alþjóðlegan mannréttindadag, þann 10. desember. Þá koma hundruð þúsunda saman í yfir 150 löndum og landsvæðum og skrifa bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og senda kveðjur til þolenda brotanna. Íslandsdeild Amnesty hefur tekið þátt í bréfamaraþoni samtakanna í rúman áratug og hafa tugir þúsunda Íslendinga lagt okkur lið með undirskrift sinni, bréfaskrifum, sms-ákalli og netákalli.

Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan. Á hverju ári fær Amnesty International fregnir af því að samviskufangi er leystur úr haldi, fangi á dauðadeild náðaður, gerandi pyndinga er sóttur til saka eða að grimmilegri löggjöf er breytt. Bréfin bjarga því sannarlega lífi.

Eitt málanna sem Íslandsdeild Amnesty International berst fyrir í ár er mál Albert Woodfox en átakanlega saga hans, Hermans Wallace og Roberts King, er rakin í heimildamyndinni. Þremenningarnir eru þekktir undir nafninu Angola 3 en þeim var öll­um haldið í ein­angr­un í há­marks­ör­ygg­is­fang­elsi í Louisiana í Bandaríkjunum nærri fyrr­ver­andi þræla­plantekrunni An­gola.

Robert King sat í einangrun í hartnær 30 ár, allt fram til ársins 2001 og Herman Wallace í 38 ár, en hann lét lífið árið 2013, aðeins þremur dögum eftir að honum var sleppt úr haldi. Albert Woodfox situr enn í fangelsi eftir 43 ár, þar af 40 ár í einangrun. Woodfox er læstur inn í klefa sem 183×244 cm að stærð, 23 tíma dagsins, þar sem dagsbirta er nánast engin.

Woodfox var dæmdur í fangelsi 1971 fyrir vopnað rán. Hann hóf afplánun í Angola og varð strax einn af meðlimum Svörtu hlébarðanna, samtaka sem létu mikið að sér kveða í réttindabaráttu blökkumanna á sjöunda og áttunda áratugnum, í fangelsinu.

Árið 1972 var hann dæmdur fyrir morð á fangaverði. Woodfox hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.

Engar áþreifanlegar sannanir tengja Woodfox við morðið og sakfelling hans byggðist einkum á vitnisburði samfanga hans sem hlaut náðun fyrir vikið. Woodfox heldur því fram að pólitískar ástæður liggi að baki sakfellingunni, þar sem hann var meðlimur í Svörtu hlébörðunum. 

Áratuga löng einangrunarvist og frelsissvipting hefur haft skelfileg áhrif á Woodfox. „Ég á ekki til þau orð sem tjáð geta þær andlegu, tilfinningalegu og líkamlegu pyndingar sem ég hef mátt þola í gegnum árin.“ Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst meðferðinni á Woodfox sem pyndingum.

Lögsóknin á hendur honum var svo meingölluð að þrisvar sinnum var sakfellingin   afturkölluð. Í júní árið 2015 fyrirskipaði alríkisdómari í Bandaríkjunum að Albert Woodfox skyldi tafarlaust leystur úr haldi en yfirvöld í Louisiana standa í vegi fyrir frelsi hans.

Saksóknari í Louisiana hefur lengi háð stríð gegn Albert Woodfox, stríð sem er litað af hefnd og stendur í vegi fyrir möguleikum Woodfox á að verða frjáls maður.

„Þeir geta beygt mig örlítið. Þeir geta valdið mér miklum sársauka. Þeir geta jafnvel tekið líf mitt. En þeir geta aldrei brotið mig niður,“segir Woodfox.

Einangrunarvist þremenninganna telst grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð, og stríðir gegn alþjóðalögum.

Mennirnir þrír hafa alla tíð haldið fram sakleysi sínu og engin áþreifanleg sönnunargögn tengja þá við glæpinn sem þeir hlutu dóm vegna.

Heimildamyndin, In the land of the free, hefur unnið til alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna m.a. í flokknum Besta heimildamyndin á Evening Standard British Film Awards. Hinn góðkunni leikari, Samuel L. Jacksson er söguskýrandi myndarinnar.

Löngu er tímabært að réttlætinu verði fullnægt.Hjálpaðu Íslandsdeild Amnesty að þrýsta á ríkissaksóknara í Louisiana að leysa Woodfox tafarlaust úr haldi.