Bréfamaraþonið fór fram á 19 stöðum um land allt á síðasta ári og átti fjöldi einstaklinga veg og vanda að framkvæmd þess í sínu sveitafélagi.
Bréfamaraþonið fór fram á 19 stöðum um land allt á síðasta ári og átti fjöldi einstaklinga veg og vanda að framkvæmd þess í sínu sveitafélagi. Margir þessarra einstaklinga hafa staðið að Bréfamaraþoninu í árafjöld og aðrir buðu fram liðstyrk sinn í fyrsta skipti árið 2015. Öllu þessu fólki kann Íslandsdeild Amnesty International sérstakar þakkir fyrir framlag sitt í þágu þolenda mannréttindabrota.
Mörg bókasöfn lögðu átakinu einnig lið, auk þess sem framhaldsskólar um landið vítt og breitt kepptu sín á milli um flestar undirskriftir til stjónvalda sem brjóta mannréttindi. Á seinna hluta ársins 2015 kynnti Íslandsdeild Amnesty International einnig til sögunnar nýja og einfalda aðgerðaleið á netinu, vefsíðuna Bréf til bjargar lífi en þar mátti finna 12 mál einstaklinga sem allir hafa sætt grófum mannréttindabrotum. Með einum smell gátu þátttakendur gripið til aðgerða í þágu allra brotaþola eða valið þau mál sem þeir kusu að styðja.
Skemmst er frá því að segja að vefsíðunni var einstaklega vel tekið en alls söfnuðust 37.030 undirskriftir í gegnum hana frá einstaklingum, fyrirtækjum, skólum og félagsmiðstöðvum. Stefnt var að 50.000 undirskriftum á vefsíðunni og því náðust 74% að settu marki sem verður að teljast mjög góður árangur fyrsta árið sem síðan er kynnt landsmönnum.
Heildarfjöldi undirskrifta, stuðningskorta, sms- og netákallsaðgerða í bréfamaraþoninu, árið 2015 var samtals 80.124 sem verður að teljast ótrúlegur árangur. Á Höfn í Hornafirði söfnuðst 2224 undirskriftir á aðgerðakort til stjórnvalda og stuðningskveðjur, en Guðlaug Úlfarsdóttir á heiðurinn að því, enn eitt árið í röð. Í Borgarfirði stóð Sigursteinn Sigurðsson fyrir Bréfamaraþoni en þar söfnuðust 1878 undirskriftir og stuðningskveðjur, á skrifstofu samtakanna söfnuðust 1365 undirskriftir og stuðningskveðjur og á Egilsstöðum skipulagði Ragnhildur Rós Sigurðardóttir Bréfamaraþon og fékk 820 undirskriftir og stuðningskort. Á Ísafirði söfnuðust 707 undirskriftir og stuðningskveðjur en stöllurnar, Ólöf Björk Oddsdóttir og Erla Rún Sigurðardóttir héldu utan um átakið fyrir vestan. Á Sauðárkróki stóð Auður Aðalsteinsdóttir í fyrsta sinn fyrir Bréfamaraþoni og safnaði 678 undirskriftum og Anna Lára Steindal tók sömuleiðis í fyrsta sinn þátt á Akranesi og safnaði 583 undirskriftum. Á Akureyri söfnuðust 487 undirskriftir en Brynhildur Pétursdóttir stóð þar að baki átakinu enn eitt árið í röð. Bjarney Inga Sigurðardóttir hleypti Bréfamaraþoninu úr vör í Stykkishólmi og safnaði 195 undirskriftum.
Þá er gaman að segja frá því að nemendur í 6. til 8. bekk í Alþjóðaskólanum í Garðabæ tóku þátt í Bréfamaraþoninu á síðasta ári og unnu þau stórt fræðsluverkefni í tengslum við átakið í samvinnu við kennara sinn Pamala Hansford. Nemendurnir skrifuðu einnig allir löng stuðningsbréf frá eigin brjósti til þolenda mannréttindabrotanna og handskrifuðu bréf til stjórnvalda.
Öllu þessu fólki þakkar Íslandsdeild Amnesty International hjartanlega fyrir stuðninginn, atorkuna og fórnfýsina í þágu þolenda mannréttindabrota.
