Íslandsdeild Amnesty International stendur að sýningu heimildamyndarinnar, Take the boat (2015), í Bíó Paradís miðvikudaginn 27. Janúar kl. 20.
Frítt verður inn og allir velkomnir!
Íslandsdeild Amnesty International stendur að sýningu heimildamyndarinnar, Take the boat (2015), í Bíó Paradís miðvikudaginn 27. Janúar kl. 20.
Frítt verður inn og allir velkomnir!
Myndin segir frá átakanlegri sögu fimm kvenna á Írlandi sem orðið hafa fyrir barðinu á harðneskjulegri fóstureyðingarlöggjöf en fóstureyðing er bönnuð þar samkvæmt lögum í nánast öllum tilvikum líka þegar um nauðgun ræðir. Löggjöf um fóstureyðingu á Írlandi er ein sú strangasta í heimi þar sem fóstureyðing er aðeins leyfð þegar líf konu eða stúlku er í mikilli hættu. Lögin neyða að minnsta kosti fjögur þúsund þungaðar konur og stúlkur á ári til að ferðast utan Írlands til að leita sér fóstureyðingar með tilheyrandi andlegum og fjárhagslegum kostnaði. Ein þeirra kvenna sem hafa neyðst til að leita fóstureyðingar utan Írlands er Gaye Edwards en hún verður gestur Íslandsdeildar samtakanna á sýningu myndarinnar, ásamt Sorcha Tunney yfirmanni herferðadeildar Amnesty á Írlandi og Camille Hamet framleiðanda myndarinnar og kvikmyndagerðakonu.
Þegar Gaye Edwards var gengin 20 vikur á sinni fyrstu meðgöngu uppgötvaðist að barnið myndi ekki lifa eftir fæðingu. Þar sem fóstureyðing er ólögleg á Írlandi í öllum tilvikum nema þegar líf konu er í stórkostlegri hættu, var þeim tjáð að Gaye yrði að ganga fulla meðgöngu, að enga aðstoð væri að finna í landi þeirra. Eiginmaður Gaye, Gerry Edwards lét þau orð falla þegar ljóst var að þau hjónin yrði að flýja landið eins og glæpamenn í leit að aðstoð, „Við fylltumst bæði mikilli reiði. Okkur leið eins og við værum algerlega ein og yfirgefin. Okkur fannst heilbrigðisstarfsfólk ekki aðeins bregðast okkur heldur landið okkar. Okkur voru ekki einu sinni veittar nauðsynlegar upplýsingar. Þegar við fórum að kanna hvert við gætum leitað eftir fóstureyðingu í London leið okkur eins og glæpamönnum að sýsla á svarta markaðinum jafnvel þó við ættum rétt á að ferðast og rétt á upplýsingum.”
Að sýningu lokinni munu gestir Íslandsdeildarinnar fjalla um gerð myndarinnar og fóstureyðingarlöggjöfina á Írlandi, auk þess að standa fyrir svörum.
