Líbanon: Flóttakonur frá Sýrlandi eiga í aukinni hættu á misnotkun og kynferðislegri áreitni

Skortur á alþjóðlegum stuðningi sem og stefna yfirvalda sem ýtir undir mismunun í Líbanon hefur skapað umhverfi sem eykur hættuna á misnotkun og illri meðferð á flóttakonum í landinu samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Þverrandi alþjóðlegur stuðningur og reglugerðir líbanskra stjórnvalda sem ýta undir  mismunun hafa skapað aðstæður sem auka á ofbeldi og misbeitingu gegn flóttakonum í Líbanon. Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið, „I want a safe place: Refugee women from Syria uprooted and unprotected in Lebanon“. Skýrslan varpar ljósi á það hvernig skortur á alþjóðlegu fjármagni og synjun líbanskra stjórnvalda um að endurnýja dvalarleyfi fyrir flóttafólk, hefur sett konur í háskalegar aðstæður. Konur á flótta eiga í hættu á að sæta hvers konar misbeitingu af hálfu þeirra sem eru í aðstöðu til misnota vald sitt s.s. landeigendur, atvinnurekendur og jafnvel lögregla. Konur í þessum aðstæðum eiga hættu á að vera áreittar og misnotaðar á sama tíma og þeim gert ómögulegt að leita verndar frá yfirvöldum, segir Kathryn Ramsay, rannsakandi kynjamála hjá Amnesty International.

Árið 2015 komu stjórnvöld í Líbanon í veg fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skráði fleira sýrlenskt flóttafólk í landinu og kynnti til sögunnar nýja reglugerð sem gerir flóttafólki erfiðara um vik að endurnýja dvalarleyfi sitt. Án viðunandi réttarstöðu á flóttafólk í hættu á að sæta geðþóttahandtöku, fangavist og jafnvel brottvísun úr landi, sem fælir margra frá því að kæra illa meðferð og misnotkun til lögreglu.

Tuttugu prósent af sýrlenskum heimilum í Líbanon er stýrt af konum. Í mörgum tilfellum er heimilið á framfæri konunnar þar sem eiginmaður hefur verið drepinn, er í haldi eða sætt þvinguðu mannshvarfi í Sýrlandi.

„Meirihluti sýrlensks flóttafólks í Líbanon berst við að lifa af við afar erfiðar aðstæður. Það sætir víðtækri mismunun og á í erfiðleikum með að afla sér matar, húsaskjóls eða atvinnu. Aðstæður flóttakvenna eru jafnvel enn erfiðari, sérstaklega fyrir þær sem vinna fyrir heimilum sínum, eiga sérstaklega á hættu að verða fyrir áreitni, misnotkun eða illri meðferð í vinnu eða á götum úti,” segir Kathryn Ramsay.

Fátækt og misnotkun atvinnurekenda og húsráðenda

Um 70% sýrlenskra flóttafjölskyldna búa langt undir fátæktarmörkum í Líbanon. Mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna vegna straums sýrlenskra flóttamanna hefur alltaf verið undirfjármögnuð. Skortur á fjármagni hefur orðið til þess að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur orðið að skera niður mataraðstoð til þeirra verst settu um rúmlega helming. Um fjórðungur kvenna sem Amnesty International ræddi við, hafði ekki fengið mataraðstoð síðastliðið ár.

Víðtæk mismunun gegn flóttafólki í Líbanon leiðir til þess að flóttakonur sem hafa fundið sér atvinnu hafa orðið fyrir misnotkun af hálfu atvinnurekenda sem greiða smánarleg laun. „Þeir vita að við samþykkjum hvaða laun sem er því við erum í neyð,” sagði „Hanan” palestínsk flóttakona sem nafni hefur verið breytt til þess að vernda persónu hennar. Aðrar konur hafa sagt frá ósæmilegum boðum um fjárhagslega eða annars konar aðstoð í skiptum fyrir kynlíf.

„Asmaa”, 56 ára gömul palestínsk flóttakona frá Sýrlandi leyfir dætrum sínum ekki að vinna vegna ótta um að þær verði fyrir áreiti. „Dóttir mín vann í verslun þar sem verslunarstjórinn áreitti hana og snerti. Þess vegna leyfi ég þeim ekki að vinna úti núna.” Fleiri konur töluðu um að þær hefðu hætt í vinnu eða ekki tekið að sér vinnu þar sem þeim fyndist atvinnurekandinn hegða sér ósæmilega gagnvart þeim.

Það er töluverð áskorun að afla sér tekna til þess að eiga fyrir húsaskjóli. Um 58% sýrlenskra flóttamanna býr í leiguhúsnæði, aðrir búa í niðurníddu eða ósamþykktu húsnæði. Margar konur sögðu frá því að þær gætu ekki greitt fyrir leigu og enduðu því á að búa í illa förnu og skítugu húsnæði.

„Hvort sem þær fái of lág laun fyrir vinnu sína eða búa í skítugu, leku húsnæði með rottugangi þá er bág fjárhagsleg staða að valda flóttakonunum gríðarlegum vanda og hvetur í raun fólk í valdastöðum til þess að nýta sér neyð þeirra,” segir Kathryn Ramsay.

Skortur á lagalegri stöðu eykur áhættuna

Svifaseint kerfi og mikill kostnaður er leggst á flóttafólk við að endurnýja dvalarleyfin hafa hindrað marga í að endurnýja þau. Án gilds dvalarleyfis óttast flóttafólk frá Sýrlandi handtöku og forðast því að tilkynna illa meðferð til lögreglu.

Meirihluti þeirra kvenna sem Amnesty International ræddi við sagði að ógilt dvalarleyfi hindraði þær í að tilkynna glæpi til líbanskra yfirvalda. „Hanan” sagði frá því er hún fór til lögreglunnar til þess að tilkynna áreiti af hálfu strætisvagnstjóra var henni vísað frá þar sem lagaleg staða hennar var engin.

Það eru hvergi í heiminum fleiri flóttamenn en í Líbanon sé miðað við höfðatölu og alþjóðasamfélagið hefur ekki veitt landinu nauðsynlegan stuðning. Sú staðreynd afsakar þó ekki yfirvöld að veita ekki vernd gegn misnotknun og illri meðferð.

Í stað þess að ýta undir ótta og ógnun verða líbönsk yfirvöld að ráðast í úrbætur innan löggæslunnar til þess að tryggja að flóttakonur séu verndaðar og að allt flóttafólk geti sótt um endurnýjun dvalarleyfa án hindrana.

Alþjóðlegur stuðningur nauðsynlegur

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ályktar að að minnsta kosti 10% sýrlenskra flóttamanna eða um 450.000 manns, oft konur og stúlkur séu í viðkvæmri stöðu og þurfi nauðsynlega að fá dvöl í öðru landi.

Amnesty krefst þess að alþjóðasamfélagið auki framboð til endurbúsetu og tryggi öruggar leiðir fyrir sýrlenska flóttamenn frá svæðinu.

Ríkustu þjóðir heims, Bretland, Flóaríkin og Bandaríkin, á meðal annarra, þurfa að gera miklu meira til þess að létta á ástandinu. Annars vegar með aukinni mannúðaraðstoð til Sýrlands og hins vegar með auknu framboði til endurbúsetu fyrir þá sem þegar eru á flótta. 

Að auki verða ríki er taka á móti flóttamönnum að fjarlægja hindranir sem koma í veg fyrir að flóttafólk hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu og að tryggja að allt flóttafólk, þar á meðal konur í viðkvæmri stöðu, þurfi ekki að óttast illa meðferð.