Spurningar og svör: Stefna um vernd mannréttinda vændisfólks

Amnesty International birti stefnu sína í dag, 26. maí 2016, varðandi verndun vændisfólks gegn mannréttindabrotum og mistnokun. Stefnan kallar á stjórnvöld að vernda, virða og uppfylla réttindi vændisfólks. Hér má finna nokkrar helstu spurningar sem hafa borist Amnesty og komið hafa fram í opinberri umræðu, ásamt svörum við þeim.

1. Hvers vegna þarfnast Amnesty International stefnu til að vernda mannréttindi vændisfólks?
Vegna þess að í mörgum löndum er vændisfólk í sérstakri hættu að sæta mannréttindabrotum. Stefna okkar útlistar hvað stjórnvöld ættu að gera til þess að standa betur vörð um réttindi þessa hóps.

2. Hvers konar misnotkun á vændisfólk hættu á að verða fyrir?

Vændisfólk á hættu á að sæta margvíslegum mannréttindabrotum, þar á meðal:

  • Nauðgun
  • Ofbeldi
  • Mansali
  • Kúgun
  • Handtöku og gæsluvarðhaldi af geðþóttaástæðum
  • Útburði af heimili sínu
  • Áreitni
  • Mismunun
  • Útilokun frá heilbrigðisþjónustu
  • Þvinguðu HIV-prófi
  • Eiga ekki kost á að fá lagalega úrlausn mála sinna

Amnesty Internati­onal hefur skráð mörg tilfelli þar sem lögregla, kaupendur og aðrir einstak­lingar hafa brotið á vænd­is­fólki án refs­ingar.

3. Hvað leggur stefna ykkar til að stjórnvöld geri til að stöðva þetta?

Stefnan kallar á stjórn­völd að vernda, virða og uppfylla rétt­indi vænd­is­fólks meðal annars með því að:

  • Vernda þau gegn skaða, misneytingu og þvingunum.
  • Tryggja að þau geti tekið þátt í að þróa lög og stefnur sem hafa áhrif á líf þeirra og öryggi.
  • Ábyrgjast aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnumöguleikum.

Stefnan kallar einnig eftir afglæpavæðingu vændis sem byggir á gögnum um að glæpavæðing skerði öryggi vændisfólks með því að koma í veg fyrir að það geti tryggt sér vernd lögreglu og með því að sjá til þess að níðingar njóti refsileysis.Þú getur lesið stefnuna í heild sinni hér.

4. Hvað felur afglæpavæðing vændis í sér?

Afglæpavæðing þýðir ekki afnám laga sem gera misneytingu, mansal eða ofbeldi gegn vændisfólki refsivert. Þessi lög verða að vera til staðar og það er bæði hægt og æskilegt að efla þau. Afglæpavæðing þýðir afnám laga og stefna sem gera vændi saknæmt eða refsivert.

Það getur átt við að falast eftir vændi, leigja aðstöðu, „reka vænd­ishús“ og afla sér tekna með vændi.

Amnesty notar hugtakið vændi eingöngu þegar um er að ræða gagn­kvæmt samþykki full­orð­inna aðila.

5. Af hverju styður Amnesty International afglæpavæðingu?

Afglæpa­væðing veitir aukið svigrúm til að vernda rétt­indi vænd­is­fólks. Má þar nefna:

  • Aðgang að heil­brigð­is­þjón­ustu
  • Mögu­leika til að tilkynna glæpi til yfir­valda
  • Mögu­leika til að skipu­leggja sig og vinna saman til að auka öryggi sitt
  • Eða þá hughreyst­ingu sem felst í því að vita að fjöl­skylda þess verður ekki ákærð fyrir „ágóða af vændi“

6. Vændisfólk þarfnast verndar en afhverju ætti að vernda „dólgana“?

Stefna okkar snýst ekki um að vernda „dólga“. Hver sem misnotar eða notfærir sér vændisfólk ætti að þurfa að svara til saka fyrir gjörðir sínar. Lögum um „dólga“ fylgja veruleg vandamál.  Þau skaða iðulega vænd­is­fólkið vegna þess að þau eru of almenn og ekki nógu skýr.

Sem dæmi er í mörgum löndum litið á það sem rekstur hóruhúss þegar tveir einstaklingar í vændi vinna saman til þess að bæta öryggi sitt. Slík samvinna því ólögleg.  Amnesty Internati­onal telur að lögin eigi að takast á við misneyt­ingu, misnotkun og mansal í vændi en ekki gera líf vænd­is­fólks óöruggara en ella.

7. Telur Amnesty International það til mannréttinda að geta keypt vændi?

Nei. Stefna okkar snýst ekki um réttindi vændiskaupenda. Hún á að vernda vænd­is­fólk sem stendur frammi fyrir mann­rétt­inda­brotum vegna glæpa­væð­ingar vændis. Amnesty telur það ekki til mann­rétt­inda að geta keypt vændi en vænd­is­fólk verður að njóta mann­rétt­inda. Samþykki fyrir kynlífi þarf ávallt að vera til staðar. Enginn getur áskilið sér rétt til kynlífs.

8. Hvernig er lögleiðing vændis öðruvísi en afglæpavæðing?

Lögleiðing þýðir að innleidd yrðu sértæk lög til að setja reglur um vændi. Amnesty er í sjálfu sér ekki á móti lögleið­ingu en stjórn­völd verða fyrst og fremst að tryggja mann­rétt­indi vænd­is­fólks. Sláandi dæmi um hvernig lögleiðing vændis getur farið úrskeiðis er að finna í Túnis. Þarlent vænd­is­fólk sem vinnur í viður­kenndum vænd­is­húsum en óskar eftir að yfir­gefa störf sín þarf að verða sér út um heimild frá lögregl­unni og sýna fram á að það geti unnið fyrir sér á „heið­ar­legan hátt“. Vænd­is­fólk sem starfar utan þess­arar reglu­gerðar er brotlegt og er án laga­verndar.

9. Mun afglæpavæðing ekki ýta undir mansal?

Afglæpa­væðing vændis þýðir ekki að mansal sé án viður­laga. Mansal er gróft mann­rétt­inda­brot. Ríki verða að vera með löggjöf sem gerir mansal refsi­vert. Beita þarf lögunum til að vernda þolendur og draga gerendur sem standa að mansali fyrir dóm.

Engin áreið­anleg gögn benda til þess að afglæpa­væðing vændis ýti undir mansal.
Glæpa­væðing vændis getur hindrað baráttuna gegn mansali. Til dæmis geta þolendur verið tregir til að stíga fram af ótta við að lögreglan grípi til aðgerða gegn þeim fyrir að vera í vændi.

Á stöðum þar sem vændi er refsi­vert nýtur vænd­is­fólk ekki verndar frá vinnu­stað sem gæti hjálpað til við að bera kennsl á og koma í veg fyrir mansal.

Ýmis samtök sem berjast gegn mansali eins og Freedom Network USA, the Global Alli­ance Against Traffic in Women og La Strada Internati­onal telja að afglæpa­væðing vændis myndi hafa jákvæð áhrif á baráttuna gegn mansali.

10. Mun afglæpavæðing vændis ekki skaða réttindi kvenna og leiða til aukins kynjamisréttis í heiminum

Kynjam­is­rétti getur haft mikil áhrif á það hvort konur leiðist út í vændi. Glæpa­væðing tekst ekki á við þann vanda heldur dregur aðeins úr öryggi þeirra. Hið sama á við um trans og karl­kyns vænd­is­fólk, sem margt hvert er samkyn­hneigt eða tvíkyn­hneigt, sem upplifa mismunun og ójöfnuð. Ríki verða að berjast gegn mismunun og skaðlegum staðalímyndum kynjanna, valdefla konur og aðra jaðarsetta hópa og tryggja að fólk hafi val á hvern hátt það aflar sér tekna.

11. Af hverju styður Amnesty International ekki norrænu leiðina?

Lög gegn kaupum og skipu­lagn­ingu á vændi skaðað vænd­is­fólk óháð ásetningi laganna. Vænd­is­fólkið þarf að taka á sig aukna áhættu til að vernda kaup­endur frá því að upp um þá komist. Til dæmis hefur vænd­is­fólk tjáð Amnesty að það sé þvingað til að sækja kaup­endur heim svo þeir geti forðast lögregluna. Það þýðir að vænd­is­fólk missir ákveðna stjórn á aðstæðum og stefnir öryggi sínu í hættu.

Í norrænu leið­inni er vænd­is­fólki enn refsað fyrir að vinna saman eða skipu­leggja sig til þess að gæta að öryggi sínu.

Það getur einnig staðið frammi fyrir erfiðleikum þegar kemur að því að tryggja sér húsnæði þar sem húsráðendur gætu átt yfir höfði sér kæru fyrir það eitt að leigja þeim húsnæði. Þetta getur leitt til þess að vændisfólk sé borið nauðugt út af heimilum sínum.

12. Er Amnesty þá ekki að styðja vændisiðnaðinn?

Amnesty Internati­onal hvorki styður né fordæmir vændi heldur fordæmir harð­lega mann­rétt­inda­brot gegn vænd­is­fólki og þá mismunun sem það stendur frammi fyrir.  Afglæpa­væðing er mikil­vægt skref í áttina að því að tækla þennan vanda.

13. Hvað með þá sem eru ósammála ykkur?

Við viður­kennum að það ríkir grund­vall­armunur á skoð­unum fólks um afglæpa­væð­ingu vændis og við virðum viðhorf þeirra sem styðja ekki þá afstöðu sem við höfum tekið. Við viljum opna umræðu um hvaða leiðir eru best fallnar til að vernda mann­rétt­indi vænd­is­fólks.

Við teljum að það ríki samhugur margt, m.a. um að tryggja að fólk í vændi, eða fólk sem íhugar að fara í vændi, hafi val um lífs­við­ur­væri og geti hætt í vændi hvenær sem er.

14. Við hvaða gögn styðst Amnesty í afstöðu sinni?

Við viður­kennum að það ríkir grund­vall­armunur á skoð­unum fólks um afglæpa­væð­ingu vændis og við virðum viðhorf þeirra sem styðja ekki þá afstöðu sem við höfum tekið. Við viljum opna umræðu um hvaða leiðir eru best fallnar til að vernda mann­rétt­indi vænd­is­fólks.

Við teljum að það ríki samhugur margt, m.a. um að tryggja að fólk í vændi, eða fólk sem íhugar að fara í vændi, hafi val um lífs­við­ur­væri og geti hætt í vændi hvenær sem er.